Hrund - 01.11.1967, Blaðsíða 7

Hrund - 01.11.1967, Blaðsíða 7
Með íslenzkum konum í Lundúnum ég harmaði það oft, hvað Guðmundur var sjaldan heima og ég hafði oft lítið af honum að segja. Nú er þetta breytt og ég kann því afskaplega vel. — Er eitthvað af börnum ykkar hjá ykkur? — Já, tveir drengjanna eru hér alveg, annar stund- ar málanám við Stafford House College, hinn vinn- ur hjá Loftleiðum. Sá yngsti sem er 16 ára, er hér aðeins á sumrin — og í jólafríum. Hann er annars í Verzlunarskólanum heima og býr hjá bróður sín- um, sem er 24 ára lagastúdent og kvæntur heima. — Hvað hafið þið verið gift lengi hjónin? — í 25 ár — giftum okkur 19. september 1942 heima í Reykjavík. Þá höfðum við verið trúlofuð í mörg ár. Guðmundur var orðinn hæstaréttarlög- maður, áður en við giftum okkur og búinn að byggja yfir okkur íbúð. — Þið bjugguð lengst af í Hafnarfirði? — Já, eftir að Guðmundur varð bæjarfógeti þar og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, byggð- um við hús í Hafnarfirði og bjuggum þar í átján ár — eða þar til við fórum hingað. — Var Guðmundur farinn að starfa í stjórnmálum, áður en þið giftuzt. — Já, já, hann fór á þing um svipað leyti. Satt að segja áttaði ég mig ekki til fulls á því, hversu langt hann var kominn út í pólitíkina. Sjálf hafði ég lítinn áhuga — hafði auðvitað sem unglingur þótzt vera pólitísk, og talaði um pólitík án þess að vita nokkuð, hvað ég var að tala um. Eg fór ekki að hugsa um stjórnmál í alvöru fyrr en eftir að við vorum gift — og þá stóð ég auðvitað með mínum manni . Hinsvegar tók ég aldrei virkan þátt í stjórnmálastarfsemi eða baráttu, fór bara með hon- um á fundi og í kosningaferðalög. — Var það ekki stundum erfitt? — Jú, ég verð nú að játa, að mér fannst það stund- um, sérstaklega framan af meðan ég tók nærri mér persónulegar árásir. — En oft hefur verið fjörugt að fylgjast með því, sem um var rifizt? — Já, sannarlega. Það fylgdi þessu oft mikill spenningur. Heima hjá okkur var oft margt um manninn og oft glatt á hjalla. Eg saknaði þess mest, hvað við höfðum lítinn tíma út af fyrir okkur. En nú er þetta alveg breytt. Nú vinnur maðurinn minn venjulega fastan vinnudag á sendiráðsskrifstofunni og þar fyrir utan erum við oftast saman, förum saman í móttökur, höfum gesti hér — eða sitjum í ró og næði uppi I stofunni okkar við lestur, rabb og handavinnu, eða hlustum á sjónvarp og út- varp. Það eru óneitanlega viðbrigði. — Hafið þið ferðazt mikið þessi ár? — Nei, til þessa hefur lftill tími gefizt til ferðalaga. Guðmundur þurfti að byrja á því að ljúka sínum föstu heimsóknum og taka á móti mörgum gestum hér í London. Þó fórum við til Hollands, Spánar og Portúgals í fyrra, því að hann hefur þessi lönd líka fyrir utan England. I sumar notuðum við orlof okkar til að fara heim í þrjár vikur en eigum eftir dálítinn frítíma, sem við ætlum að nota til að skoða eitthvað af Englandi. — Hverjir eru stærstu viðburðirnir í samkvæmis- lífi sendisveitanna hérna? — Meðal stærstu viðburða að vetrinum mundu líklega vera árlegt boð, sem drottningin heldur í Buckinghamhöll í nóvember og hið árlega boð, sem Lord Mayor of London heldur fvrir sendi- herrana. Einnig heldur utanríkisráðherrann brezki boð fyrir alla sendiherrana einhvern tíma vetrarins Og á sumrin er það afmæli drottningar, þá heldur hún þrjár garðveizlur. — Þið hafið væntanlega hitt núverandi utanríkis- ráðherra Breta? — Já, George Brown — hann getur verið einstak- lega skemmtilegur maður. Hann er mjög ólíkur Michael Stewart, sem var hér fyrst eftir að við komum. Stewart var afskaplega hæglátur og alúð- legur maður en Brown öllu meiri fyrir sér — en einstaklega fyndinn. Yfirleitt er ákaflega skemmti- legt að fylgjast með stjórnmálamönnum og stjórn- málum hér í Englandi, bæði af sjónvarpi, útvarpi og dagblöðunum, sem eru alveg einstök, til dæmis sunnudagsblöðin, þau eru heil náma af fróðleik og skemmtilegum fréttum — og frábærlega vel skrifuð. — Og nokkuð mikill munur á stjórnmálabarátt- unni heima og hér eða hvað? — Já, það má nú segja, þar á er mikill munur. Hér halda menn sig ólíkt betur við málefnin. Islending- ar gætu áreiðanlega mikið lært af stjórnmálalífi Englendinga. 7

x

Hrund

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hrund
https://timarit.is/publication/1091

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.