Eimreiðin - 01.10.1954, Blaðsíða 61
eimreiðin ÖLYGINN SAGÐI MÉR 293
danzar, drekkur og slæst á laugardagskvöldum, eins og í
öðrum ,,gúttóum“ þessa lands.
Þorpið er í flestu líkt öðrum sjávarplássum á Islandi. Hér
gerist ekki sú Islandssaga, sem skráð er á bækur. Blöð og
útvarp nefna þetta þorp varla nema einu sinni til tvisvar
á ári og þá helzt í sambandi við rýran grasvöxt eða afla-
tregðu.
Samt er alltaf eitthvað að gerast. Hér gerist saga þorps-
ins, og hér gerist saga hvers einstaklings. — Presturinn
skírði hjá Bakkahjónunum á sunnudaginn, Jón í Koti var
fullur í gær, krakkarnir á Nesi liggja í hálsbólgu í dag, og
Kiddi á Mel ætlar að taka slátur á morgun. — Þessi saga
endurtekur sig í sífellu með ótal tilbrigðum. Svona er sú
Islandssaga, sem ekki er skráð á bækur. Þessi saga gengur
óskráð munn frá munni, og hið hversdagslega efni hennar
litast meira eða minna af ímyndunarafli sögumannsins. Sumu
er lítt á lofti haldið, því að það er jafnvel of hversdagslegur
hversdagsleiki til þess að endursögnin borgi sig. En sé eitt-
hvað matarbragð að söguefninu, tekur það oft undarlegustu
lita- eða jafnvel hamskiptum. Og ef til vill getur litla fjöðrin
hans Andersens orðið að fimm hænum, hér sem annars
staðar.
*
Eitt reisulegasta húsið í þorpinu heitir Nýibær. Þar býr
dugandi útvegsmaður, Ari að nafni. Hann hefur stundað
trilluútgerð í fjöldamörg ár af miklu kappi og harðfylgi,
enda bjargálnamaður og vel það. Kona hans, Erna, tví-
breið stútungskerling, komin af hættusvæðinu, er stödd í
eldhúsinu.
Hjá henni eru tvær nágrannakonur, Soffía í Vík og Hanna
í Gerði. Það er komið kvöld. Ari er að dytta að veiðarfærum
sínum niðri í skúr og dóttirin, tvítug beinasleggja, er ein-
hvers staðar úti.
Eldur logar glatt í maskínunni. Konurnar sitja við dúkað
kaffiborð og gæða sér á rjúkandi kaffi og allavega bakkelsi,
enda nýtur frú Erna almennrar viðurkenningar í þorpinu
fyrir góðar kökur og liðugan talanda.
I upphafi er rætt um allt milli himins og jarðar, en brátt