Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 27

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 27
27Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 fræða þá um staðhætti. Á leiðinni vestur skall á norðanhríð með engu skyggni en færi var gott og ráðherra hafði góðan bílstjóra og öllu vanan. Jónas hvatti þá til að halda áfram en skutlaði mér til baka að Skálanesi. Fundað var á Patró um kvöldið. Heim kominn sagði ráðherrann að þetta væru verstu vegir á landinu og úrbóta væri þörf strax. Í Framkvæmdafréttum Vega- gerðarinnar var vegur á leiðinni Þórisstaðir-Kraká auglýstur sem næsta útboð árið 2008, en það féll niður eins og annað þegar öll útboð stöðvuðust. Þann 20. maí 2008 sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi fyrir áfanga II (Þórisstaðir-Kraká). Hreppsnefnd Reykhólahrepps sam- þykkti framkvæmdaleyfið og gaf það út 16. júní. Skilyrði var að farin yrði efri leið fyrir ofan Gröf í Þorskafirði. Hreppsnefnd hafði fundað með Gunnlaugi Péturssyni og fleiri land- eigendum og taldi líkur á að sættir yrðu um þá leið. Vegagerðin hafnaði hins vegar þeirri leið án raka og gerði ekkert til að ná samkomulagi. Gunnlaugur og fleiri vísuðu úrskurði Jónínu Bjartmarz til dómstóla og unnu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Margir halda því fram að dómurinn fjalli eingöngu um lagatæknileg atriði í úrskurði umhverfisráðherra en banni ekki vegarlagninguna. Síðan kom „Hrunið“ og allar nýjar framkvæmdir stöðvuðust. Kláraður var vegur í Kollafirði og nú síðast í sumar vegur fyrir Skálanes að Kraká. Áfanganum Þverá í Kjálkafirði- Vatnsfjörður var lokið 2011. Meðan á þeirri framkvæmd stóð var örninn svo ósvífinn að verpa og koma upp unga nokkrum tugum metra ofan við vélaskrölt og læti. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, hafði gleymt að láta örninn vita að þetta væri bannað. Útboð á leiðinni Eiði í Vattarfirði- Þverá í Kjálkafirði var auglýst í febrúar 2012. Í maí var samið við Suðurverk og eiga verklok að vera í september 2015. Farið er yfir Mjóafjörð utarlega á 14 m dýpi um fjöru með 160 m langri brú. Í Kjálkafirði er vegur á 6 m dýpi og 116 m brú. Að fara yfir firðina utarlega á miklu dýpi margfaldar efnismagn, brúarlengd og kostn- að. Rökin fyrir leiðarvalinu yfir Mjóafjörð voru þessi: 2,9 kílómetra stytting. Lágmark 500 m frá arnarhreiðri. Snjóþyngsli í Mjóafirði, sem eng- inn kannast við sem til þekkir. Milljarður króna í aukinn kostnað er auðvitað smáaurar ef þessi háleitu markmið nást. Jón Gunnar Ottósson lendir í vanda á nýjan leik ef örninn tekur upp á því að verpa í námunda við veglínuna. En þetta verður góður vegur og væri gaman að eiga eftir að fara hann. Ögmundur Jónasson innanríkis- ráðherra, ásamt heilum her vegagerðar- og sveitarstjórnarmanna, fundaði mikið um vegamál í héraðinu sumarið 2011. Að loknum einum slíkum fundi fékk ég að hitta þá félaga dálitla stund. Afhenti ég þeim skriflega, rökstudda tillögu um veg í fjöruborði neðan við Teigsskóg. Ekki veit ég hvort þeir hafa hent tillögunni á leiðinni heim, en margir hafa tekið undir þessa lausn. Ögmundur var yfirlýsingaglaður og vildi láta vita hver réði: Enginn vegur yrði leyfður um Teigsskóg. Vegur kæmi yfir hálsana. Rista ætti niður Ódrjúgsháls og gera jarðgöng undir Hjallaháls. Nota ætti núverandi veg á Hjallahálsi a.m.k. næstu tíu árin. Þetta yrði það sem kalla mætti „vegur á tveimur hæðum“. Fundahöld Ögmundar enduðu með því að stór hluti íbúa í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi var mættur á fund á Patró. Ráðherrann og félagar glöddust yfir góðri fundarsókn en eftir yfirlýsingu heimamanna um að nóg væri búið að funda gengu þeir af fundinum og ráðherra sat eftir með sveinum sínum. Nú í sumar sendi Vegagerðin frá sér loftmyndir af þrem leiðum, sem fara ættu í umhverfismat. Þetta eru: Leið I. Frá Kraká um Melanes, yfir Gufufjörð, um Grónes, yfir Djúpafjörð, á fjörum austan Hallsteinsness, á ská yfir Grenitrésnes og þaðan á miklu dýpi yfir Þorskafjörð að Laugalandi. Síðan um beitiland á austurströnd Þorskafjarðar á veg við Bjarkalund. Kostnaðaráætlun 9,7 milljarðar króna. Leið H. Sama og I að Hallsteins- nesi, síðan vestanvert á nesinu inn að Barmi. Þaðan jarðgöng undir Hjallaháls og síðan yfir Þorskafjörð um Kóngavakir að Kinnarstöðum. Kostnaðaráætlun 10,1 milljarður króna. Leið D1. Um Melanes, yfir tún og beitiland á Hofstöðum, yfir miðjan Gufufjörð, um Brekkuflóa, um skóglendi inn á Ódrjúgsháls, yfir Hálsgil, mjög djúpt, þaðan rist niður Miðhúsabrúnir, mjög snjóþungar (snjóflóðaupptök), um Djúpadalseyrar og Mýrarland, í jarðgöngum undir Hjallaháls að Þórisstöðum og síðan yfir Þorskafjörð um Kóngavakir að Kinnarstöðum. Kostnaðaráætlun 9,1 milljarður króna. Náttúrustofa Vestfjarða á að skila af sér umhverfismati síðar í vetur. Allir umræddir kostir hafa í för með sér mikil neikvæð áhrif á náttúru og líka á skilyrði til búskapar. Sauðfé á fóðrum í Gufudalssveit í vetur mun vera nálægt 1.500 á fjórum jörðum. Beitiland vor og haust má ekki skerða. Sama gildir um austanverðan Þorskafjörð. Ætti ég að gefa leiðum einkunnir á skalanum 1-10 vegna skaða sem þær myndu valda og einkunnin 10 táknaði mestan skaða, þá hlytu leiðir I og D1 einkunnina 9 til 10 en leiðir B1 og H einkunnina 5 til 6. B-leið var ekki tekin með í umhverfismat þó að hún sé á aðalskipulagi. Vegagerðin sendi land eigendum og sveitarstjórnum loftmyndir af umræddum leiðum og óskaði eftir athugasemdum. Í júlí í sumar sendi sveitarstjórn Reykhólahrepps Vegagerðinni tvær ályktanir. Sú fyrri var krafa um að B-leið yrði tekin með í umhverfismat og jafnframt minnti sveitarstjórn á skipulagsvald sitt. Hina geymi ég að ræða. Hafði sveitarstjórn ekkert við til- lögur Vegagerðarinnar að athuga? Landeigendur í austanverðum Þorskafirði sendu Vegagerðinni eftir- farandi athugasemdir: Við erum því algerlega mótfallnir að vegur verði lagður um land Hofstaða, Hlíðar og Laugalands samkvæmt leið I og teljum það skjóta skökku við að leggja til vegagerð þessa leið þegar mun hentugra vegstæði býðst samkvæmt leið B eða B1 yfir Þorskafjörð hjá Kinnarstöðum og út Hallsteinsnes. Við teljum það einnig óverjandi að ætla að leggja til leið I sem er 3,0 milljörðum dýrari en leið B eða B1 og hvorki betri með tilliti til umferðaröryggis né greiðfærni. Með sömu rökum er óverjandi að leggja til leið D1 sem er 2,4 milljörðum dýrari og fer þar að auki áfram yfir Ódrjúgsháls. Við gerum athugasemdir við að í skýrsludrögunum er enginn greinarmunur gerður á því hvort jarðir á framkvæmdasvæðinu eru í ábúð og/eða nýttar af ábúendum og þeim jörðum sem eru hreinar eyðijarðir til margra áratuga og lítið eða ekkert nýttar nema til frí- stundar. Við teljum nauðsynlegt að mat sé lagt á þetta og bendum á mikilvægi þess fyrir sveitar- félagið að sem flestar jarðir séu áfram í ábúð. Á jörðinni Hofstöðum er föst búseta, túnin nýtt til heyskapar og úthagi til beitar, sem hvort tveggja skerðist umtalsvert við veglagninguna. Undirlendi á jörðinni Hlíð, sem er nýtt frá Stað, er mjög lítið, og ljóst að vegur um land jarðarinnar mun draga verulega úr nýtingarmögu- leikum hennar. Þá skal vakin athygli á því, að á jörðinni eru skrásettar og friðaðar fornmenjar samkvæmt þinglýstu friðlýsingar- skjali fornmenjavarðar frá árinu 1930. Á jörðinni Laugalandi er íbúðar- hús sem er nýtt til sumardvalar, undirlendi á jörðinni Laugalandi er nýtt frá Árbæ. Loks vekur það furðu okkar sem íbúa í Reykhólahreppi, að Vegagerðin skuli með því að hafna leiðum B og B1 virða að vettugi nýsamþykkt aðalskipulag fyrir Reykhólahrepp, sem gerir ráð fyrir að Vestfjarðavegur nr. 60 skuli einmitt lagður samkvæmt þeirri leið. Þann 3. september í haust sendi ég „forsvarsmönnum samgöngumála“ bréf og krafðist þess að B-leið yrði tekin með í umhverfismatið og farið yrði eftir gildandi aðalskipulagi. Ég benti á leið neðan Teigsskógar og hvatti til þess að reynt yrði að ná sáttum um B-leið. Næðist það ekki bæri Alþingi skylda til að setja sérlög er heimiluðu veginn. Kvittun barst fyrir því að Ögmundur hefði móttekið bréfið. Vegamálastjóri þakkaði ábendingar og sagði að þær yrðu skoðaðar. Aðrir gáfu engin svör. Allar fyrrverandi sveitarstjórnir og sveitarstjórar í Reykhólahreppi börðust fyrir B-leiðinni og eftir það með blaðagreinum. Það sama gerðu fjölmargir aðrir. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri benti á að birki væri fljótt að gróa í vegfláum og skeringum. Sést það vel nú þegar í Skálmarfirði og Vattarfirði. Í upphafi sagði ég frá samstöðu um veg í Gilsfirði. Nú skortir verulega á, og þess vegna má búast við að enn lendi fólk í hríð og roki á hálsum, í dölum og fjarðarbotnum þó að þokkalegt veður sé á vegi yfir firði og nes. Núna eru á Hjallahálsi vindhraðamælir og vefmyndavél. Vindhraði þar hefur sést fara í 32 m/ sek. í norðan- og norðaustanhríðum, sem stundum var meira en á Klettshálsi. Og í síðasta fárviðri þann 29. desember kl. 13 mældist vindhraði á Hjallahálsi 40 m/sek., á Klettshálsi 41 m/sek. og talsvert yfir 50 m/sek. í hviðum. Ég fékk uppgefið hjá Vegagerðinni að við klifur yfir tvo hálsa með ca. 500 m hækkun væri aukin brennsla á bensíni eða olíu sem svaraði 11 km akstri á láglendi. Í ferðatíma er munurinn meiri. Flutningabílar eyða að sjálfsögðu margfalt meira elds- neyti við 500 m hækkun. Stytting mætti því reiknast 33 km í stað 22 km frá núverandi vegi, miðað við láglendisveg samkvæmt B-leið. Vegleysur hafa mikil neikvæð áhrif á allan atvinnurekstur. Í ferðaþjónustu hafa Bjarkalundur og Flókalundur og fleiri fengið að kenna á því. Það litla sem eftir er af fiskvinnslu, laxeldi og verksmiðju- rekstri á líf sitt undir Baldri, gömlum fljótapramma, sem gæti nú bilað eða orðið fyrir óhappi. Gæfa hefur verið með í ferðum Baldurs enda skipinu stjórnað af mönnum sem þekkja Breiðafjörðinn eins vel og hugsast getur. Frá fyrsta fundi í Bjarkalundi árið 2003 hefur Vegagerðin unnið með hangandi hendi. Hún hefur ekki viljað skoða leið B1 ofan eða neðan skógar heldur haldið sig við veg í hlykkjum gegnum miðjan skóginn og staðsett stóra grjótnámu á miðju svæðinu. Nauðsynlegt er að Vegagerðin hafi meira samráð við landeigendur og heimamenn og hafi lipra samningamenn. Bændur á Skálanesi áttu erfitt með að fá Kristján Kristjánsson til að fara þá leið sem þeir vildu. Sú leið var þó farin og hefur lánast vel. Það er furðulegt að Vegagerðin skuli leggja til þrjá verstu kostina. Við hverja þeirra leiða sem yrði farin væri kostnaðurinn nokkrum milljörð- um meiri en ef farið yrði yfir firðina þrjá og um austanvert Hallsteinsnes, auk þess sem sú leið er langbest hvað öryggi varðar. Þar gæti varla talist farið vel með takmarkaða fjármuni. Fjórðungssamband Vestfirðinga er horfið frá fyrri yfirlýsingum um að „Dýrafjarðargöng og nýr vegur um Dynjandisheiði komi ekki til fram- kvæmda fyrr en Vestfjarðavegi 60 og Djúpvegi er lokið“. Þetta kemur fram hjá Aðalsteini Óskarssyni fram- kvæmdastjóra á fréttavefnum bb.is 2. nóv. 2012. Alþingismenn og ráðamenn samgöngumála sviku gefin loforð um að forgangsmál væri að ljúka vegi um Austur-Barðastrandarsýslu. Nú á að skipta ráðstöfunarfénu og ljúka jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vegi um Dynjandisheiði, hæsta og lengsta fjallveg á Vestfjörðum, áður en lokið er hér syðra. Núna hefði B-leið átt að vera lokið, samkvæmt loforði Sturlu Böðvarssonar árið 2007, og jafn- framt lofaði hann 2.160 milljónum af „símapeningunum“ sem síðan hurfu í hruninu. Um veginn vestur segir Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður á fréttavefnum bb.is 13. nóv. 2012: „Ekki lokið fyrr en kannski árið 2024, í besta falli, og líklega enn síðar.“ Einnig segir hann að við umhverfismat sé fráleitt að undanskilja einn kostinn, þann sem heimamenn kjósa helst. Ráðamenn samgöngumála virðast haldnir miklum ótta við endurtekin málaferli. Ögmundur er svo hræddur að hann bannar Vegagerðinni að taka B1 með í umhverfismat. Ég hélt að það væru til vegalög sem vinna bæri eftir. Það á að fara eftir þeim, náist ekki að semja við landeigendur. Umhverfisráðuneytið og stofnanir þess virðast hafa tekið afstöðu með andstæðingum B-leiðar. Ætla þau að bera ábyrgð á slysum sem kunna að verða t.d. á Ódrjúgshálsi á 65 ára vegi með 16% halla, þar sem leiðbeinandi hraði er 20 km/klst.? Þann veg ætti að varðveita sem fornminjar. Gufudalshreppur kostaði lagningu þess vegar. Heimamenn fari nú að efla samstöðu sína og átta sig á því að ekki eru margir raunverulegir kostir í boði varðandi veg á láglendi. Sveitarstjórn gæti gefið út yfirlýsingu um að ekki verði gefið út framkvæmdaleyfi nema fylgt sé núverandi aðalskipulagi og byrjað sé á að þvera Þorskafjörð. Allar sveitarstjórnirnar krefjist þess af Alþingi, að framkvæmdir hefjist 2014 og fjármagn verði tryggt til að verkinu verði lokið 2018 eða 2019. Þingmenn endurskoði samgöngu áætlun á næsta ári. Dugi það ekki sé ég eina ráðið að fólk af svæðinu fjölmenni í höfuðborgina með potta sína og pönnur og berji Ögmund og aðra ráðamenn til hlýðni. Samstaða er það eina sem dugar. Á nýársdag 2013. Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal, Görðum, Reykhólum. Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal. Mynd / Hlynur Þór Magnússon

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.