Stígandi - 01.10.1943, Page 23
STÍGANDI
UM MÁLVÖNDUN
85
og í viðræðum við menn. Þessi meinsemd er sýnu alvarlegust
og grefur um sig jafnt og þétt. Ég á erfitt með að skilja, þó að
mér þyki hörmulegt til þess að vita, að þetta geti stafað af öðru
en almennri hnignun málsins eða að minnsta kosti hnignandi
málkennd manna. En það er ofureðlilegt, að málkenndinni
hnigni, því að menn lesa svo skelfilega lítið á góðu máli, eins og
ég veik að áður. En við þessu sé ég enga lækningu aðra en þá,
að menn breyti um stefnu í þessum efnum, hefji á nýjan leik
lestur góðra, íslenzkra bókmennta og nemi setningasmíð af góð-
skáldum vorum og fornum rithöfundum.
En mál þarf engan veginn að vera vandað, þó að fylgt sé út í
æsar viðurkenndum reglum um „rétt mál“. Það er fleira, sem
gæta ber. Vandað mál er hreint mál. Við hreinleik málsins, tel
ég, að íslendingum beri að leggja mikla rækt. Um það atriði er,
að minni hyggju, varhugavert að láta sameiginlega villu (eða
öllu heldur venju) veita réttinn. Þar ætti fleiri sjónarmið að
koma til greina, sem oflangt mál yrði að rekja hér. Ég vil aðeins
benda á, að þetta er utanríkismál tungunnar, þar sem réttleik-
inn, sem um var rætt hér að framan, er innanríkismál. Og ein-
mitt af þessum sökum verðum við að vera enn varfærnari.
Þetta atriði er einnig veigameira fyrir þá sök, að íslenzkan er
tunga, sem töluð er af smáþjóð, sem á gínandi yfir höfði sér
ísmeygilegar stórþjóðir, er mæla á ginnandi alheimsmáli. Varð-
veizla hreinleika málsins er þannig landvarnarmál, þar sem
heyja verður þrotlausa og miskunnarlausa baráttu. Það dettur
engum í hug að veita erlendum manni, sem rekið hefir á fjörur
okkar, þegar í stað íslenzk þegnréttindi. Á sama hátt megum við
ekki þegar í stað viðurkenna erlend orð, er slæðzt hafa inn í ís-
lenzku, bera annarlegan svip og eiga erfitt með að laga sig eftir
íslenzkum beygingarreglum. En hér er við ramman reip að
draga, því að mörgum Islendingum þykir mjög gaman að því að
láta bera á kunnáttu sinni í erlendum málum. Það er okkur
nauðsynlegt, íslendingum, að leggja stund á erlendar tungur og
kynnast þannig menningu stórþjóðanna. Ég hefi heldur enga
óbeit á því, að menn stæri sig af þessari kunnáttu. Ég held, að
það sé hverjum manni gott að vera hæfilega montinn. En þetta
mont má ekki verða til þess, að menn óvirði íslenzka tungu
með því að saurga hana með erlendum slettum. Þær ber að var-
ast af fremsta megni. En ég ætla að biðja menn að hugleiða það,
að það er margt fleira erlendar slettur en margur hyggur.