Dýravinurinn - 01.01.1895, Blaðsíða 36
30
Vörn og hapt.
Jeg einatt hugsa’ um engi’ og tún,
og opt er rekið frá.
En skepnan sjálf, hvað hugsar hún
um hörku-meðferð þá?
A svipinn dauf og súr hún er
og sýnist raunaleg.
Hún seinkar ferð, en samt hún fer,
þó sjáanlega treg.
Þú hugsar sjálfsagt, hestur minn,
sem hrakinn ert á braut,
sá geti’ ei verið vinur þinn,
sem ver þjer græna laut.
Þjer flnnst það sjálfsagt fjarska rangt
að fara svo með þig,
að minnsta kosti mjög svo strangt
að mega’ ei fylla sig.
En hvernig færi, hestur minn,
ef hey væri’ ekki til,
er veður yfir veturinn
með vonzku-hriðarbyl?
Þá fóðrið þitt ei fengir þú,
en færir gaddinn á.
Því völlinn græna ver jeg nú,
að vel þjer líði þá.
Þig hneykslar sjálfsagt, hestur minn,
að hepta skuli’ eg þig, —
að fjötra skuli’ eg fótinn þinn,
er fer svo vel með mig;
það hart og rangt þú hugsar eins,
en hyggilegt það er;
þú íærir annars mjer til meins,
og máske sjálfum þjer.
Þjer finnst þú einnig, maður minn,
í mörgu leikinn hart;
þú skilur ei, hví skaparinn
þjer skammtar stundum spart.
Þú skilur heldur ekkert í,
hví á þig lagt er hapt;
þjer finnst þó ekkert frelsi’ i þvi,
að fjötra svo þinn krapt.
Ei skepnan mannsins skilur ráð,
en skaparans ei þú.
Það opt er vizka, opt er náð,
er illt þjer sýnist nú.
Að skynjan ber þú skepnum af,
en skaparinn af þjer.
Og hvað hann tók, og hvað hann gaf,
það hollast sjálfsagt er.
/
Valdimar Briem.