Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 38

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Lesendabás Eins og vænta mátti kom formaður LV fram með viðbrögð við grein okkar í Bændablaðinu 10. janúar og er málflutningurinn kunnuglegur. Hér er nauðsynlegt að vitna enn einu sinni í 4. málsgr. 39. gr. núgildandi laga, sem hljóðar svo: „Í samþykktum má ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafar þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.“ Nú verður að árétta hér setninguna „Hver deild ráðstafar þá veiði í sínu umdæmi með þeimn skilyrðum sem aðal- fundur félagsins setur“. Þetta er ekki flókinn texti og undarlegt að málsmetandi menn skuli ekki skilja hann. Starf veiðifélaga gengur út á að ráðstafa veiði og þarna segir raunverulega að deildin starfi í umboði og undir eftirliti móðurfélagsins. Það er bara allt í lagi með þetta og deildin fer sínu fram, svo lengi sem félagið leyfir. Allt félagssvæðið er undir forræði félagsins, samkv. núgildandi lögum, hvort sem um er að ræða deildir eða ekki deildir, því að deildirnar eru hluti af félaginu. Sambærilegt ákvæði í frumvarpinu er á þá leið að 39. gr. 4. mgr. 1. töluliður hljóðar svo: „Deild ráðstafar veiði og arði í sínu umdæmi.“ Hvorki þarna, né heldur annars staðar, er minnst á forræði móðurfélags, nema hvað varðar gerð fiskræktaráætlunar. Að öðru leyti verða deildirnar alveg óháðar félaginu um ráðstöfun veiði. Í 6. tölulið sömu gr. er gert ráð fyrir svohljóðandi ákvæði, vegna niðurlagningar deildaskiptingar: „…getur þá félagsfundur í deild óskað eftir að stofna veiðifélag á starfssvæði deildarinnar, sbr. 2. mgr. 38. gr.“ Þessi tilvísaða 2. mgr. 38. gr. vísar til forræðis Fiskistofu, en einskis móðurfélags. Veiðifélag Árnesinga hefur lengi gefið út fyrirmæli um upphaf veiðitíma á félagssvæði sínu, sem hefur verið rokkandi frá 20.- 28. júní, undanfarin ár. Þá hefur lengi verið í gildi raunverulegt netaveiðibann frá 10.-20. ágúst, fyrir tilverknað félagsins. Það hefur sýnt sig að laxgengd hefur verið treg á efri hluta svæðisins fram að þessum banntíma. Ef af þessari lagabreytingu verður og öllu félagssvæðinu verður skipt í sjálfstæðar deildir verður hverri deild aðeins skylt að fara að landslögum um veiðitíma, en þar segir frá 20. maí til 30. september, að hámarki 105 dagar, innan þeirra marka. Helgarstoppin á netaveiði halda sér en þetta veiðisvæði er það langt að lax gengur tæplega alla þá leið á 84 klst. svo þegar veiðitími netaveiðimanna yrði frá 20. maí til 5. sept. að báðum dögum meðtöldum mundi mjög lítið af laxi sleppa framhjá. Verði nú ákveðið á félagsfundi að fara ekki út í þetta og leggja niður deildaskiptingu geta, samkv. 39. gr 4. mgr. 6. tölulið frumvarps, þær deildir sem fyrir eru stofnað sjálfstæð félög. Þau félög yrðu alveg óháð Veiðifélagi Árnesinga og þyrftu aðeins að hlíta landslögum um veiðitíma og aðra ráðstöfun veiði. Þá mundi koma upp sú staða að aðrir hlutar svæðisins ættu heimtingu á sömu réttindum og þar með stofnun veiðifélaga. Þetta kæmi því í sama stað, nema Veiðifélag Árnesinga hefði ekki einu sinni íhlutunarrétt um gerð fiskræktaráætlana þessara félaga, eins og hjá deildunum. Þá var það matsbeiðni Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga. Það var naumast að þessi tiltekni félagsmaður hafði völd að geta stöðvað málið með því að segja að þetta væri ólöglegt. Það var lágmark að fara fram á að hann gæfi upp hvaða lagagrein hann byggði það á. Einstakir félagsmenn geta krafist endurskoðunar arðskrár en hvergi er getið um það í lögum að einstakir félagsmenn geti stöðvað starf matsnefndar að gerð arðskrár. I öðru lagi stendur hvergi í lögum að óheimilt sé að veiðifélagsdeild standi að gerð arðskrár. Í títtnefndri 39. gr. segir m.a. eins og margoft hefur komið fram: „Hver deild ráðstafar þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem félagið setur.“ Hvað halda menn að þarna sé átt við með ráðstöfun veiði? Ekki er átt við hvað gert er við fiskana sem á land koma, heldur það hvernig staðið er að veiðunum, fyrst og fremst hvort menn veiði hver fyrir sínu landi, eða þá það sem algengast er þar sem deildir starfa, að leigja svæðið út í heild. Þar sem sá háttur er á kemur greiðsla venjulega í einu lagi til deildarinnar, sem sér um að jafna niður á félagsmenn. Til þess þarf arðskrá. Það er nauðsynlegur hluti af svona ráðstöfun veiði. Svo er það venjulegast þessi sama lögskipaða nefnd sem sér um að semja arðskrána. Það segir hvergi í lögum að það sé neitt ólöglegt við þetta. Það sem segir í lögunum og greinargerð Karls Axelssonar hrl. er að allt svona skuli gerast í samráði við móðurfélagið. Með fyrirhugaðri lagabreytingu, verði hún samþykkt, verður að mestu kippt fótum undan starfi Veiðifélags Árnesinga. Þá mun hlakka í Bergstaðamönnum ef þeim tekst með þessu móti að stöðva laxrækt í Tungufljóti. Valur Lýðsson Gýgjarhóli Biskupstungum. Hreggviður Hermannsson Langholti Flóa. Enn um lagafrumvarp um lax- og silungsveiði Skógar til gagns og gamans – eða ógn við óspjallaða fjallkonu Undirritaður fékk góðfúslega leyfi Line Venn, ritstjóra „Norsk Skogbruk“, til að þýða grein hennar úr nýlegu tölublaði þessa ágæta norska rits. Leiðarinn er um samskiptin milli þeirra sem tala mest um náttúruvernd í Noregi og skógargeirans. Þar er m.a. vitnað í orð Trygve Slagsvold Vedum á ráðstefnunni „Skogforum“, en hann er ráðherra skógarmála og annars landbúnaðar í Noregi. Greinin er lítillega stytt og er þýðingin skáletruð: Meðal þess sem Trygve Slagsvold Vedum vildi koma til skila í ávarpi sínu á ráðstefnunni var þýðing skógarins fyrir norskt samfélag, þ.á m. nokkrum staðreyndum: Í skógargeiranum vinna 25.000 manns og heildarsala afurða skógarins nemur árlega 44 milljörðum NK (sem jafngildir meira en 1.000 milljörðum íslenskra króna). „Við þurfum að fá almenning til að skilja mikilvægi greinarinnar, þannig að fólk sýni henni velvilja í verki. Enginn mun gera þetta fyrir okkur.“ Við hjá Norsk Skogbruk erum hjartanlega sammála. Almenningur er farinn að líta skógargeirann slíkum augum að auðsjáanlega hefur umhverfisverndarsinnum tekist að sverta greinina vegna aðferðar sem viðhöfð er við endurnýjun skóganna, sk. rjóðurfellingar. - - - Það gerist líka ósjaldan að skógargeirinn fær smá tilvísanir á mjög neikvæðan hátt í náttúru- og vísindaþáttum í NRK. Okkur finnst það áhyggjuefni hversu einhliða hugmyndir fólks eru um skógana okkar. Við erum sammála ráðherranum um að atvinnugreinin verði að hafa áhrif á ímynd sína. Við erum að höndla með frábærlega umhverfisvænt lifandi efni, sem við nýtum svo sannarlega á sjálfbæran hátt. Í mörgum tilvikum geta afurðir skógarins komið í stað efna sem hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það. Mannkynið lifir af að uppskera það sem jörðin hefur uppá að bjóða. Skógurinn skapar fjölda starfa, sem m.a. tryggja áframhaldandi búsetu á landsbyggðinni. Jafnframt skapar hann verðmæti fyrir þjóðina alla. Þessi sannindi þurfa að verða fólki ljós. Skógargeirinn einhendir sér nú í að tryggja nýliðun mannauðsins og vinnur sameiginlega að því að ná til unga fólksins með átakinu „Veljum skóginn“, vegna þess að menn sáu að allra hagur væri best tryggður með því að allir legðust á sömu árina. Á sama hátt þarf greinin að sameinast um að bæta ímynd sína með aðgerðum sem duga. Eða eins og ráðherrann sagði: „Stundum eru ákvarðanir teknar á grundvelli þess að fylgja straumnum. Það er okkar að sjá til þess að vötnum halli skóginum í vil.“ Rjóðurfelling – sjálfbær nýting Hvað er rjóðurfelling? Hún er aðferð sem lengi hefur verið notuð til að uppskera timbur úr skógunum og er skógurinn þá gjörfelldur á samfelldu svæði, en oftast ekki mjög stóru. Í kjölfar rjóðurfellingar fullþroska skógar er séð til þess að upp vaxi nýr skógur. Í skógarlöndum NV-Evrópu er leitast við að hafa sem jafnasta aldursdreifingu í skógum, svo timburframleiðsla verði jöfn ár frá ári til lengri tíma litið. Nýtingin miðast við að auðlindin rýrni ekki og nýtist því komandi kynslóðum ekki síður en þeim sem nú eru uppi. Sjálfbær þróun er því hugtak sem á upphaf sitt í skógfræðunum, þar sem langtímahugsun er beinlínis knýjandi nauðsyn. Sums staðar eru gamlir skógarteigar sem skarta fjölbreyttum svarðgróðri. Gnótt aðalbláberja er t.d. einkenni um helmings stálpaðra greniskóga í Noregi. Ungir skógar eru hins vegar þéttir og illfærir gangandi fólki. Þar er svarðgróður oft lítill og sums staðar nær enginn. Fæstir gróðursettir greniskógar á Íslandi hafa ennþá náð þeim aldri að skógarbotninn sé farinn að grænka að ráði en þess eru þó dæmi, enda hefur mikið verið unnið að grisjun í íslenskum barrskógum undanfarin ár. Sjálfbær þróun eða stirð náttúrusýn Náttúruverndarmenn á Íslandi leita margir í smiðju skoðanabræðra í Noregi og hið sama virðist eiga við um stjórnendur náttúruverndarmála. Sýn þeirra á náttúruna er stirð (statísk) og þáttur tímans oftast alveg gleymdur. Það er sérkennilegt að í landi þar sem aðeins vex skógur á liðlega 1% landsins skuli vera fólk sem hefur áhyggjur af því að ekkert verði eftir af „opnu landi“, haldi menn áfram að rækta skóg á Íslandi. Líklega birtist í þessu viðhorfi tilfinnanlegur skortur á stærðfræðiskilningi. Í Noregi eru þessar áhyggjur réttmætari, þar sem nær ekkert land neðan skógarmarka er skóglaust í stórum hluta Noregs, nema það sem nýtt er til gras- og kornræktar. Sé hlutverk tímans sniðgengið brenglast náttúruskilningur. Kuldaskeið ísaldar ollu því að fjölmargar tegundir trjáa og runna dóu út á Íslandi. Sumir sem kalla sig náttúruverndarmenn vilja á grundvelli meintrar umhyggju fyrir fjölbreytni lífríkisins helst banna nýbúum þegnrétt í flóru Íslands en ýkja samtímis aðsteðjandi hættu á að einhverjar tegundir sem hér vaxa séu í útrýmingarhættu. Þetta er þeim mun einkennilegri tvöfeldni ef haft er í huga að hérlendis uxu á tertíerskeiðinu miklir skógar, meðal annars rauðviðarskógar (risafura), en líka skógarfura, elritegundir og margar fleiri trjátegundir. Flestar þessara tegunda eru nú útdauðar á Íslandi. Þeim var útrýmt á náttúrulegan hátt! Í þessu ljósi er full ástæða til að vara við gagnrýnislausri notkun hins neikvæða hugtaks „ágeng og framandi tegund“, eins og vart hefur orðið hjá sumum sem kalla sig vistfræðinga. Um þetta efni ritaði Aðalsteinn Sigurgeirsson skógerfðafræðingur í Skógræktarritið 2. tbl. 2005 tímamótagrein, þar sem vitnað er til fjölmargra heimilda. Afbragðsgrein um hina fornu skóga Íslands má einnig lesa í Skógræktarritinu 2. tbl. frá árinu 2008. Sú grein er byggð á miklum rannsóknum. Höfundar hennar eru Friðgeir Grímsson og Leifur A. Símonarson. Niðurstaðan af röð landfræðilegra atburða er tilfinnanleg tegundafátækt lífríkis Íslands. Furðulegt verður að teljast að hópur manna hjá sumum stofnunum Umhverfisráðuneytisins og innan ríkisháskólanna skuli vilja frysta fábreytni lífríkis Íslands í því fari sem hún var í 1948 eða jafnvel 1750. Vitna þeir stundum í alls kyns alþjóðasáttmála máli sínu til stuðnings en því miður túlka þeir suma þessa sáttmála með vægast sagt umdeilanlegum hætti. Lögmálið um stöðugar breytingar Eitt af megineinkennum náttúrunnar er lögmál stöðugra breytinga. Því er ekki hægt að frysta hana í neinu ákveðnu fari um aldur og ævi. Breytingar í lífríkinu verða hraðar þegar loftslag breytist ört. Það sem af er 21. öldinni, hefur meðalhiti á vestanverðu landinu verið um 1 °C hærri en á árunum 1961-1990. Náttúruleg skógarmörk hækka um 170 m fyrir hverja gráðu sem meðalhiti hækkar. Því er spáð að meðalhiti á Íslandi eigi eftir að hækka um 2-6 °C, það sem eftir lifir af öldinni. Í aldarlok verður hægt að rækta hveiti á láglendi Íslands en skóga á miðhálendinu. Alls staðar þar sem nú er byggð verður hægt að rækta ávexti á borð við epli, perur, kirsuber og plómur. Ekki síst vegna hlýnandi loftslags, en líka vegna lögmáls hinna stöðugu breytinga, hlýtur harðlífisstefna svokallaðra náttúruverndarsinna að verða hálfgerð barátta við vindmyllur. Vonandi hafna kjósendur harðlífisstefnunni í komandi alþingiskosningum en bjóða þess í stað velkomna að stjórnvölnum þá sem vilja nýta hlýrra loftslag íslensku þjóðinni til hagsbóta, enda er maðurinn óaðskiljanlegur hluti af náttúrunni. Meintir umhverfisverndarsinnar/ náttúruverndarmenn í Noregi vilja sumir helst banna allt skógarhögg. Skoðanabræður þeirra á Íslandi vilja helst banna skógrækt. Sameiginleg þessum hópi fólks í báðum löndum er stirð (statísk) náttúrusýn og þar með átakanlegur skortur á náttúruskilningi. Sigvaldi Ásgeirsson, skógarbóndi á Vilmundarstöðum í Reykholtsdal. Vetrarstemming í skóginum. Mynd / HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.