Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Ábúendur á Sandhaugum í Bárðardal taka í notkun nýtt hesthús og tamningastöð: Starfsemin fer vel af stað og hesthúsið fylltist strax Ábúendur á Sandhaugum í Bárðardal, þau Erlingur Ingvarsson og Diljá Óladóttir, breyttu í haust sem leið gömlu fjósi við bæinn í nýtt og glæsilegt hesthús og reiðskemmu og tóku nýju húsakynnin formlega í notkun skömmu fyrir jól. Þar er nú þegar tekin til starfa tamningastöð, en Erlingur er menntaður þjálfari og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hann stundar að auki kennslu bæði hér heima og erlendis, einkum í Svíþjóð. Þá stunda þau einnig sauðfjárbúskap, en fyrir tveimur árum tóku þau við rekstri sauðfjárbús foreldra Erlings að Hlíðarenda, sem er næsti bær norðan við Sandhauga. Mikil hjálp frá ættingum og vinum „Það tók í raun mjög skamman tíma að vinna að endurbótum á fjósinu og breyta því yfir í nútímalegt hesthús,“ segir Erlingur, en hafist var handa við endurbætur um miðjan nóvember. Verkinu lauk mánuði síðar. Þá fór fram formleg vígsla og fyrstu hestarnir voru teknir í hús. Erlingur var upptekinn framan af hausti við önnur störf, m.a. kennslu á Hólum, og síðan tóku við bústörf sem setið höfðu á hakanum á meðan á fjarveru hans frá búinu stóð. „Við tókum síðan til óspilltra málanna og nutum aðstoðar frá ættingjum og vinum og þannig tókst okkur að vinna verkið hratt en örugglega. Sú hjálp sem við fengum við endurbæturnar var okkur ómetanleg og varð til þess að kostnaður við þær er í lágmarki,“ segir hann. Kennir heima og erlendis Erlingur er fæddur og uppalinn að Hlíðarenda. Hann hefur að baki um tveggja áratuga farsælan feril við tamningar. Hann stundaði nám á Hólum á sínum tíma og hefur m.a kennt við hestafræðideild háskólans en einbeitir sér að styttri námskeiðum um þessar mundir svo fjarveran frá búinu verði ekki of löng. Meðal annars sér hann um námskeiðið Reiðmanninn á Akureyri, semer haldið á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og þá er hann að hefja kennslu við námskeið í Bústólpahöllinni á Húsavík innan skamms. Um liðna helgi var hann við kennslu í Svíþjóð. Langaði að setjast að á heimaslóðum Erlingur leigði Sandhauga síðla árs 2005 og hefur búið þar síðan, en Diljá flutti þangað í lok árs 2008. Hann starfaði við Ræktunarbúið á Torfunesi árin 2008 til 2011, en hafði áður starfað sjálfstætt m.a. á æsku- heimili sínu Hlíðarenda og farið að auki vítt og breitt, verið að störfum í Svíþjóð og Þýskalandi. Einnig hér heima, m.a. á Akureyri og Eyjafirði, Borgarnesi og Blönduósi. „Ég var alltaf með annan fótinn heima og tók þátt í búskapnum með foreldrum mínum, og mig langaði að setjast að á mínum heimaslóð- um,“ segir hann. Þau Erlingur og Diljá tóku við rekstri búsins að Hlíðarenda fyrir um tveimur árum og eru með ríflega 200 kindur auk þess að taka hross í tamningu að Sandhaugum. Nýja hesthúsið er sem fyrr segir í gömlu básafjósi en húsið var byggt fyrir rúmum 30 árum, á árunum 1979-80, og hefur staðið ónotað í áratug. Margt var þar úr sér gengið, innréttingar m.a. svo til ónýtar. „Við byrjuðum á því að hreinsa allt út úr húsinu og gera það nánast fokhelt,“ segir Erlingur, en varðandi framkvæmdir af þessu tagi segir hann máli skipta að gera sem mest sjálfur. Þannig voru allar innrétt- ingar í hesthúsið smíðaðar heima og lítið sem ekkert var um aðkeypta vinnu. Í húsinu eru nú 16 nýjar eins heststíur en aðstaða er þar fyrir ríf- lega 20 hross í allt. Þar sem áður var aðstaða fyrir kálfa og naut er nú búið að koma fyrir stórum tvegga heststíum. Gestir við vígslu húss- ins luku lofsorði á hversu glæsileg aðstaðan væri og öllu haganlega fyrir komið. „Ég er ánægður með útkomuna og held að vel hafi tekist til, þetta er rúmgott og fínt hús og góð aðstaða, m.a. höfum við útbúið inniaðstöðu í hlöðu og eins erum við með góða geymslu fyrir rúllur og búnað í annarri hlöðu,“ segir Erlingur. Orðsporið skiptir máli Hann segir að starfsemin fari vel af stað og þegar sé búið að fylla hesthúsið af efnilegum hrossum. Aðallega er hann með hross af norðanverðu landinu en þó ekki eingöngu, því nokkur koma lengra að. „Ég hef verið lengi í þessum bransa og það þekkja margir til mín,“ segir Erlingur og bætir við að gott orðspor skipti máli í þessari starfsgrein. Þannig sé mikilvægt að taka þátt í kynbótasýningum og keppnum og halda nafni sínu á lofti. „En það verður að forgangs- raða þessu eins og öðru, það er mjög dýrt að sækja samkomur af þessu tagi um land allt og varla hægt lengur að fara á alla staði. Rekstur af þessu tagi sem ég er með kallar á útsjónarsemi. Allur fyrir- tækjarekstur er erfiður um þessar mundir og aðföng hafa hækkað gríðarlega, sem og allur kostnaður yfirleitt, og það er ekki hægt að velta öllu út í verðlagið. Það er bara að halda vel á spöðunum,“ segir Erlingur og er bjartsýnn á framtíð hrossaræktarinnar þótt enn séu erf- iðir tímar í greininni. /MÞÞ Ábúendur á Sandhaugum í Bárðardal, þau Erlingur Ingvarsson og Diljá Óladóttir, breyttu í haust sem leið gömlu fjósi við bæinn í nýtt og glæsilegt hesthús og reiðskemmu og tóku nýju húsakynnin formlega í notkun skömmu fyrir jól. hross í allt. Starfsemin fer vel af stað og er þegar búið að fylla hesthúsið af efnilegum hrossum. Einkum eru það hross af norðanverðu landinu en einnig lengra að komin. Góð aðstaða er fyrir reiðtygi í nýja hesthúsinu á Sandhaugum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.