Eimreiðin - 01.01.1941, Side 90
76
ÞÓRKATLA Á NÚPI
EIMREIÐIN
sín sjötíu ár og allar þeirra sorgir á herðum. Og hún tók kveðju
minni vingjarnlega.
— Það er ekki oft, sem fólk kemur hingað úr Reykjavík,
sagði hún.
Ég skýrði henni frá, hvernig ferðum mínum væri háttað,
og lét liún vel yfir, að menn legðu land undir fót, ef tími væri
til, og kynntust fjarlægum héruðum og byggðarlögum. Síðan
bauð hún mér þar að vera svo lengi, sem ég vildi, og flaug
mér þá í hug mikilúðleg höfðingjakona frá söguöldinni, svo
mjög fannst mér til um hina glæstu framkomu hennar.
Hún bauð mér inn í rúmgott anddyri, lét roskna konu, sem
þar var fyrir, vísa mér til snoturs og þægilegs herbergis, og
benti sú hin sama mér einnig á baðklefa, þar sem ég gæti
hreinsað af mér ferðarykið, áður en gengið væri til borðs.
Meðan ég lá í baðkerinu og lét volgt vatnið leika um líkama
minn, hugsaði ég um, hvort allt það, sem fyrir mig hafði borið
þennan dag, gæti i raun og veru verið satt og rétt, eða hvort
það væri aðeins draumur. En ég varð að trúa glaðværu tali
fólks úti fyrir, sem var að koma heim frá vinnu, og hinu prýði-
lega búna borði, sem konan vísaði mér inn til, er ég kom ný-
þveginn niður stigann.
Það var borið á borð fyrir þrjá, og ég þóttist vita, að Þór-
katla og Guðrún myndu matast með mér. Ég stóð og litaðist
um í hinni vistlegu stofu, er hurðin var opnuð og ung stúlka
kom inn. Ég hopaði á hæli og kom ekki upp nokkru orði fyrir
undrun. Hún staðnæmdist einnig i dyrunum og starði á mig,
meðan kinnar hennar sveipuðust léttum roða. Og nú sá ég
glöggt, á hverja Þórkatla hafði minnt mig við fyrstu sýn, því
að Guðrún var lifandi eftirmynd hennar.
— Þér hér, Guðrún, gat ég loksins stamað, og hún lét
undrun sína í Ijósi á svipaðan hátt. Og svona stóðum við eins
og álfar úr hól, þegar húsfreyjan kom inn, leit einkennilega
til okkar, skaut fram þeirri athugasemd, að við hefðum sjálf-
sagt kynnzt í Reykjavík, og bauð okkur að gera svo vel.
Maturinn var óbrotin sveitafæða, prýðilega framreidd. Og
mér mun þessi máltíð seint gleymast, þarna sem ég sat and-
spænis stúllcunni, sem um tveggja ára skeið hafði ekki vikið
úr huga mínum, þótt kynni okkar hefðu ekki verið mikil, en