Æskan - 01.01.1972, Side 23
Branda gamla
Pegar ég var sjö ára gamall, byrjaði ég að reka
kýrnar á barnaheimilinu, sem ég ólst upp á. Þá
fannst mér, sem mér hlotnaðist mikill heiður. Við
vorum flest 17, börnin á þessu barnaheimili, á mis-
jöfnum aldri, allt frá tveggja ára til tólf ára. Ég kom þangað,
er ég var rúmlega eins árs gamall. Þess vegna liðu nokkur
ár þar lil mér var trúað fyrir kúnum á heimilinu.
Á morgnana fór ég á fætur klukkan 8 til þess að vera
búinn að fá mér að borða, áður en lokið var að mjólka.
Það var nokkuð löng leið, sem ég þurfti að reka kýrnar á
hverjum morgni, og svo að sækja þær að kveldi. Á leið
þeirri þurftu kýrnar að fara yfir lítinn læk Og fram hjá
þremur öðrum bæjum. Kýrnar voru fimm og hétu allar
ákveðnum nöfnum. Þessi litla saga fjallar aðeins um eina
af þessum fimm kúm, því að mig langar til að sýna fram á,
hvað kýrnar eru greind dýr, þótt flestir telji þær meðal
heimskustu húsdýranna. Þessi kýr hét Branda og fékk
nafnið vegna þess að hún var bröndótt.
Branda var keypt gömul að heimilinu, og það tók hinar
kýrnar langan tíma að samþykkja hana í félagsskap þeirra.
En Branda var sterk og frek, þótt hún væri fremur smá-
vaxin, og því var hún nokkuð fljót að vinna sér virðingu
hinna kúnna. Með okkur Bröndu tókst strax mikil vinátta.
Ég fékk stundum að mjólka hana, og ég lagði mestan hug
minn i að hugsa um þessa kú, kannski mest vegna þess,
að hinar kýrnar voru vondar við hana í fyrstu. Branda gamla
var alltaf seinust í röðinni í hagann, því hún var orðin fóta-
veik. Aldrei datt mér þó í hug að dangla í hana, því hún
hélt alltaf áfram, þótt seint færi. Þegar komið var að lækn-
um, staðnæmdust kýrnar venjulega, og þurfti ég að reka á
eftir þeim yfir. Til þess að þurfa ekki að vökna í fæturna
eða fara úr skónum, leyfði ég mér þau sérréttindi fyrir um-
burðarlyndi það, er ég sýndi Bröndu gömlu, að setjast á
bak henni og lét hana bera mig yfir. Ég var lítill og vesæld-
arlegur, og þó að hún væri farin að eldast, þá bar hún mig
léttilega yfir, enda var lækurinn ekki breiður. Bröndu gömlu
fannst þetta sjálfsagt, og ef ég var eitthvað að slóra á eftir
þeim, þá beið hún ætíð eftir mér. Það var helzt þegar fór að
líða á sumarið og berin tóku að þroskast, að ég vildi tefjast
og fylgja þeim illa eftir. Oft þegar ég kom að læknum, sá ég
Bröndu gömlu bíða mín og hafði þá stundum lagzt á meðan,
en hún stóð upp um leið og ég var kominn og bar mig yfir
eins og venjulega.
Á fyrsta bænum, sem ég þurfti að reka kýrnar fram hjá,
var mannýg kýr, sem ég var voðalega hræddur við, og
oft vildu hóparnir blandast saman. Þá gætti ég þess ævin-
lega að halda mig sem næst Bröndu, þar fann ég helzt
einhverja vernd. Enda sýndi það sig seinna, að þar var
ég öruggur. Eitt sinn ætlaði mannýga kýrin að stanga mig,
en þá var eins og fyki í þá gömlu, og hún réðst á þá mann-
ýgu og stangaði hana svo rækilega, að eftir þetta var ég
öruggur við hlið hennar. Hún þurfti ekki annað en setja
undir sig hausinn eftir þetta, þá flýði sú mannýga. Það
leyndi sér ekki, að Branda gamla gerði sér Ijósa hræðslu
mína og vildi vernda mig vegna þess hvað ég var henni
alltaf góður. Enda gerði ég henni veturinn sem léttastan
með því að skera torfur til þess að láta hana liggja á og
kemba henni, þegar stund gafst frá skólabókunum. Alltaf
sleikti Branda mig meðan ég var að mjólka hana, og þótt
mér fyndist það ekki beinlínis neitt þægilegt, þá vildi ég
ekki móðga hana með því að banna henni það. Hún var
ekki að þessu nema af því hún hélt, að mér þætti þetta
gott, og það væri ekki vanþörf á því að þrífa mig svolítið,
eins og þær gera við kálfana sína. Svona geta blessuð
dýrin verið manninum góð, þótt menn gefi sér oft ekki tíma
til að taka eftir því. Hvað er því skemmtilegra en vera góður
við þessar skepnur eins og aðrar. Nú þegar vetur fer í hönd,
gengur sá tími í garð sem þessi dýr þurfa að vera bundin
á sínum bás. Þetta er enginn sældartími fyrir kýrnar. Þvi
finnst mér, að maður eigi að reyna að gera þeim veturinn
sem þægilegastan með því að sjá svo um að vel fari um
þær á básunum og kemba þeim minnst einu sinni á dag.
Enda fer nytin eftir því, hvort kúnni líður vel. Það er ekki
alltaf víst, að pabbi hafi tíma til að kemba kúnum á hverjum
degi eða vinnumaðurinn. En við höfum kannski tíma til þess
frá skólabókunum, því ekki tekur langan tíma að kemba
kúnni.
Róbert Valdimarsson.
HENRY FORD byrjaði ævi sína sem úrsmiður
Ekki þó sem atvinnumaður,
því að hann var of ungur til
þess. Þegar hann var tíu ára,
þótti hann svo lagtækur, að
allir í grenndinni komu til
hans með úrin sín í viðgerð,
og Ford tókst alltaf að fá þau
til að ganga rétt. En hugur
hans var þó alltaf við önnur
stærri hjól, enda varð honum
svo vel ágengt við þau, að
hann varð mesti hilasmiður i
heimi.
21