Morgunblaðið - 14.12.2013, Side 33
FRÉTTIR 33Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. DESEMBER 2013
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Með endurnýjun og uppbyggingu í
fiskiðjuveri Skinneyjar-Þinganess á
Höfn í Hornafirði með samningi við
Skagann á Akranesi er horft til
framtíðar. Í vor verður nýr vinnslu-
búnaður settur upp hjá fyrirtækinu
og reiknað er með að afköst í fryst-
ingu uppsjávarafla aukist úr tæp-
lega 400 tonnum á sólarhring í um
600 tonn. Jafnframt verða gæði af-
urða meiri en áður, framleiðni eykst
og fyrirtækið verður samkeppnis-
hæfara, að sögn Aðalsteins Ingólfs-
sonar, framkvæmdastjóra fyrirtæk-
isins. Hann vill ekki gefa upp
nákvæman kostnað við nýja bún-
aðinn, en segir hann hlaupa á
hundruðum milljóna króna.
Aðalsteinn segir að byrjað verði að
fjarlægja eldri frysta og ýmis önnur
tæki að lokinni loðnuvertíð, vænt-
anlega í lok mars, og nýi búnaðurinn
verði síðan settur upp. Hann eigi að
vera kominn upp og tilbúinn til
vinnslu 1. júní í sumar eða áður en
makríl- og síldarvertíð hefst. Ekki er
reiknað með breytingum í starfs-
mannafjölda.
Varðandi bolfiskvinnslu sé einnig
verið að hugsa til framtíðar og þar sé
byrjað að endurnýja vinnslubúnað í
samvinnu við Skagann. Unnið sé að
frekari endurnýjun og endurskipu-
lagningu og hugsanlega kalli þær
breytingar á byggingaframkvæmdir
á næstu misserum.
Óvissunni ljúki
„Forsenda allra framkvæmda í
sjávarútvegi er að greinin fái að
þróast eðlilega,“ segir Aðalsteinn.
„Stjórnarflokkarnir hafa lofað því að
festa komist á og óvissu ljúki um
veiðigjöld. Við treystum því að svo
verði og á þeim forsendum förum við
út í þessar fjárfestingar,“ segir
Aðalsteinn. Hann segist hafa þá trú
að íslensk stjórnvöld endurskoði lög
um veiðigjöld með það að leiðarljósi
að sjávarútvegurinn geti haldið
áfram að vaxa og skila samfélaginu
öllu ríkulegum ávinningi. Aðalsteinn
segir mikilvægt fyrir Skinney-
Þinganes og samfélagið allt, að ís-
lenskur sjávarútvegur haldi stöðu
sinni í fremstu röð á heimsvísu.
Sú staða sé ekki sjálfgefin heldur
þurfi fjárfestingu til. Því kosti fyrir-
tækið miklu til við endurbætur sem
þessar. Hann segir að íslenskur
sjávarútvegur hafi á undanförnum
árum tekið virkan þátt í þróun
vinnslubúnaðar fyrir sjávarútveginn
með Skaganum hf. Markmiðið sé
ætíð að auka samkeppnishæfni Ís-
lands á alþjóðamarkaði.
Sjö skip og 240 starfsmenn
Skinney-Þinganes er ásamt
bæjarfélaginu stærsti vinnuveit-
andinn á Höfn í Hornafirði. Þar
starfa um 240 manns á sjó og landi,
en á humarvertíð á sumrin og við af-
leysingar bætast um 60 ungmenni
við.
Fyrirtækið er alhliða útgerðar-
fyrirtæki og segir Aðalsteinn að í
raun sé alltaf einhver vertíð í gangi;
net, humar, dragnót eða vertíð upp-
sjávarskipa. Í haust hafa uppsjávar-
skip fyrirtækisins verið á síldveið-
um og náðu stórum hluta kvótans í
grennd við Stykkishólm í upphafi
vertíðar.
Skinney-Þinganes gerir út sjö
skip og eru fimm þeirra smíðuð á ár-
unum 2000-2009 þannig að flotinn
hefur að stórum hluta verið endur-
nýjaður á síðustu árum.
Eitt skipið var smíðað 1991 og elst
í flotanum er uppsjávarskipið Jóna
Eðvalds, sem var smíðað 1975. Skip-
ið kom til landsins sem Björg Jóns-
dóttir ÞH árið 2004 og var þá skipt
um brú, spil og vél í skipinu. Fram-
undan er stór klössun á skipinu.
Horft til framtíðar á Höfn
Skinney-Þinganes eykur afköst í uppsjávarvinnslu með nýjum búnaði Í gagnið fyrir sumarvertíð
Forsenda framkvæmda í sjávarútvegi er að greinin fái að þróast eðlilega, segir Aðalsteinn Ingólfsson
Morgunblaðið/Ómar
Frá Höfn í Hornafirði Ásgrímur Halldórsson við bryggju framan við fiskvinnsluna. Fastir starfsmenn hjá Skinney-Þinganesi eru um 240 á sjó og landi.