Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 19

Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 19
Blaðað í nýjum H.E.B. bókum Ólafur Jónsson: Úr bókinni DYNGJUFJÖLL OG ASKJA Föstudaginn 20. okt. sáust gufubólstrar yfir Dyngjufjöllum frá Baldursheimi í Mývatnssveit. Hvort því hefur valdið sér- lega gott skyggni eða hvort þá hafa orðið þar einhver umbrot er þó ekki vitað. Þann 24. okt. flaug Tryggvi Helgason með nokkra farþega inn yfir Öskju. Sáu þeir þá glöggt sprengigíg- inn Hrekk, og virtist þeim hann tugir metra í þvermál. Gufu- gos, um 200 m hátt, varð í gígnum, meðan þeir voru yfir Öskju en engin föst efni sáu þeir í gosinu. Nú tekur rás atburðanna í Öskju að örfast. Fimmtudaginn 26. okt. sjást úr farþegaflugvél, er flaug ofar skýjum milli Reykjavíkur og Akureyrar, gosstrókar miklir stíga upp i gegn- um skýjaþykknið í stefnu á Dyngjufjöll. Um kl. 18.30 þenn- an sama dag flugu tvær þotur frá Keflavíkurflugvelli yfir Öskju. Sáu flugmennirnir þar mikið eldgos. Eldstrókarnir úr gígunum risu í nokkur hundruð m hæð, en gosmökkur náði allt að 20 þús. fetum. Hvítglóandi hraun streymdi eins og stórfljót frá eldvörpunum. Sama kvöldið kl. 22.30—23.30 var svo Björn Pálsson í flugvél sinni fullskipaðri farþegum yfir Öskju. Þátttakendur í þessari för meðal annarra voru Agnar Kofoed Hansen, flugmálastjóri, og dr. Sigurður Þórarinsson. Þegar þeir komu norður um Hofsjökul sáu þeir eldrauða gos- mekkina, og er inn yfir Öskju kom sáu þeir hvítglóandi eld- súlurnar, um 1000 feta (rösklega 300 m) háar, sem stóðu upp úr fjórum gígum rétt innan við Öskjuopið. Gosmökkurinn reis eftir ágizkun í 20—25000 feta hæð. Austur um Öskjuop beljaði glóandi hraunelfan með miklum hraða og hafði þeg- ar náð ca 8 km lengd og virtist stefna suður með fjöllunum í átt til Dyngjuvatns. Suður af eldvörpunum við Öskjuop virtist annar gosmökkur lægri koma upp. Flaug þeim helzt í hug, að hraun væri tekið að renna suður í vatnið. Svo var þó ekki, en vegna mikils gufuútstreymis suður með fjallshlíðinni, öskuryks frá gosinu, náttmyrkurs allt umhverfis og geysilegs uppstreymis í nágrenni eldvarpanna, var mjög örðugt að fá glögga og rétta hugmynd um það, sem þarna var að gerast eða staðsetja einstök fyrirbæri af nokkurri nákvæmni. Það eina, sem allir gátu skilyrðislaust orðið sammála um, var, að þetta sjónarspil, er þarna bar fyrir augu, væri stórkostlegt og ægi- legt. Næsta dag, 27. október, er mikið flogið til eldstöðvanna. Tryggvi Helgason mun þá hafa flogið þrjár ferðir. Lágskýj- að var, en þó tókst Tryggva að smeygja sér undir skýjaþykkn- ið inn í gegnum Öskjuop og ná allgóðum myndum af gosinu og fá sæmilegt yfirlit yfir gosstöðvarnar og hraunrennslið. Gígirnir sem gjósa þennan dag eru fimm og liggja í röð nokk- urn veginn þvert á Öskjuopið. Austasti gígurinn gýs að stað- aldri eldstólpa í um 400 m hæð, hinir gígirnir gjósa minna og misjafnara. Hraunið stefndi i austur á Vikrafell og gizkaði hann á, að það væri um níu km á lengd og virtist honum það lengjast um 100 m á klukkustund. Miðja hraunsins var enn rauðglóandi all langt frá eldvörpunum en fjærstu tungurnar og jaðrarnir dökkir. Meðfram fjallshlíðinni suður frá Öskju- opinu, þar sem gufan fyrst brauzt út, rauk mikið en engar stórbreytingar virtust hafa orðið þar. Jónas Jónsson frá Hriflu: Úr bókinni ALDAMÓTAMENN III Um síðustu aldamót kom tæplega þrítugur guðfræðingur að nafni Haraldur Níelsson frá prófi í guðfræði í Kaup- mannahöfn. Hann settist að í Reykjavík og byrjaði að þýða meginhluta Gamla testamentisins úr hebresku á íslenzku. Heima er bezt a. 419

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.