Kirkjuritið - 01.01.1950, Blaðsíða 53
BJARTSÝNI KRISTINDÓMSINS
51
(Sbr. Mark. 4, 12). Sagði hann dæmisöguna um glataða
soninn og miskunnsama Samverjann til þess að dylja fyrir
áheyrendum sínum kærleiksboðskapinn, sem þær hafa
að geyma? Hver hugsandi maður hlýtur að sjá, að slíkt
fær ekki staðizt. Dæmisögur Jesú og líkingar eru engar
ráðgátur, eins og Gyðingar hugðu dæmisögur vera. Þær
andmæla sjálfar augsýnilega þeim skilningi.
Þegar útskúfunarkenningin er borin saman við kjarnann
í gleðiboðskap Krists, kemur gleggst í ljós, hver fjarstæða
hún er. Guð er faðir mannanna. Það er þungamiðja alls,
er Jesús kennir. Og í því að Guð er faðir felst ekki aðeins
það, að hann hefir gefið mönnunum lífið og annast þá
á allan hátt, og þeir eru hans ættar, heldur það bæði síð-
ast og fyrst, að hann elskar þá, því að Guð er kærleikur.
Til þess að leiða í ljós villu kenningarinnar um útskúfun
mannkynsins þarf því ekki annað en spyrja líkt og Jesús:
Ef nú þér, sem vondir eruð, viljið eigi börnum yðar mein,
myndi þá faðirinn af himni hafa búið börnum sínum örlög
glötunarinnar um alla eilífð? Og vilji menn verja kenn-
inguna með því, að mennirnir sjálfir hafi búið sér þessi
örlög með misbeitingu viljafrjálsræðisins, þá er því að
svara, að allt þetta hafi alvitur Guð hlotið að sjá fyrir,
°g hvernig megi það þá vera, að almætti hans láti verða
til slíkar verur vansælar um alla eilífð. Fagnaðarerindið
mesta, sem Kristur flutti: Guð er kærleikur vísar kenning-
unni ljótu á bug. Og jafnvel þótt menn geti ekki fallizt
á það, að nokkur orð frumkristninnar hafi verið lögð í
Kristi í munn, þá verður að meta kenning hans eftir anda
hennar og meginefni fremur en bókstaf.
Fagnaðarboðskapur Krists um föðurkærleika Guðs
megnar þannig að leysa mannkynið við helvítisóttann, ef
það veitir boðskapnum viðtöku. Því að ótti er ekki í
elskunni, heldur útrekur fullkomin elska óttann. En ábyrgð
lífsins helzt engu að síður, því að sárast af öllu er að
brjóta í móti vilja kærleikans sjálfs.