Stígandi - 01.07.1943, Page 34
24
UM MÁLVÖNDUN
STÍGANDI
ingum orða, en með því á ég við það, að sama orðið sé oft og
einatt ekki notað í sömu merkingu um land allt. Skal ég taka
dæmi máli mínu til stuðnings og skýringar.
Nokkru eftir að ég kom hingað til Akureyrar vestan af Isa-
firði til þess að stunda nám hér í Menntaskólanum, rataði ég í
þá raun að leggjast sjúkur. Skömmu eftir að ég var staðinn upp
úr legunni, aumur útlits og vesællegur, veik sér að mér Eyfirð-
ingur einn og tók að fjargviðrast um það, hve bjálfalegur ég
væri. Ég brást reiður við, sem vonlegt var, svaraði skætingi ein-
um, því að mér þótti þetta harla lítil kurteisi. Ég var uppalinn
við það, að orðið merkti „kjánalegur“, en hér nyrðra er orðið not-
að í merkingunni „veiklulegur útlits“. Slíkur merkingarmunur
orða er ekki fátíður milli einstakra landshluta og jafnvel sýslna.
Þessi landafræði orða og merkinga er skemmtilegt viðfangs-
efni, sem lítið hefir verið sinnt, en þyrfti að rannsaka, því að
hætta er á, að munur þessi fari að forgörðum með bættum sam-
göngum, aukinni skólasókn og útvarpsmælgi. Yrði því að gera
bráðabug að rannsókn þessa máls.
Loks ber að geta, að málið er nokkuð mismunandi eftir stétt-
um, en sá munur er þó hverfandi lítill.
Niðurstaða þessara bollalegginga verður því sú, að íslenzk
tunga hafi að tiltölu lítið breytzt, erlend áhrif sé ekki ýkja-
mikil og munur héraðamála ekki meiri en svo, að hann skapi
f jölbreytni án þess að valda örðugleikum.
En nú verður einhverjum ef til vill á að spyrja: Er tungan
ekki í hættu, og verðum við ekki að gera ráðstafanir við þeirri
hættu? Því er fljótsvarað. Tungan er í hættu, hefir alltaf verið
í hættu og verður það vafalaust alla tíð. Mér þykir vænt um
það, að ég hefi orðið þess meira var nú en áður, að menn bæri
kvíðboga fyrir framtíð tungunnar. Það er eins og þessi ást hafi
skyndilega blossað upp við tilkomu brezka og ameríska setu-
liðsins. Ég hefi hitt fjölmarga menn, sem hafa tjáð mér ást sína
á íslenzkri tungu og verið upp til handa og fóta um ýmis ráð, er
stuðla mætti að varðveizlu hennar. En því miður hefir á þetta
borið svartan skugga. Ég hefi því miður ekki getað varizt þeirri
hugsun að spyrja sjálfan mig þess, hvernig á því geti staðið, að
menn, sem varla hafa getað komið út úr sér óbjagaðri setningu
og verið gersamlega skeytingarlausir um meðferð tungunnar,