Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 07.02.2013, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. febrúar 2013 Sigurborg Daðadóttir, nýr yfirdýralæknir, kallar eftir því að allir taki þátt í dýravernd: Dýravelferð á Íslandi verði á stalli með svissneskum úrum – Afar mikilvægt er að þingmenn samþykki frumvarp til laga um velferð dýra sem liggur fyrir Alþingi Sigurborg Daðadóttir tók við embætti yfirdýralæknis nú um síðustu mánaðamót. Sigurborg er menntaður dýralæknir frá Tierärzt liche Hochschule í Hannover og hefur starfað hjá Matvæla stofnun frá árinu 2007, síðast sem gæðastjóri og forstöðumaður áhættumats- og gæðastjórnunarsviðs. Sigurborg er fyrsta konan sem skipuð er yfir dýralæknir, en fjórir dýra- læknar hafa gegnt embættinu frá árinu 1943, þegar fyrst var skipað í stöðuna. Sigurborg hefur einnig, ásamt öðru, sinnt verkefnum sem varða dýravelferð. Matvæla stofnun hefur nú tekið yfir eftirlit með framkvæmd allra dýraverndar- mála, eftir verkefna flutning frá Umhverfis stofnun á grundvelli laga sem tóku gildi um síðustu áramót. Nokkuð brátt bar að þegar embætti yfirdýralæknis varð laust til umsóknar, en fyrirennari Sigurborgar, Halldór Runólfsson, var skipaður skrifstofustjóri afurða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Því þurfti að þurfti að taka ákvörðun um að hrökkva eða stökkva með skjótum hætti. Sigurborg segir að ákvörðunin hafi þó ekki verið auðtekin. „Ég hugsaði þetta mjög vel, og framan af var ég ekki á því að sækja um starfið. Það sem aftraði mér var að þetta er mjög viðamikið starf og krefjandi. Það getur þurft að taka ákvarðanir sem skapa óvinsældir, ákvarðanir sem þarf þó að taka. Það þarf líka alltaf að vera viðbúinn og til reiðu og það getur auðvitað verið lýjandi. En þetta er spennandi staða og ég tók þessa ákvörðun vegna þess að mig langar til að hafa áhrif. Mig langar til að halda áfram að bæta þjónustuna, bæta dýravelferð og heilbrigði dýra.“ Draumur um viðurkenningu á alþjóðavettvangi Dýravelferð er Sigurborgu augljós- lega mikið hjartans mál, eins og kemur berlega í ljós þegar hún lýsir framtíðarsýn sinni. „Ég á mér draum sem ég skal deila með þér. Sá draumur og framtíðarsýn er að íslensk dýr og afurðir þeirra geti notið álíka viðurkenningar á alþjóðavettvangi eins og svissnesk úr, með tilliti til dýraheilbrigðis og dýra velferðar. Ég held að við Íslendingar höfum allt til þess að bera að þetta sé hægt. Það væri auðvitað stórkostlegt ef þetta yrði almennt viðurkennt úti í hinum stóra heimi. Að það væri vitað og viðurkennt að hér á landi sé dýrahald með þeim hætti að meðferð dýra og heilbrigði þeirra sé til algjörrar fyrirmyndar. Þetta verður hins vegar ekki hægt nema allir taki höndum saman, allt frá dýraeigendum til stjórnvalda. Það þýðir ekki að halda því bara fram að hlutirnir séu í lagi hjá okkur, við verðum að geta sýnt fram á það.“ Myndum skipa okkur í fremstu röð með samþykkt nýrra laga um velferð dýra Erfitt er að meta hver staða mála er varðandi dýravernd og velferð hér á landi vegna skorts á gögnum, segir Sigurborg. „Ég hef satt að segja ekki hug- mynd um hvernig staðan er. Það er erfitt að leggja á það mat, til þess vantar okkur gögn. Við erum góð á ýmsum sviðum, slæm á öðrum. Fyrirhugaðar breytingar í lagaum- hverfinu tel ég vera mjög til bóta. Að færa þennan málaflokk, dýraheil- brigði og dýravelferð, á eina hendi ætti að verða til mikilla bóta og ætti að gera allt starf skilvirkara. Með samþykkt frumvarps til laga um vel- ferð dýra sem liggur fyrir Alþingi nú værum við að skipa okkur í hóp fremstu þjóða í heimi varðandi lög- gjöf í þessum efnum. Þá eigum við auðvitað eftir að smíða nýjar reglur um aðbúnað á grunni þessara nýju laga og einnig að koma þeim í fram- kvæmd. Það er ekki nóg að hafa lög og reglugerðir heldur þarf fólk að fara eftir þeim. Það verður líka að vera hægt að framfylgja lögunum.“ Núgildandi dýraverndarlög úrelt Sigurborg segir að þau lög sem nú eru í gildi varðandi dýravelferð séu úrelt. Þau endurspegli á engan hátt þann veruleika sem sé til staðar í dag og löngu sé orðið tímabært að breyta þeim til þess horfs sem er í frumvarpi til nýrra laga. Hún segist jafnframt vonast til að Alþingi samþykki ný lög hið allra fyrsta. „Dýravelferð er í raun ekki annað en siðferði þess tíma sem við lifum á hverju sinni. Það sem þótti í lagi fyrir fimmtíu árum þykir ekki í lagi í dag og ég get lofað því að það sem okkur þykir í lagi í dag mun ekki þykja í lagi eftir fimmtíu ár. Núgildandi lög eru orðin úrelt, þau eru t.a.m. fjarri því nógu ítarleg. Lög um búfjárhald og lög um dýravernd hafa heyrt undir sitt hvort ráðuneytið, hjá sitt hvorri stofnuninni. Dýralæknar sem vinna undir Matvælastofnun (MAST) eiga að vinna eftir dýraverndarlögum en þeir hafa ekki haft nein úrræði til að beita sér þar eð málaflokkurinn hefur heyrt undir Umhverfisstofnun (UST). Það breyttist reyndar um síðustu áramót þegar málaflokkurinn fluttist til MAST.“ Úrræðaleysi hefur að mati Sigurborgar einkennt stöðu mála varðandi dýravernd og dýravelferð. „Samkvæmt lögunum í dag er hægt að krefjast úrbóta séu mál ekki í lagi. Sé ekki brugðist við kröfum um úrbætur er annaðhvort hægt að kæra til lögreglu eða svipta fólk leyfi til að halda dýr. Það er enginn millivegur þarna. Svona mál eru ekki endilega efst á lista lögreglu á niðurskurðartímum, það eru önnur brýnni mál sem þeir setja í forgang samkvæmt bestu vitund sinni. Þetta getur þess vegna verið ansi máttlaust, því miður.“ Eignarrétturinn ótrúlega sterkur Umræða um brot á dýravelferð hefur verið talsverð í fjölmiðlum síðustu misseri. Erfitt er þó að átta sig á hvort staða dýraverndar og dýravelferðamála er betri eða verri nú en verið hefur. Sigurborg segir einfaldlega að upplýsingar vanti til að meta stöðu mála. „Við höfum því miður ekki nægilega aðgengilegar upplýsingar til að geta metið hver þróun mála í dýravelferð hefur verið. Bæði hafa upplýsingar eins og áður segir verið á tveimur stöðum, hjá MAST og UST, og einnig vantar kannski upp á ítarlegri skráningu. Ég hef það á tilfinningunni að staða mála hafi ekki versnað heldur sé umræðan kannski meiri og opnari. Það er um margt jákvætt, gagnsæi er af hinu góða. MAST er auðvitað ríkisstofnun og starfar í þágu samfélagsins. Það má svo sem deila um hversu mikið eigi að birta af niðurstöðum eftirlits. Danir til að mynda birta eftirlitsskýrslur í hvert skipti sem mál af þessu tagi koma upp. Við höfum verið passívari, persónuvernd hefur haft mikið vægi og eignarréttur verið alveg afskaplega sterkur. Það er í raun alveg ótrúlegt hvað hefur verið erfitt að koma dýrum sem brotið er gegn til hjálpar vegna þess hversu sterkur eignarréttur eigenda þeirra hefur verið. Þessu stendur til að breyta með nýjum lögum um dýravernd. Þá verður gjörbreyting á þessu og það verða allt önnur úrræði, til að mynda ef komið er með dýr í slátrun og í ljós kemur að ekki hefur verið farið vel með dýrið, það eru á því áverkar eða annað slíkt. Þá er, eins og staðan er, of seint að krefjast úrbóta. Í nýja frumvarpinu eru hins vegar ákvæði sem gera kleift að bregðast við þessu. Þá er t.d. hægt að beita sektum vegna illrar meðferðar af þessu tagi.“ Skýring á illri meðferð liggur í veikleikum hjá fólki Að mati Sigurborgar er ekki hægt að halda því fram að ill meðferð dýra sé algengari í einni búgrein en annarri. Í flestum tilfellum fari fólk enda vel með dýrin sín. „Oftast er skýringa á illri meðferð á dýrum að leita í veikleikum hjá fólkinu sjálfu. Það á við einhvers konar veikleika að stríða, hvort sem það eru elliglöp, alkóhólismi eða eiturlyfjaneysla, andlegir sjúkdómar eða annað. Það geta allir sem halda dýr átt við einhvers konar veikleika að stríða sem kemur þá niður á dýrunum. Það er alltaf jafn alvarlegt. Þar sem skepnur eru flestar eru þó oftar en ekki fleiri starfsmenn til staðar sem geta leiðrétt hlutina. Þar sem fólk er eitt með skepnur er hætt við því að þessir hlutir komist ekki upp í langan tíma og dýrin líði í samræmi við það.“ Fræðslu er þörf Margir þeir sem koma að dýra- verndarmálum eru á þeirri skoðun að dómstólar hafi ekki nægan skilning á alvarleika málanna. Þá bregðist ákæruvald oft allt of seint við og leggi oftar en ekki litla áherslu á brot á lögum um dýravernd. Sigurborg segist vera þessu sammála. „Því miður er það svo og við höfum um það borðleggjandi dæmi. Það hafa verið gerðar dómssáttir vítt og breitt um landið í málum af þessum toga sem hafa verið vægast sagt furðulegar. Hjá sumum sýslumannsembættum hefur gengið verr en annars staðar að fá mál rannsökuð. Ég hugsa að við verðum að taka okkur á við að fræða fólk sem starfar hjá ákæruvaldinu um þessi mál. Svíar gerðu átak í þessum málum, þeir buðu starfsmönnum ákæruvaldsins á námskeið um velferð og atferli dýra og kynntu þeim hversu mikill munur er í þessum efnum milli dýra og manneskja. Það er hægt að fara illa með dýr á ýmsan hátt, það er hægt að misbeita dýrum án þess að fram komi sjáanlegir áverkar. Það er til að mynda hægt að misnota dýr kynferðislega án þess að á því sjáist áverkar, það er ekki bannað samkvæmt þeim lögum sem við búum við í dag. Það verður hins vegar bannað með nýjum lögum, verði þau samþykkt, og það er gríðarlegt framfaraskref.“ Erum of kærulaus Kæruleysi er mesta hættan varðandi búfjársjúkdóma hérlendis. Mikil áhætta væri tekin ef leyft yrði að flytja hingað til lands lifandi dýr í frjálsu flæði en það er fleira sem kemur til. Sigurborg segir að bæði sé hætta á að hingað til lands berist sjúkdómar með ferðum fólks til landsins en einnig að allt of mikið kæruleysi sé varðandi umgang óviðkomandi aðila um búfé. Bændur þurfi að huga frekar að því hvernig þeir verji búfé sitt. „Við ættum ekki að vera verr stödd en önnur lönd til að takast á við nýja sjúkdóma, sjúkdóma sem gætu borist hingað með breyttu loftslagi til að mynda. Okkar búfjárkyn eru hins vegar viðkvæmari en önnur búfjárkyn, til dæmis á meginlandi Evrópu. Það ætti að vera stefna okkar að losna við sjúkdóma sé það fræðilega mögulegt sem hér eru landlægir og koma í veg fyrir að hingað berist nýir sjúkdómar. Það er dýrt fyrir þjóðfélagið að berjast við sjúkdóma. Ef við þyrftum til að mynda að bólusetja hrossastofninn okkar ítrekað myndi það hugsanlega hlaupa á hundruðum milljóna króna árlega. Það eru því miklir hagsmunir fólgnir í þessu, fyrir utan það sem snýr að velferð dýranna sjálfra. Mesta hættan er auðvitað fólgin í því að hingað berist sjúkdómar með lifandi dýrum. Ég held að allir hljóti að vera sammála því hér á landi, þeir sem vilja vernda okkar dýrastofna, að við getum ekki hætt á að flytja hingað inn lifandi dýr í frjálsu flæði. Það er þó önnur hætta sem er yfirvofandi, og er í raun búin að vera yfirvofandi um langt skeið. Það eru ferðalög mann- skepnunnar, okkar Íslendinga en ekki bara útlendinga sem hingað koma. Kæruleysið í þessum efnum er því miður allt of mikið eins og ítrekað hefur komið í ljós. Hestamenn eru að koma til landsins með skítug reiðtygi og skítugan reiðfatnað og ég held að þetta sé bara gangandi tímasprengja. Eins og okkar hestahaldi er háttað er mikil áhætta fólgin í þessu. Ef upp kemur smitsjúkdómur er smithættan afar mikil. Við erum með megnið af hrossunum í miklu nábýli í bæjum og þorpum, og hross eru flutt þvers og kruss um landið. Einu lausnirnar í þessum efnum eru annars vegar mikil fræðsla og hins vegar hörð viðurlög við brotum. Það er hið eina sem dugir.“ Verðum að gæta að heilbrigði fólks Sömuleiðis er hætta á að hingað til lands berist sjúkdómar með afurðum dýra sem fluttar eru til landsins. Hættan samfara slíku er ekki síst fólgin í sjúkdómum sem geta lagst á fólk, segir Sigurborg. „Það er mun minni hætta á að það beri með sér sjúkdóma í dýr, þó að hún sé til staðar. Það er mun styttri leið frá dýri til dýrs og frá manni til dýrs. Við megum hins vegar ekki einblína á innfluttar dýraafurðir út frá heilbrigði dýra heldur út frá heilbrigði okkar mannanna. Íslendingar hafa náð mjög góðum árangri í baráttunni gegn salmonellu og campylobacter í kjúklingum, tíðni slíkra sýkinga í fólki er mun lægri hér á landi en í Evrópulöndunum. Það er það sem við eigum að verja eins og kostur er. Kjúklingabændur hér á landi eru fremstir í heiminum að verjast campylobactersmiti og því má ekki tefla í tvísýnu. Aðrir bændur ættu að taka kjúklingabændur sér til fyrirmyndar, að verja sínar skepnur fyrir sjúkdómum. Svínabændur hafa gert þetta líka en mér þykja aðrir bændur ekki endilega sýna mikla ábyrgð í þessum efnum.“ Bændur verða að huga að smitvörnum Spurð hvort hún sé með þessu að vísa til frjálslegrar umgengni utanaðkomandi aðila við skepnur, til að mynda í gripahúsum, svarar Sigurborg því til að svo sé. Sigurborg Daðadóttir. Erum of kærulaus Kæruleysi er mesta hættan varðandi búfjársjúkdóma hérlendis. Mikil áhætta væri tekin ef leyft yrði að flytja hingað til lands lifandi dýr í frjálsu flæði en það er fleira sem kemur til. Sigurborg segir að bæði sé hætta á að hingað til lands berist sjúkdómar með ferðum fólks til landsins en einnig að allt of mikið kæruleysi sé varðandi umgang óviðkomandi aðila um búfé. Bændur þurfi að huga frekar að því hvernig þeir verji búfé sitt.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.