Morgunn - 01.06.1922, Side 46
40
MORGUNN
Hjá miðlum á Englandi.
Eg dvaldist á Englandi nálægt mánaðartíma á síðast-
liðnu hausti. Meðan eg stóð þar við, sætti eg færi að
komast á þrjá tilraunafundi, sem allir voru merkilegir,
hver með sínum hætti. Auk þess kom eg á tvo fjölmenna
fundi, þar sem skygnilýsingar fóru fram; um þá get eg
ekki borið af eigin þekkingu, þvi að engum var lýst, sem
sagt væri að stæði í neinu sambandi við mig. En á báð-
um fundunum kváðust margir kannast við lýsingarnar,
einkum samt á öðrum þeirra. Á þeim fundi var Mr.
Peters skygnimiðilliim.
Eg hefði leitað til fieiri miðla, ef eg hefði ekki haft
miklu öðru að sinna, sem að sjálfsögðu varð að ganga fyrir.
Fyrst kom eg til hinna nafnfrægu ljósmyndamiðla i
Crewe, Mr. Hope og Mrs. Buxton. Hvorugt þeirra hefir
það að atvinnu sinni að taka ljósmyndir. Mr. Hope er
óbreyttur og mjög alþýðumannslegur verkamaður, en víst
prýðisvel greindur, og þau taka þessar kynjamyndir í
hjáverkum. Bæði eru þau ástúðleg í viðmóti, trúmenn og
mjög bænrækin. Mr. Plope er Hjálpræðishermaður, en frú-
in heyrir til biskupakirkjunni. Gunnar sonur minn var
með mér. Við komum með plötur, sem við höfðum keypt
um morguninn í Manchester. Viö rannsökuðum alt vand-
lega, ljósmyndavélina, baktjaldið o. s. frv. Gunnar lét
plöturnar inn í myndavólina, og tók þær út úr henni og
framkallaði myndirnar. Við sátum fyrir fjórum sinnum,
sumpart saman, sumpart sinn í hvoru lagi. Á eina plöt-
una kom mynd af karlmannsandliti, sem ekki var sýni-
legt þar í stofunni. Því miður þektum við ekki andlitið,
og ekki hefir heldur neinn þekt það, þeirra er hafa
séð það síðan. En óneitanlega er það merkilegt að fá
myndir af mönnum, sem ekki eru sýnilega viðstaddir.