Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 33

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Lesendabás Ein mesta bylting í heyskap á 20. öld varð með súgþurrkun heys. Að geta hirt hálfþurrt hey og fullþurrkað það við blástur undir þaki stytti velting heysins á velli um 2-3 daga. Fóðurefnin varðveittust stórum betur. Heygæðin uxu að mun. Jafnvel svo að enn í dag eru þeir til sem telja að ekki gefist betra hey en súgþurrkuð taða – verkuð eftir uppskriftinni. Súgþurrkun tók að breiðast út hérlendis á seinni hluta fimmta áratugs síðustu aldar. Þekkingin barst frá Bandaríkjunum en var fljótlega löguð að íslenskum aðstæðum. Ungir námsmenn kynntust tækninni vestra og unnu að útbreiðslu hennar hérlendis, meðal annars þeir Jóhannes Bjarnason frá Reykjum í Mosfellssveit og Haraldur Árnason er lengi var ráðunautur hjá BÍ. Ágúst Jónsson rafvirkjameistari í Reykjavík hafði líka kynnst tækninni vestra. Það var hann sem „hófst handa um það sumarið 1944 að smíða og útvega blástursútbúnað til heyþurrkunar með þessari aðferð, og fékk að koma honum fyrir í skúr á Vífilsstöðum. Var gerð tilraun með hann þá um haustið. Gaf sú tilraun þá þegar mjög viðunandi árangur“ . . . sagði í Tímanum 30. október 1945. Þar með hófst saga hinnar nýju heyþurrkunartækni. Ágúst útvegaði bændum vélar og hafði sett búnaðinn upp á rúmlega 100 bæjum, sagði í skýrslu dagsettri í júní 1947. Hann ferðaðist víða „við leiðbeiningar og ... forsögn um niðursetningu á súgþurrkunarvélum á fjölda mörgum heimilum hér og þar á landinu“ sagði enn fremur í skýrslunni. Töluvert er til af rituðum heimildum um súgþurrkun á Íslandi. Saga hennar hefur þó ekki enn verið tekin saman með heildstæðum hætti. Hjá Landbúnaðarsafni á Hvanneyri er áhugi á því að gera það. Raunar er vart seinna vænna að ná til þeirra sem enn muna fyrstu ár súgþurrkunar- tækninnar í sveitum landsins. Þessi pistill er áskorun til lesenda, er til málsins þekkja, hvort sem er að minna eða meira leyti, að festa á blað minningar frá upphafsárum súgþurrkunarinnar. Einnig að bjarga undan gögnum sem tæknina varðar: Þar getur verið um að ræða teikningar, ljósmyndir, reikninga og hvað annað sem snerta kann sögu þessara tímamóta heyverkunarhátta. Frásagnir geta snúist um upphaf tækninnar á einstökum bæjum/ sveitum, hvenær og hvernig hana bar að, hvernig henni var komið fyrir og hverju hún breytti í vinnubrögðum og verkháttum á viðkomandi bæ. Af mörgu er að taka. Landbúnaðarsafn hefur þegar fengið afar rækilega greinargerð borgfirsks bónda, Jóhannesar Gestssonar frá Giljum, af fyrstu árum súgþurrkunar þar, studda heildstæðum gögnum, sem hann hafði hirðusamlega haldið til haga. Nokkra gripi hefur safnið einnig fengið, svo sem blásara og mótora, svo allvel er fyrir þeim hluta séð. Slíkir gripir eru fyrirferðarmiklir og því verða ljósmyndir, líkön og teikningar að duga í sumum tilvikum. Íslendingar áttu á sínum tíma, held ég, heimsmet í súgþurrkun heys. Líklega voru um 75% af töðufeng landsmanna súgþurrkuð með einum eða öðrum hætti áður en plasthjúpaðar rúllur urðu hinn almenni geymsluháttur heys. Fáir trúðu því að unnt væri að súgþurrka hey á votviðrasamri eyju langt úti í hafi. En með því að laga tæknina að íslenskum aðstæðum tókst það, og í því, ekki síst, felst hin merkilega saga. Bjarni Guðmundsson Verkefnisstjóri Landbúnaðarsafn Íslands ses Síma 894 6368 Netfangið bjarnig@lbhi.is Súgþurrkun heys og saga hennar – heimilda leitað Ágúst Jónsson rafvirkjameistari í Reykjavík gerði fyrstu tilraunina með súgþurrkun hérlendis, árið 1944. Myndin af Ágústi er felld inn í mynd af Willys-jeppanum, árgerð 1946, sem hann ferðaðist á um landið og gaf fjölda bænda ráð um súgþurrkun. Líkan af súgþurrkunarbúnaði í Landbúnaðarsafni. Líkanið smíðuðu þeir Skjöldur Sigurðsson og Jóhannes Ellertsson. Farsíminn við blásarann gefur hugmynd um stærðarhlutfall. Það er eftirtektarvert að smá- fyrirtæki, svonefnd örfyrirtæki og lítil fyrirtæki, eru stærsti atvinnuveitandi á Íslandi og gegna lykil hlutverki í atvinnulífinu. Þannig eru smáfyrirtæki, fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn, um 99% fyrirtækja í landinu. Um 27 þúsund smáfyrirtæki eru í landinu með um 90 þúsund starfsmenn og smáfyrirtæki með undir 10 starfsmönnum eru rúmlega 90% allra fyrirtækja. Þetta eru athyglisverðar tölur. Lítill opinber stuðningur Íslendingar eru gjarnan hugmyndaríkir og viljugir til þess að taka áhættu á því að fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur. Sem betur fer er tiltölulega auðvelt að stofna nýtt fyrirtæki hér á landi. Hins vegar skortir stundum skilning hjá hinu opinbera á því hve mikilvægt það er að hlúa að þessu og gera fólki auðveldara með að bjarga sér. Flækjustig getur verið talsvert við að fá ýmis rekstrarleyfi, vegna þungs skrifræðis og fjölda eftirlitsaðila. Ólíkt því sem þekkist víða annars staðar eru ekki veittir hvatar í gegnum skattakerfið til þess að koma þessum fyrirtækjum á koppinn og styðja þau þannig á meðan þau eru að slíta barnaskónum. Enn fremur getur reynst afar erfitt að fjármagna slík fyrirtæki þrátt fyrir persónulegar ábyrgðir stofnenda. Muna má að eitt sinn voru öll fyrirtæki smáfyrirtæki, samanber til dæmis Marel. Fjölgun atvinnutækifæra Samkvæmt upplýsingum frá Viðskiptaráði Íslands eru um 23.900 smáfyrirtæki með undir 10 manns í vinnu í landinu. Því má segja að aðeins þurfi að skapast eitt nýtt starf hjá fjórða hverju smáfyrirtæki til að skapa rúmlega 6.000 fjölbreytt störf. Þannig væri hægt að minnka atvinnuleysi verulega ef þessi smáfyrirtæki yxu sem nemur aðeins einum starfsmanni. Opinber stuðningur við þessi fyrirtæki með einföldun regluverks og skattaívilnunum væri þannig fljótur að borga sig í gegnum minni atvinnuleysisbætur og þess háttar stuningsaðgerðir. Einnig þyrfti að efla sjóði sem taka þátt í fjármögnun nýrra fyrirtækja. Skynsamlegt væri að fara sömu leið og Bandaríkjamenn, eða eins og SBA (Small Business Administration) starfar þar. Í meginatriðum leyfir þessi leið fyrirtækjum og athafnamönnum að setja upp 10% stofnfé, SBA- sjóðurinn 40% og bankinn 50%. Í Bandaríkjunum er sjóðnum, sem er sjálfseignarstofnun, heimilt að lána allt að því sem samsvarar um kr. 600 milljónum. Lesa má um þetta t.d. á wikipedia.org. Þetta hefur gefist vel þar ytra og þá hvers vegna ætti það sama ekki að gilda hér? Stjórnmálin Ég geri ráð fyrir því að flestallir stjórnmálamenn séu þessu sammála, a.m.k. í orði kveðnu. Samt er margt ógert í þessum efnum. Hægri grænir, flokkur fólksins, er undantekning, en hann hefur lýst því yfir m.a. á xg.is að hann vilji taka þessi mál föstum tökum komist hann til nægilegra áhrifa. Kjartan Örn Kjartansson Höfundur er fyrrv. forstjóri. Atvinnuskapandi rekstur minni fyrirtækja Kjartan Örn Kjartansson Vatnsveitur á lögbýlum Veittir eru styrkir úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum í dreifbýli samkvæmt reglugerð nr. 973/2000. Umsóknir um framlög til vatnsveituframkvæmda skulu berast til Bændasamtaka Íslands fyrir 1. mars. Umsókn skal fylgja staðfest kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Nánari reglur og umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á www.bondi.is Bændasamtök Íslands Bændahöllinni við Hagatorg 107 Reykjavík

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.