Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Mynd / Baldur Sveinsson Þúsundþjalasmiður í háloftunum Albert Sigurjónsson, hagleiks- smiður á Sandbakka í Villingaholts- hreppi, dundar sér við það í frístundum að smíða vindmyllur og flugvélar. Verkefnin eru meira en lítið metnaðarfull og er hvert þeirra mörg ár í smíðum. Þá tekur við prófun á meistarastykkjunum, en Albert segir það ólýsanlega tilfinningu að sjá sköpunarverkin virka og verða að veruleika. Albert er húsasmíðameistari og ólst upp á Forsæti við hlið Sandbakka þar sem hann býr nú. Hann var um árabil kartöflubóndi samhliða smíðum með bróður sínum Ólafi, sem býr nú á Forsæti. „Upp úr 1990 hættum við í kartöflunum, það er ekki hægt að vera með lítinn eða meðalrekstur í dag varðandi búskap, maður þarf að vera stór svo að þetta reki sig almennilega.“ Bróðir Alberts, húsasmiðurinn Ólafur, býr við hlið hans á bænum Forsæti þar sem hann og kona hans Bergþóra Guðbergsdóttir reka listagalleríið Tré og list. Albert segir handverkið ekki síður koma úr móðurætt þeirra bræðra. „Þetta er alls staðar, það er bara misjafnt hvað fólk fæst við að gera. Þetta fylgir mannskepnunni. Sköpunarþráin er rík í fólki, hvort sem það smíðar, málar eða skrifar, allt er þetta runnið af sama meiði. En maður gerir ekki nema eitt í einu.“ Faðirinn fyrirmynd „Framan af vorum við bræður mestmegnis að smíða heilu jarðirnar ef því var að skipta fyrir bændur. Seinni árin hefur lítið verið við að vera í landbúnaði, eitt og eitt fjós í byggingu en ekkert mikið meira en það. Við höfum byggt mikið af sérteiknuðum sumarhúsum úti um allt. Við höfum aldrei verið í tilboðsbransanum og þetta hefur gengið vel svona. Þetta hefur þó aldrei fyllilega fullnægt smíðaþörfinni minni, þetta er bara þrældómur og puð að vera að smíða fyrir aðra alla daga,“ segir Albert og bætir við; „Ég hef alltaf verið að dunda eitt- hvað með, ég man ekki eftir mér öðruvísi. Ég fór til dæmis í rennibekk föður míns, Sigurjóns Kristjánssonar, áður en ég lærði að lesa. Hann var mikill hagleiksmaður og fram- leiddi sjálfvirka spunarokka með mági sínum sem voru seldir út um allt land fyrir stríð. Þá síðustu gerði hann upp úr 1950. Síðan gerði hann venjulega rokka sem hann hannaði sérstakt mynstur á sem hann kenndi mér þegar ég var unglingur. Ég fram- leiddi slíka rokka á sínum tíma fyrir Íslenskan heimilisiðnað og það er enn í dag svolítil eftirspurn eftir þeim og ég fæ reglulega fyrirspurnir um að smíða rokka fyrir fólk.“ Vindmyllur og flugvélar Albert smíðaði vindmyllur á árunum 1983-1984 sem hann hitaði vatn með en það var alltaf flugvélasmíðin sem blundaði í honum. „Þetta virkaði allt vel en það var dýrt viðhald á vindmyllunum. Þetta þarf að vera vandað til að endast en ég hitaði vatn með þeim með vatnsbremsu. Ég var svo heppinn að bróðir minn, Kristján Már, er verkfræðingur í Reykjavík og hann safnaði gögnum um vindmyllur fyrir mig og var mér innan handar við þetta ævintýri varðandi burðarþol og annað. Þetta er tækni sem á rétt á sér til hitunar húsa, það er ekki spurning, og það væri til dæmis borðliggjandi sparnaður í Grímsey að setja upp álíka vindmyllur til að hita upp húsin í stað olíukyndingar. Þetta er líka annað umhverfi í dag þar sem tækninni hefur fleygt fram.“ Um tíu árum eftir vindmyllu- prófanir ákvað Albert að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að smíða sér eigin flugvél, en hann er með einkaflugmannspróf og flugvéladellan hefur blundað í honum um langa tíð.Mynd / ehg

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.