Tímarit lögfræðinga - 01.04.2000, Blaðsíða 29
Því hefur verið haldið fram gegn þessari niðurstöðu að hentugra sé að
greiðsluskylda ábyrgðarmanns verði virk strax við töku bús aðalskuldara til
gjaldþrotaskipta án tillits til þess hvort fullnusta fáist við skiptin. Með því verði
einföld ábyrgð raunhæfari trygging fyrir efndum kröfu og það geti þegar á
heildina er litið verið frekar í samræmi við hagsmuni þeirra sem gangast í
ábyrgð þar sem ella megi vænta þess að kröfuhafi geri áskilnað um sjálfskuldar-
ábyrgð. Einnig geti gjaldþrotaskipti á búi aðalskuldara dregist á langinn en
ábyrgðarmaður geti fyrirfram ekki reiknað með slíku hagræði sem ástæðulaust
sé að tryggja honum. A hinn bóginn verði kröfuhafi að bera áhættuna af þverr-
andi greiðslugetu ábyrgðarmanns meðan greiðsluskylda hans verður ekki virk.
Sú staðreynd að oft sé efnahagsleg samstaða með ábyrgðarmanni og aðalskuld-
ara leiði til þess að ríkir hagsmunir séu fyrir kröfuhafa að geta gengið að
ábyrgðarmanni þegar við upphaf gjaldþrotaskipta. Þá er vísað til þess að
almennt sé reynslan sú að lánardrottnar fái ekki teljandi fullnustu við gjald-
þrotaskipti.39 Þessar röksemdir virðast sannfærandi en ráða þó sennilega ekki
úrslitum. Ef þetta tímamark verður lagt til grundvallar væri unnt að ganga að
ábyrgðarmanni í kjölfar úrskurðar um gjaldþrotaskipti á búi aðalskuldara
jafnvel þótt gera megi ráð fyrir umtalsverðri úthlutun við skiptin. Sú niðurstaða
væri í andstöðu við þá grundvallarreglu að ábyrgðarmanni verður ekki gert að
efna þann hluta kröfu sem fenginn verður með tiltækum ráðum úr hendi
aðalskuldara.
3.3.3.4 Nauðasamningur fyrir aðalskuldara
Þegar aðalskuldari leitar nauðasamnings getur reynt á greiðsluskyldu sam-
kvæmt einfaldri ábyrgð. Hér verður fyrst og fremst hugað að nauðasamningi án
undanfarandi gjaldþrotaskipta samkvæmt 3. þætti laga nr. 21/1991 um gjald-
þrotaskipti o.fl. Sömu atriði hljóta að koma til álita þegar leitað er nauða-
samnings við gjaldþrotaskipti, sbr. XXI. kafla laganna, en þá kemur einnig til
skoðunar það sem þegar hefur verið rætt um gjaldþrotaskipti á búi aðalskuldara.
Eins og áður getur verður greiðsluskylda ábyrgðarmanns væntanlega ekki
virk við það eitt að bú aðalskuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta. Því síður kemur
til álita að greiðsluskyldan verði virk við þá aðstöðu að aðalskuldari fái heimild
til að leita nauðasamnings samkvæmt VII. kafla laga nr. 21/1991. Slík heimild
ein og sér getur ekki talist fullnægjandi sönnun um ógjaldfærni aðalskuldara í
þeim mæli að greiðsluskylda ábyrgðarmanns verði virk og því yrði kröfuhafi að
afla frekari sönnunargagna í þessu skyni.40
Komist nauðasamningur á fyrir aðalskuldara með staðfestingu hans fyrir
dómi verður að greina á milli þeirrar fullnustu sem samningurinn gerir ráð fyrir
og þess hluta skuldarinnar sem fellur niður við samninginn. Hvað varðar það
39 Carsten Smith: Garantirett I, bls. 234-235, Garantirett III, bls. 257-259 og Kausjonsrett, bls.
92-93.
40 Carsten Smith: Garantirett I, bls. 253.
23