Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 44

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Íslensk hönnun Kristín Sigfríður Garðarsdóttir keramiker á og rekur vinnustofuna Stúdíó Subba í Hamraborg í Kópavogi. Hún vinnur mest með postulín en einnig hefur komið glerlína á markað undir hennar merkjum. Kristín er mest þekkt fyrir nýstárlega bollagerð en einnig hefur hún verið dugleg í gerð skúlptúra. Upphaf: Ég lærði í leirlistardeild Mynd- og handíðaskólans en svo fór ég til Danmerkur árið 1999 í Danmarks Designskole þar sem ég var aðallega í verknámi á gifs- og glerverkstæði. Þegar ég kom heim frá Danmörku byrjaði ég að vinna með nokkrum leirlistakonum í Kópavogi á vinnustofu sem heitir Skruggusteinn, sem var skemmtilegt tímabil. En sköpun mín og framleiðsla er plássfrek og getur verið mjög óþrifaleg, oft rykar mikið upp og verður töluvert subb í kringum mig. Þar sem mér finnst gott að vinna ein sló ég til í einu bjartsýniskastinu og keypti mér húsnæði fyrir nokkrum árum þar sem reynist dásamlegt að vinna, þar er falleg birta og friður. Hráefni: Ég vinn mikið með gifs, bý til grunnform úr gifsi og einnig mót sem ég steypi postulínið í. Ég vinn nytjahlutina yfirleitt úr postulíni eða steinleirsmassa, skúlptúrana vinn ég aðallega í japanskan steinleir. Einnig nota ég ljósmyndir sem ég vinn í Photoshop og sendi til Belgíu þar sem búnir eru til transferar sem ég brenni ofan í glerunginn á mörgum þrívíddarverkum sem ég vinn. Innblástur: Ég á mjög erfitt með að skilgreina hvaðan ég fæ innblásturinn sem skilar sér beinustu leið úr huganum í gegnum hendurnar og á vinnuborðið hjá mér. Það er ekki beinlínis þannig að ég fari í gönguferðir til að fiska upp form eða áferð heldur eru það kannski margir þættir sem vinna saman, til dæmis stemning, litir og birta. Sniðug hugmynd getur alveg eins skotið upp kollinum á meðan ég hlusta á útvarp eða vel mér appelsínur í Fjarðarkaupum. Ég er mikið með hugann við vinnuna mína og er stöðugt að þróa og hugsa. Síðan breytast hugmyndir yfirleitt í „samráði“ við efnið sem ég nota, það virðist stundum eins og leirinn hafi sjálfstæðan vilja. Ég hef alltaf áhuga á því gráa svæði þar sem nytjahlutir og skúlptúrar mætast og hef ég einmitt verið að skoða þau mörk í mínum verkum. Fram undan: Í byrjun febrúar verður opnuð sýning sem ég tek þátt í og er hluti sýningar frá Hönnunarmars í fyrra sem bar heitið HANDLEIKIÐ, en þá sýndi ég ásamt finnskum hönnuði, Pekka Tapió Pykkonen. Fór sú sýning eftir Hönnunarmars í sendiráð Íslands í Finnlandi og heldur nú í annað sýningarrými í Helsinki. Mér finnst gaman og nauðsyn legt að gera tilraunir með efni og form. Ég fer til Berlínar á vinnustofu í apríl því það er bæði hollt og hressandi fyrir hugann að breyta reglulega um umhverfi. Ég hef verið svo heppin að komast á vinnustofur erlendis og hef meðal annars þrisvar farið til Japans á vinnustofu. Það hefur verið mjög lærdómsríkt, þar er keramikhefðin rík og gott að læra og kynnast annarri menningu og siðum. Svo kynnist maður frábærum listamönnum og eflir tengslanetið. Ég er í sambandi við mikið af góðu fólki sem ég hef kynnst af ýmsum þjóðernum. Margir hafa komið til Íslands til að vinna og aðrir í heimsókn til að skoða landið. Síðan er nýr Hönnunarmars handan við hornið, þar munum við stöllur sem rekum Kirsuberjatréð vera með sýningu í búðinni þar sem við ætlum að leika okkur með ýmiss konar speglun. /ehg Jafnt nytjahlutir sem hversdagsskraut Kristín Sigfríður Garðarsdóttir keramiker hefur rekið sitt eigið fyrirtæki í tæp 10 ár en að auki hefur hún kennt í Myndlistaskóla Reykjavíkur og Listaháskólanum. Þetta endurvinnsluverk gerði Kristín fyrir Hönnunarmars í fyrra. Glerlína Kristínar hefur verið vinsæl, en hún er blásin í Póllandi. Mynd / Guðmundur, Ímynd Skúlptúr eftir Kristínu þar sem ljósmynd er brennd í glerunginn.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.