Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 37

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 37
37Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Um kalskemmdir Nú liggja svell víða yfir túnum og íþróttavöllum á Norðurlandi og óttast menn mjög að túngróður komi stórkalinn undan í vor. Kal er skemmd á lífverum sem má rekja beint eða óbeint til áhrifa af kulda. Kal verður því ekki bara á grösum heldur getur það einnig orðið á mönnum og skepnum ef frumur líkamans frjósa. Kalskemmdir Kalskemmdir á túnum geta verið margs konar og bera þær mismunandi heiti. Í frostkali frjósa frumurnar, og slíkt kal getur einmitt leitt til kalsára á mönnum. Í svellkali drepast plönturnar undir svellum vegna þess að þær verða súrefnislausar. Í klakakali geta rætur plantnanna rifnað og slitnað vegna frostþenslu jarðvatnsins. Rotkal verður ef snjór liggur lengi ofan á þíðri jörð, en smásæir rotsveppir sem lifa við frostmark ráðast þá á plönturnar. Í túnum á Íslandi er svellkal algjörlega ríkjandi. Er það vegna þess að vetrarveðráttan sveiflast mikið umhverfis frostmark og snjór bráðnar í stuttum hlákum þannig að krapinn frýs í víðáttumikla svellbunka. Svell geta jafnvel lagst á hallandi svæði þar sem vatnið hefur ekki náð að renna af áður en aftur frysti. Ef jörð er gaddfreðin og svellbunkinn er samfrosinn við jarðveginn hafa plönturnar engan aðgang að súrefni, þær hreinlega kafna. Svellkal er því í raun köfnun. Plönturnar anda Margir halda að náttúran sé dauð yfir veturinn. Svo er ekki, en lífsstarfsemin er hæg. Einærar jurtir (eins og bygg) lifa vandræðalaust sem fræ, en fjölærar jurtir (eins og túngrös) eru lifandi yfir veturinn og verða fyrir margs konar álagi. Þær þurfa að anda eins og allar lífverur, en vegna þess að hitastigið er lágt er öndunin afar hæg. Engu að síður þurfa þær súrefni til öndunar og þær þurfa að losa sig við úrgangsefni frá önduninni. Á Möðruvöllum höfum við rannsakað hvernig plöntu frumurnar drepast í raun og veru við svellkal. Svo virðist sem það sé ekki súrefnisskorturinn sem aðallega veldur dauða. Við öndunina myndast ýmis efnasambönd sem plantan getur ekki losað sig við vegna þess að hún er innilukt í þéttum svellum. Þessi efni eru aðallega afleiðing þess að venjuleg loftöndun, sem myndar koltvísýring og vatn, breytist í loftfirrða öndun, sem myndar auk þess einnig etanól, mjólkursýru, eplasýru og fleiri lífræn efni. Þessi efni safnast fyrir upp að eitrunarmörkum ef plantan getur ekki losað sig við þau og þau skemma viðkvæm frumulíffæri þannig að plantan drepst. Kal-lykt Menn hafa fundið svokallaða „kal- lykt“ þegar svell leysir í hlákum eða að vori. Lyktin kemur frá þessum uppsöfnuðu og inniluktu úrgangsefnum. Þessi súrsæta lykt minnir um margt á lyktina af rúlluverkuðu votheyi, enda er þar um sömu gerjunarferla að ræða. Heyið sem er þétt vafið í plastumbúðir nær engu súrefni og fer yfir í loftfirrða öndun og myndar etanól, mjólkursýru og fleiri efnasambönd. Nú hafa menn við Eyjafjörð þegar fundið kal-lykt, en reynslan sýnir að það er ekki órækt merki um að plönturnar séu dauðar, heldur er það merki um að plönturnar séu á hættumörkum. Þol grasa Túngrös hafa mismikið svellþol, snarrótin mest, rýgresi einna minnst. Grösin sem notuð eru á íþróttavelli hafa enn minna þol, og það dregur enn meira úr þoli þeirra að þau eru margslegin yfir sumarið en tún grös eru bara slegin allt að þrisvar. Grösin geta þolað að vera innilukt í svelli í vissan tíma, en eftir því sem tíminn verður lengri eykst efnauppsöfnunin og á vissum tíma nær hún þolmörkum plantnanna. Gróf þumalfingursregla er að túngrös þoli að meðaltali þriggja mánaða svell og má reikna með að íþróttavallagrasið þoli varla meira en tvo mánuði. Fyrstu svell mynduðust í nóvember og því er ljóst að nú um mánaðamótin er hættan á kalskemmdum orðin veruleg. Þá má geta þess að þol grasa eykst frá hausti fram yfir áramót en fer síðan minnkandi fram á vor. Því má reikna með að plöntur þoli betur svell sem myndast snemma vetrar (október-nóvember) en svell sem myndast síðar (desember-janúar). Jurtakynbótamenn, íslenskir sem erlendir, hafa lagt áherslu á að auka frostþol fremur en svellþol. Það er þó bót í máli að frostþol og svellþol fylgjast nokkuð að þannig að aukið frostþol eykur einnig svellþol nokkuð. Náttúruhamfarir Undanfarin ár hefur tíðarfar farið hlýnandi, einkum að vetri. Búist var við að svellkal mundi verða fátíðara. En svo er ekki enn, því síðast var talsvert kal á Norðausturlandi vorið 2011. Þessir tveir kalvetur hafa verið nokkuð afbrigðilegir, og eru óútreiknanlegar sveiflur eitt einkenni íslenskrar veðráttu. Ég hef sagt að verulegar kalskemmdir séu eins konar náttúruhamfarir, þó að vissulega séu ekki mannslíf í húfi. Fjárhagslegt tjón er tilfinnanlegt en til að draga úr þessum náttúruhamförum er lítið hægt að gera. Þó hafa stöku bændur og framkvæmdastjórar íþróttavalla gripið til þess ráðs að brjóta upp svellin með tiltækum tækjakosti, og er vonandi að það beri árangur. Bjarni E. Guðleifsson. Höfundur er fyrrverandi prófessor við Landbúnaðar- háskóla Íslands Bjarni E. Guðleifsson. Mynd / Völundur Jónsson MIkil svellalög eru nú víða á túnum á Norðurlandi. Mynd / MÞÞ Í svellkali drepast plönturnar undir svellum vegna þess að þær verða súrefnislausar. Láttu skítinn segja þér frá Með því að meta skítinn frá kúnum má fá afar mikilvægar upplýsingar um næringarástand þeirra, þ.e.a.s. hvort fóðrið er rétt fyrir kýrnar, hvernig vambar- starfsemi þeirra er og heilsa. Þetta er gert með afar einföldum aðferðum, tekur einungis nokkrar mínútur og er nóg að gera viku- lega. Mat þetta byggir á því að skoða litinn, áferðina og innihald skítsins og er eitt af því fyrsta sem fóðrunarráðunautar gera þegar kúabú eru heimsótt. Þegar þetta er metið skiptir þó verulegu máli að taka tillit til framleiðslustefnu viðkomandi kúabús. Liturinn skiptir máli Hluti af því að skoða skítinn er að læra að þekkja útlit hans, jafn undarlega og það hljómar. Liturinn breytist t.d. eftir því á hvaða fóðri kýrnar eru, flæðihraða fóðursins í gegnum meltingarveginn, heilsu gripanna og svo framvegis. Þannig er skíturinn allt að því dökkgrænn á litinn fái kýrnar ferskt gras og allt niður í það að vera ljósbrúnn fái kýrnar mikið þurrhey. Séu bændur vanir því að skoða litinn sjá þeir líka um leið og eitthvað breytist og geta þá gripið inn í hratt og örugglega til þess að leysa vandamálin. Í raun er það ekki liturinn sjálfur sem skiptir máli heldur það að allar kýrnar sem eru á eins fóðri hafi sem líkastan lit á skítnum. Sé ekki um slíkt að ræða bendir það til vandamála. Algengt viðmið er að 95% af kúnum sem fá sama fóður hafi sem líkastan skít. Áferðin skiptir máli Þegar talað er um áferð skítsins er það í raun útlit dellunnar sem kýrin hefur skilið eftir. Nokkuð misjafnt er eftir löndum hvernig skítnum er gefin einkunn fyrir áferð en oftast er þó viðmiðið eins, hvað snertir það hvernig skíturinn á að vera. Matið byggir oft á því að skoða 3-4 dellur á hverjar 10 kýr (af handahófi) og gefa útlitinu einkunn á bilinu 1-5, þar sem 3 er sú einkunn sem að er stefnt. Hér er dæmi um einfaldan bandarískan einkunnaskala: Áferðareinkunn 1 Skíturinn er afar þunnfljótandi eins og hálfgerð súpa og rennur út. Myndar ekki hringlaga dellu og getur jafnvel verið loftblandinn. Áferðareinkunn 2 Dellan nær ekki að hlaðast upp og er innan við 2,5 cm á þykkt. Skíturinn rennur auðveldlega út. Áferðareinkunn 3 Dellan nær að hlaðast upp í 4-5 cm þykkt, er hringlaga og það blaut að hún loðir vel við stígvél. Áferðareinkunn 4 Dellan er þykk og loðir ekki við stígvél. Hún er ekki lengur hring- laga en hleðst upp í haug. Áferðareinkunn 5 Skíturinn líkist hrossataði. Innihaldið skiptir máli Næsta skref er svo að skoða hvað er í skítnum. Okkar væntingar til innihaldsins eru þær að fóður- leifarnar séu smáar og að lengd stráanna sé stutt (innan við 1 cm). Lítið sem ekkert ætti að vera af ómeltu korni í skítnum sé jórtrunin í lagi og virkni meltingarvegarins eðlileg. Sýnatakan einföld Þegar skíturinn er metinn er ein- faldast að gera það með því að taka sýnishorn í einnota plastmál. Fjöldi sýnanna fer eftir stærð fjósanna en ágætt er að miða við að taka eitt sýni á hverjar 10 kýr í fjósi og reyna að safna þessum sýnum saman á sem flestum stöðum svo meðaltalið gefi góðan þverskurð af fjósinu. Auðveldast er svo að stela sigti úr eldhúsinu (ath. má ekki skila til baka), hella sýninu niður í það og skola svo varlega með vatni (sjá mynd 1). Þegar sýnið er vel leyst upp verða fóðurleifarnar eftir, sem þá er næsta skref að greina. Greiningin auðveld Þegar vatnið er runnið úr sýninu sem á að skoða hafa með því farið allar fullmeltar fóðurleifar og eftir er þá hið ómelta fóður. Þetta skoðar maður síðan vel (sjá mynd 2). Séu ómeltir kornkjarnar, lengri strá og annað slíkt sem ella ætti að vera búið að melta þarf að endurskoða fóðrunina eða annað það við bústjórnina sem ekki er í samræmi við framleiðsluáætlun búsins. Í raun er þumalfingursreglan sú að það ætti ekki að vera hægt að sjá í skítum hvað kýrnar hafa fengið að éta. Sé um slíkt að ræða bendir það til þess að kýrnar nái að velja frá bestu bitana úr gefnu fóðri eða fái of mikið af fóðri með mikinn flæðihraða – sem er trúlega ekki oft vandamál hér á landi. Hvað ef? Skítur er meira en næring fyrir flög og tún og getur gefið afar mikilvægar upplýsingar um fóðrunina og heilbrigðisástand hjarðarinnar. Þá er því óhætt að mæla með því að tíma sé varið í það að skoða skítinn vel. Ef skítasýnin gefa til kynna að eitthvað sé í ólagi er einfaldast að hafa samband við næsta sérhæfða ráðgjafa í fóðrun nautgripa og fá aðstoð. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku Helltu sýninu í sigtið og skolaðu varlega þar til allt fínmelt fóður er skolað burt. frá lengri strá og ómelt korn.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.