SunnudagsMogginn - 25.04.2010, Qupperneq 33
25. apríl 2010 33
Gróttu-KR og fór hann að leigja með þeim
sem kom með Alexander. Sjálfur bjó hann
enn um sinn hjá fjölskyldunni. „Ég ætlaði
að bíða eftir íbúðinni,“ segir hann kíminn.
Ekki nóg með það. Alexander þurfti að
vinna fyrir hádegi. Erfiða líkamlega vinnu
í Seglagerðinni Ægi. „Björgvin Barðdal var
duglegur að skutla mér en stundum var
hann vant við látinn. Þá var ég í vandræð-
um. Ég nefndi þetta við hann og gat þess
að gott væri að hafa bíl. Hann brást hratt
og örugglega við – útvegaði mér reiðhjól!“
Annars talar Alexander hlýlega um
Björgvin og fjölskyldu hans. „Þau hjálp-
uðu mér mikið og voru í raun mín fjöl-
skylda á Íslandi á þessum árum. Ég er enn
í góðu sambandi við þau.“
Fauk næstum á haf út
Upp frá þessu hjólaði Alexander á hverjum
morgni frá Seltjarnarnesi í Seglagerðina,
sem er til húsa á Eyjarslóð á Granda. „Ég
fór meðfram sjávarsíðunni og sóttist ferð-
in hægt á köflum, einkum í mestu vind-
hviðunum yfir háveturinn. Þá var
eiginlega fljótlegra að fara af baki
og leiða hjólið. Ég var stálheppinn
að fjúka ekki á haf út,“ rifjar hann
upp hlæjandi. Eftir á að hyggja
voru hjólreiðarnar góð líkams-
þjálfun fyrir Alexander en hann
viðurkennir að hafa ekki séð
þær í því ljósi á þeim tíma.
„Þetta var erfitt en í dag
er ég mjög ánægður
með að hafa haldið
þetta út. Þessi
fyrstu ár á Íslandi mótuðu mig mikið sem
manneskju.“
Hann viðurkennir að hafa íhugað að
snúa heim en staðist freistinguna. „Innst
inni vissi ég að betra væri að þreyja þorr-
ann á Íslandi. Það var ekki að neinu að
hverfa í Lettlandi.“
Félagi hans var á öðru máli og hélt heim
eftir árið. Í stað þess að gefast upp herti
Alexander róðurinn og fór að vinna fullan
vinnudag í Seglagerðinni. Hann vann þar
öll árin fimm sem hann bjó hér.
Alexander fann fljótt fjölina sína í hand-
boltanum. „Ég var snöggur og fann strax
að ég átti fullt erindi í íslensku deildina.
Eftir á að hyggja kunni ég hins vegar lítið
fyrir mér í taktík. Vildi bara skjóta og
skora. Ágúst þjálfari reyndi ítrekað að út-
skýra fyrir mér að það væru fleiri í liðinu
en ég – með misjöfnum árangri.
Liðsfélagarnir hafa örugglega
hugsað mér þegjandi þörf-
ina,“ rifjar Alexander upp
brosandi.
Ekki svo að skilja að auðvelt væri að lesa
Alexander pistilinn. Hann talaði hvorki ís-
lensku né ensku á þessum tíma. „Af ein-
hverjum ástæðum reyndu Íslendingar
frekar að tala ensku við mig en íslensku
sem var alveg galið vegna þess að ég talaði
ekki stakt orð í ensku. Fyrir vikið lærði ég
ensku hraðar en íslensku.“
Tungumálaörðugleikarnir háðu Alex-
ander og hann viðurkennir að hafa verið
frekar einangraður fyrsta kastið. Það
breyttist þegar hann kynntist íslenskri
stúlku, Eivoru Pálu Blöndal, árið 2000.
Hálfu ári síðar fóru þau að búa. „Hún opn-
aði eiginlega fyrir mér dyrnar inn í ís-
lenskt samfélag. Ég fór að umgangast fólk í
ríkari mæli. Kynni mín af Eivoru voru
klárlega vendipunktur í mínu lífi.“
Alexander stefndi leynt og ljóst að því
að komast til Þýskalands til að leika hand-
bolta og sá draumur rættist árið 2003 þeg-
ar hann ritaði undir samning við 2. deild-
arlið Düsseldorf. „Þetta var fínn
stökkpallur fyrir mig. Við komumst upp
fyrsta veturinn og tókst að hanga uppi.“
Alexander hafði í mörg horn að líta en
auk þess að venjast nýrri handboltadeild
og nýju samfélagi var Eivor orðin ólétt að
frumburði þeirra, Lúkasi Jóhannesi, þegar
þau fluttu til Þýskalands. Hann kom í
heiminn 2004. Í fyrra bættist síðan annar
sonur í hópinn, Tómas. „Það tók smá tíma
að laga sig að aðstæðum í Þýskalandi, læra
tungumálið og svona, en okkur hefur á
heildina litið liðið mjög vel þar.“
Árið 2005 færði hann sig um set til
stærra félags, Grosswallstadt, þar sem
vegur hans óx hratt. Framganga hans hjá
Grosswallstadt vakti athygli eins af topp-
liðunum, Flensborgar, sem festi kaup á
honum fyrir tveimur árum. Alexander
byrjaði vel þar en í vetur hefur hann
þurfta að verma varamannabekkinn
löngum stundum. Fyrir vikið mun hann
hafa vistaskipti í sumar og leika með
Füchse Berlin á næstu leiktíð.
„Þetta er skref aftur á bak í þeim skiln-
ingi að Füchse Berlin er ekki eins sterkt lið
og Flensborg. Á móti kemur að þjálfarinn
hefur trú á mér og ætlar að gefa mér
tækifæri til að sýna hvað í mér býr. Ég
er mikill keppnismaður að eðlisfari
og á ákaflega erfitt með að sitja á
varamannabekknum. Ég er í handbolta til
að hafa áhrif á gang mála og það er af-
skaplega erfitt ef maður er ekki inni á vell-
inum. Ég er staðráðinn í að komast í mitt
besta form hjá Füchse Berlin og sýna þjálf-
aranum hjá Flensborg að það voru mistök
að nota mig ekki meira.“
Eins og margir vita þjálfar Dagur Sig-
urðsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði,
Füchse Berlin. „Þrátt fyrir ungan aldur
hefur Dagur sýnt og sannað að hann er
frábær þjálfari, bæði með Füchse Berlin og
austurríska landsliðinu. Ég hlakka til að
vinna með honum.“
Degi og Alexander er vel til vina utan
vallar, auk þess sem Lúkas og sonur Dags
eru mestu mátar. „Þeir geta ekki beðið
eftir að leika sér saman á hverjum degi.
Síðan á Dagur tvær unglingsdætur sem
munu örugglega geta passað Tómas litla
fyrir okkur,“ segir hann og glottir.
Þá vitið þið það, stelpur!
Það er svo merkilegt að eftir að gert var
heyrinkunnugt að Alexander myndi yf-
irgefa Flensborg í sumar hefur hann fengið
heldur meira að spreyta sig – með góðum
árangri. „Margir stuðningsmenn hafa
beðið mig um að vera áfram. En það er
einfaldlega of seint.“
Ekki á leið í þjálfun
Alexander Petersson er á hátindinum sem
handboltamaður. Hann vonast til að vera
nokkur ár í viðbót í atvinnumennsku,
helst í Þýskalandi, en gerir ekki ráð fyrir
að leika aftur á Íslandi.
Spurður hvað taki við þegar ferlinum
lýkur segist hann ekki reikna með að fara
út í þjálfun. „Ég er ekki týpan í það.“
Alexander vonast þó til að vinna áfram á
vettvangi handboltans, til dæmis við
skipulagningu móta eða þvíumlíkt.
Honum þykir líklegt að hann eigi eftir
að verja miklum tíma á Íslandi í framtíð-
inni en gæti líka hugsað sér að búa í Lett-
landi eða Þýskalandi, þar sem hann hefur
prýðileg sambönd í handboltaheiminum.
Klikki handboltinn eitthvað getur Alex-
ander alltaf snúið aftur í Seglagerðina.
Hann ygglir sig þegar þá hugmynd ber á
góma. „Ég gæti svo sem alveg hugsað mér
að vinna þar aftur – svo framarlega sem ég
þarf ekki að hjóla í vinnuna!“
m. Ég er staðráðinn í að komast í mitt besta form hjá
xander Petersson landsliðsmaður í handbolta.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Tildrögin voru einfaldlega þau að Einar Þorvarðarson [fram-
kvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands] kom að máli við mig
árið 2002 og spurði hvort ég hefði áhuga á því að leika fyrir hönd ís-
lenska landsliðsins,“ svarar Alexander Petersson spurður hvernig
það kom til að hann gerðist íslenskur ríkisborgari.
„Mér leist strax vel á þetta. Í liðinu voru heimsklassaleikmenn eins
og Ólafur Stefánsson og Dagur Sigurðsson og áður menn á borð við
Geir Sveinsson og Valdimar Grímsson. Öfugt við lettneska landsliðið
leikur það íslenska á nánast öllum stórmótum og þetta var því frá-
bært tækifæri til að reyna mig við bestu leikmenn í heimi.“
Alexander þurfti ekki að hugsa sig lengi um. „Ég ræddi við foreldra
mína til að kanna hvort þau sæju einhverja annmarka á þessu. Það
gerðu þau ekki, sögðu einfaldlega að mitt væri valið. Ég sló því til.“
Vegna reglna alþjóðahandknattleikssambandsins varð Alexander
að bíða í þrjú ár eftir fyrsta landsleiknum vegna þess að hann hafði
leikið fyrir hönd Lettlands. „Sú bið var löng,“ dæsir hann.
Það var svo loks í ársbyrjun 2005 að hann lék sinn fyrsta landsleik,
í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Túnis. „Mér var strax treyst og
féll ágætlega inn í liðið. Strákarnir tóku mér líka vel en ég þekkti eng-
an þeirra persónulega áður, nema Guðjón Val Sigurðsson, sem ég
kynntist hjá Gróttu.“
Ferðin til Túnis var sneypuför hjá landsliðinu en Alexander var sátt-
ur við sinn hlut. Eftir það hefur hann ekki litið um öxl og er löngu orð-
inn lykilmaður í liðinu. Ekki þarf að spyrja um hápunktinn með lands-
liðinu. „Það dreymir alla íþróttamenn um að taka þátt í
Ólympíuleikum, hvað þá að vinna til verðlauna. Sú tilfinning verður
varla toppuð. Við ætluðum okkur stóra hluti á leikunum en það er ekk-
ert leyndarmál að árangurinn fór fram úr björtustu vonum.“
Landsliðið fylgdi silfrinu í Peking eftir með bronsi í Austurríki í jan-
úar síðastliðnum og Alexander getur ekki vikið sér undan spurning-
unni um gullið. Á liðið það inni?
„Hvers vegna ekki?“ svarar hann eftir stutta umhugsun. „Með
smáheppni eru gullverðlaun á stórmóti alveg raunhæfur möguleiki.
Við erum með frábæran þjálfara sem hefur óbilandi metnað fyrir hönd
liðsins og markvarslan batnar keppni frá keppni. Eftir eitt til tvö ár
verður Ólafur Stefánsson að vísu hættur og það skarð verður vandfyllt
en ungir og efnilegir menn eru að koma fram á sjónarsviðið,“ segir Al-
exander og nefnir Aron Pálmarsson sérstaklega í því sambandi.
„Hann hefur burði til að verða stórkostlegur leikmaður.“
Alexander segir Ísland geta unnið öll lið á góðum degi – líka Frakka
– og eðlilegt sé að gera kröfur til liðsins. „Höldum við okkur við sömu
hugmyndafræði á næstu árum eru okkur allir vegir færir.“
Spurður hvort hann líti á sig sem Íslending eða Letta hugsar Alex-
ander sig um stundarkorn. „Bæði,“ segir hann svo ákveðinn. „Ég verð
alltaf Letti, ræturnar eru þar. Það finn ég mjög greinilega í hvert skipti
sem ég kem þangað. Í Lettlandi eru líka fjölskylda mín og æskuvinir.
En ég er líka Íslendingur, konan mín og tengdafjölskylda eru héðan og
hér fékk ég tækifæri til að sanna mig sem handboltamaður. Ég finn
að Íslendingum þykir vænt um mig og vilja allt fyrir mig gera. Þess
vegna er ég líka Íslendingur.“
Allir vegir færir
Alexander stoltur með silfrið á Ólympíuleikunum í Peking.
Morgunblaðið/Brynjar Gauti