Uppeldi og menntun - 01.01.2008, Page 36

Uppeldi og menntun - 01.01.2008, Page 36
36 flókinna tungumálaleikja. Þetta er ekki einungis einkenni á íslenskum markaði, held- ur alls staðar í kringum okkur. Maria Lypp (1995) skýrir fjölbreytni fyndinna bóka með því að ekki sé lengur að finna „almenna hláturmenningu“ eins og á sextándu og nítjándu öld. Engin ein gerð kímni sé því ríkjandi í barnabókum. Lypp vekur athygli á að grín í barnabókum sé ekki tekið eins alvarlega og fyrr á öldum. Ástæðuna segir hún þá að erfiðara sé að snúa hlutum á haus í nútímanum þar sem kennsla sé orðin afar frjálsleg og yfirvöld ekki lengur ógnandi (Lypp, 1995). við þetta má bæta að barna- bækur sem byggjast á kímni virka oft barnalegar, ef svo má segja, og hafa jafnvel verið úthrópaðar af velmeinandi uppalendum. Stundum á slík gagnrýni rétt á sér en oftar hefur þó gleymst að rýna undir yfirborðið. Silja Aðalsteinsdóttir (1999) bendir á að mikilvægt sé að víkka aðferðafræði við lestur og greiningu barnabóka og nálgast þær á annan hátt en skáldverk handa fullorðnum. Hún telur að barnabækur sem í raun séu verulega magnaðar geti virst ósköp einfaldar þegar þær eru greindar með hefðbundn- um bókmenntalegum aðferðum. Því þurfi að spyrja annarra spurninga til að afhjúpa galdurinn sem þær geyma (Silja Aðalsteinsdóttir, 1999). Boel Westin er á sama máli og telur „einfaldar“ barnabækur geta geymt ríkulega túlkunarmöguleika. Þær hafi hins vegar löngum verið útilokaðar frá heimi bókmenntarannsóknanna (Westin, 1997). Þannig eru barnabækur sem einkennast af ærslum eða kímni ekki alltaf greindar á eigin forsendum heldur afskrifaðar sem grunnar og einfaldar. vitleysan getur þó einmitt verið viturleg og haft margþættari tilgang en skemmtunina eina (Brynhildur Þórarinsdóttir, 2002). Cart (1995) bendir á að viðhorf fólks til fyndinna barnabóka hafi minna með innihaldið að gera en fordóma í garð kímni. Það kunni allir að meta kímni en þrátt fyrir það líti menn iðulega niður á hana. Maria Lypp (1995) ræðir einnig þessa fordóma og telur vandamálið meðal annars felast í því að í nýlegum rannsóknum á barnabókum sé kímni þeirra talin takmarkast við „barnalega“ kímni. Þar með séu þær systur satíra, íronía og paródía afskrifaðar á þeim forsendum að þetta séu of flóknar frásagnaraðferðir fyrir barnshugann. Lypp bendir á að strax á fyrsta skeiði barnabóka hafi bæði satíra og írónía fengið rúm í sögum handa börnum, eins og dýrasögur 16. aldar sýni. Það er því engin ástæða til að útiloka að svokallaðar flóknari gerðir kímni finnist í bókum handa börnum. Satíra og írónía eru í sjálfu sér ekki flókin form en kafa þarf undir yfirborð textans til að koma auga á þau. Gott dæmi er verðlaunabókin Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson (2006). Þetta er myndabók sem kynnt var fyrir börn á aldrinum 4 til 7 ára. Texti sögunnar er einfaldur og hugljúfur en samspilið við grallaralegar og gróteskar myndirnar gerir söguna ákaflega íróníska og fyndna. Áhugavert er að velta fyrir sér hvernig ólíkir aldurshópar gætu upplifað söguna. Myndir Halldórs eru ýktar og höfða til þeirra sem kunna að meta „detta á rassinn“ kímni (slap-stick). Börn 11 ára og yngri fylla þann flokk en kaldhæðni og írónía hugnast unglingum betur (Gentile og McMillan, 1978; onofrey, 2006). yngri börn geta þó numið írónískan tóninn enda vakna börn til vitundar um tvíræðni merkingar strax um 5–6 ára aldur (Dews o.fl., 1996; Pexman o.fl., 2005). Enn yngri börnum þarf ef til vill að benda á misræmi mynda og texta. Slík aðstoð við að túlka sögu er mikilvægur þáttur í bókmenntauppeldi og dregur engan veginn úr upplifun barnanna. KÍMNIGÁFUÐ BÖRN

x

Uppeldi og menntun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Uppeldi og menntun
https://timarit.is/publication/581

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.