Eimreiðin - 01.04.1930, Page 102
EIMREIÐIN
Útþrá.
Eftir Margréti Jónsdóttur.
Ég vil halda á höf, ég vil hvergi eiga töf,
ég sé hilla undir sólroðin lönd,
þar sem dagurinn skín. Vorsins rósfagra lín
leggur bjarma á ókunna strönd.
Út við hafsbrún ég sá
yfir Ægisdjúp blá
bera eldskin hins heilaga báls,
og hin logheita þrá
ber mig ljósvængjum á,
ég vil lifa — ég skal verða frjáls.
Ó, þú kúgunarmál, ó, þú kaupmensku sál,
ó, þú krónunnar sárbeitta vald.
Þú, sem tjóðraðir mig, bazt mig tötranna stig,
þó að tár mín ég byði í gjald.
Ég var vakin með söng
fyr um vordægrin löng,
þegar vorfuglar tóku til máls.
Ég á söngvarans blóð,
ég á sumarsins ljóð,
ég vil syngja — ég skal verða frjáls.
Út í holskeflu danz! Hver vill halda til lands,
þó að hvítlöðrið freyði á kinn!