Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Plöntur hafa fylgt manninum frá upphafi vega. Þær hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sögu hans og menningu. Landbúnaðar- byltingin grundvallaðist á því að menn fóru að rækta korn og eftir það hófst myndun borga og nútímamenning varð til. Í indversku spekiritunum Rig Veda segir að maðurinn hafi lært að þekkja ætar plöntur frá eitruðum með því að fylgjast með fæðuvali grasbíta. Síðan hefur hann lært að rækta og kynbæta plöntur til að full- nægja þörfum sínum. Á miðöldum var lækningajurtum safnað úti í náttúrunni af grasa- læknum og þær ræktaðar í klaustur- görðum. Munkar og grasalæknar sáu um að líkna sjúkum og græða sár með jurtalyfjum og smyrslum. Galdrar og vísindi Í seinni tíð hefur vegur grasalækninga vaxið mikið og oftar en ekki í samfloti við svonefnda nýaldarhyggju. Dæmi þetta var illþefjandi sveppaglundur, sem fólk drakk mikið á tímabili í fálmkenndri baráttu sinni við ellina. Ég hef heyrt dæmi þess að fólk hafi drukkið nokkra bolla af þessum yngingarelexír á hverjum degi, og mér skilst þeir sem lengst hafi náð í yngingarferlinu hafi verið farnir að sofa í fósturstellingu. Grasalækningar hafa í grófum dráttum þróast frá göldrum, þar sem seiðkarlar og kerlingar ráku út illa anda með hjálp plantna, yfir í að vera vísindi. Á tímabili var því trúað að plöntur sem bæru blöð sem væru í laginu eins og lifur væru góðar gegn lifrarsýkingum og að plöntur sem líktust kynfærum á einhvern hátt ykju kyngetuna. Í einni athugun kom í ljós að af 119 mikilvægustu plöntunum sem notaðar eru til lyfjagerðar eru 88 tegundir þekktar meðal frumstæðra þjóðflokka sem lækningarjurtir. Eitt undirstöðuefnið í getnaðarvarnarpillunni er uppruna- lega unnið úr klifurjurt sem vex í regnskógum Suður-Ameríku. Eitur og trúartákn Jurtalyf hafa ekki eingöngu verið notuð til lækninga, þau geta líka verið sterk eitur, og á tímum Grikkja og Rómverja voru þau mikið notuð til að ryðja pólitískum keppinautum úr vegi. Frú Lacusta, eitursérfræðingur Nerós keisara, var einstaklega lagin við það og aðstoðaði hún hann í valdabaráttunni með því að eitra fyrir andstæðingum keisarans. Sedrusviðurinn naut á sínum tíma átrúnaðar kristinna manna, gyðinga og múslíma, þótt hver hefði sína ástæðu. Fíkjutré eru álitin heilög af búddhistum vegna þess að Siddharta Gautama öðlaðist nirvana undir einu slíku. Hindúar trúa því að guðinn Brahma hafi breyst í fíkjutré og hver man ekki eftir fíkjutrénu í aldingarðinum Eden þar sem það þjónaði sem klæðaskápur Evu. Helgileikir í tengslum við árstíðir og uppskeru eru oft tengdir hlutum úr tré, þekkt dæmi um þetta eru jólatré og maístöngin. Fyrir tíma kristninnar þekktist það í Norður- Evrópu að unglingar færu út í skóg og kæmu til baka með skreyttar trjágreinar, reðurtákn – tákn frjósemi sem síðan var dansað kringum. Í kristni eru plöntur notaðar sem tákn og Jesú notaði þær oft í dæmisögum sínum. Fífillinn sem er bitur á bragðið og táknar pínu Krists og krossfestinguna. Samkvæmt helgisögninni var krossinn smíð- aður úr ösp og þess vegna skjálfa lauf asparinnar án afláts. Rósir eru tákn Krists og María guðsmóðir var kölluð rós án þyrna vegna þess að hún var talinn syndlaus. Í sveitahéraði einu á Ítalíu fór fullorðinsvíxla unglinga fram með þeim hætti að afi og amma ung- lingsins velja ungt tré og kljúfa stofn þess. Unglingurinn smeygir sér síðan nakinn gegnum tréð, rétt eins og hann sé að fæðast aftur, en að þessu sinni er unglingurinn að fæðast inn í heim hinna fullorðnu. Síðan er tréð bundið saman eins og um ágræðslu sé að ræða, unglingur- inn og tréð halda svo áfram að vaxa og þroskast saman. Askurinn er heimstréð í norrænni goðafræði. Óðinn hékk níu nætur í tré til að öðlast visku og Adam og Eva borðuðu af skilningstrénu og voru rekin úr paradís fyrir vikið. Í norrænni goðafræði eru dæmi þess að menn hafi blótað tré og lundi í tengslum við Freysdýrkun. Um íslenskar plöntur Nokkrar íslenskar plöntur bera goðaheiti til, dæmis baldursbrá, friggjargras og lokasjóður. Í Skandinavíu eru allmargar tegundir plantna kenndar við Jesú Krist en ekkert hér á landi. Nokkur gömul íslensk plöntunöfn eru kennd við Maríu mey eins og maríugras og maríuskór. Tvær jurtir sem vaxa á Íslandi eru þeirri náttúru gæddar að geta opnað skrár og lása, þetta eru tungljurt og fjórlaufasmári. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að þjófarót sé gras eitt með hvítleitu blómi. „Er það mælt að hún sé vaxin upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin upp af náfroðu upp úr honum. En aðrir segja að hún sé sprottin upp af þjófadysinni. Rót gras þessa er mjög angótt. Þegar þjófarót er tekin verður að grafa út fyrir alla angana á henni án þess að skerða nokkurn þeirra nokkur staðar nema miðangann eða meginrótina sem gengur beint í jörð niður, hana verður að slíta. En sú náttúra fylgir þeim anganum að sérhvert kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hann slitnar liggur þegar dautt. Þeir sem grafa þjófarót binda því flóka um eyru sér. En til þess að þeir sé því ugglausari að þeir heyri alls ekkert hafa þeir þó varúð við að þeir binda um rótina og hinum endanum við hund sem þeir hafa með sér. Þegar þeir eru búnir að undirbúa allt hlaupa þeir frá greftrinum og þegar þeir þykjast komnir nógu langt burt kalla þeir á hundinn. Slitnar þá anginn við það að hundurinn gegnir og ætlar að hlaupa til mannsins, en hundurinn drepst þegar í stað er hann heyrir slithvell rótarinnar. Síðan er rótin tekin og geymd vandlega. Gras þetta hefur þá náttúru að það dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðamús dregur fé úr sjó. En þó verður fyrst að stela undir hana peningi frá bláfátækri ekkju milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins.“ Þess má geta að í Evrópu er þekkt galdrajurt með kræklótta rót sem nefnist gaddepli. Þar er því trúað að hún spretti upp af sæði þjófs sem hefur verið hengdur og eru aðferð- irnar við að ná rót hennar þær sömu. Árið 1671 tók Alþingi fyrir mál Sigurðar Jónssonar galdramanns. 1. júlí 1671 nefndu lögmenn og fógeti tíu sýslumenn og tvo lögréttumenn í dóm á Alþingi til að rannsaka dóma þá sem sýslumennirnir í Ísafjarðarsýslu, Magnús Magnússon og Páll Torfason, höfðu kveðið upp um galdraáburð Guðmundar Magnússonar á Sigurð Jónsson. Sigurður viðurkennir að hafa notað mellifolium, sem er vall- humall, með kvikasilfri og eigin sæði til að rista galdrastaf í viðarbút ásamt vísuorðum sem hann kvað sjálfur til að fremja galdur. Annars staðar segist Sigurður hafa lagt sig niður tekið græðisvepp og látið blæða þar í tvo blóðdropa úr nösum sér og að síðar í draumi hafi hann látið sæðið svo sem við kvenmannspersónu. Garðyrkja & ræktun Lækningajurtir og galdraplöntur Fyrri hluti Vallhumall er margreynd lækninga- og galdrajurt. Eitt undirstöðuefnið í getnaðarvarna- pillunni er upprunalega unnið úr klifurjurt sem vex í regnskógum Suður-Ameríku. Askurinn er heimstréð í norrænni goðafræði. Á miðöldum var lækningajurtum safnað úti í náttúrunni af grasalæknum og þær ræktaðar í klausturgörðum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.