Hrund - 01.11.1967, Blaðsíða 8

Hrund - 01.11.1967, Blaðsíða 8
Með íslenzkum konum í Lundúnum „Innst inni er ég alltaf Islendingur — en vildi ekki flytjast heim úr þessu Ég svipaðist um í mannþrönginni og velti því fyrir mér, hvernig hún mundi líta út þessi ágæta kona, Elínborg Ferrier, er virtist svo sérstakt eftirlæti allra íslendinga, sem ég hafði hitt að máli í London. „Þú mátt til með að hitta hana Elínborgu ein- hverntíma, þegar þú ert á ferðinni,“, höfðu þeir sagt, hver af öðrum — og ég varð æ forvitnari unz að því kom, að mér gafst tækifæri til að hafa sam- band við hana. Ég vissi það eitt, að hún hafði verið flestum Islendingum lengur búsett í London og ræki verzlun í Orpington, einu af úthverfum borg- arinnar. Hún hafði starfað mikið fyrir félag ís- lendinga og verið formaður þess lengi. Nú áttum við stefnumót í veitingahúsi við Piccadilly Circus. Það var fimmtudagur og þá daga vikunnar kom hún venjulega inn í borgina til þess að sinna ýms- um erindum sínum og — að því er mér var sagt, var algengt, að hún keypti þá inn fyrir viðskipta- vini sína í Orpington eitt og annað, sem hún hafði ekki sjálf á boðstólum í verzlun sinni. Ekki amaleg þjónusta að tarna. Allt í einu kom ég auga á miðaldra konu í grárri ullardragt. Hárið, næstum alhvítt skar sig úr mann- grúanum en þegar nær kom, voru það fyrst og fremst augun, stór og björt og brosið, hlýlegt og hýrt, sem vöktu athygli mína. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum — gat það hugsazt, að þessi kona hefði búið í áratugi érlendis og væri þó svo rammíslenzk að fasi og yfirbragði, að leitun væri á öðru eins? Við heilsuðumst, og Elínborg kynnti fyrir mér aðra íslenzka konu Huldu Whitmore, nágranna- konu sína, sem einnig hefur verið búsett í London mjög lengi, eða 23 ár, og er Elínborgu stundum til aðstoðar í verzluninni, þegar á þarf að halda. Elínborg mun hafa búið lengst í London þeirra íslendinga, sem nú eru þar, eða um 35 ár. Hún fluttist þangað með manni sínum, James Ferrier, skozkum að ætt og uppruna, sem látinn er fyrir þremur árum. James Ferrier kom hingað til ís- lands fyrir tæpum fjórum áratugum til að kenna íslendingum í sænska frystihúsinu að fletja fisk til útflutnings. Hann vann hjá heildverzlun Ásgeirs Sigurðssonar, sem hafði forgöngu um að fá hann til landsins þessara erinda. Aðalstarf Ferriers var þá hjá fyrirtækinu J. Bennett og Co., sem var hluti af félagasamsteypunni Associated Fisheries. — Þetta var á þeim árum, sagði Elínborg, þegar íslendingar fengu togara til að fiska og smábáta til þess að sækja fiskinn í þá og koma með hann glæ- nýjan í land. En þetta gekk víst ekki alltof vel — það mun hafa verið tap á þeirri útgerð. Þó var haldið áfram að fletja, pakka og senda fiskinn utan þangað sem var hægt að selja hann. Þetta var í kringum 1930. Ég vann á skrifstofu heima, þegar við kynntumst. Svo giftum við okkur heima og fluttumst hingað til London. — Þá hefur verið fátt íslendinga hér? — Já — þær voru hér þó einar þrjár íslenzku kon- urnar, ein var frú Newman — ég man ekki fornafn hennar, en hún var dóttir Margrétar Zöega, önnur var Ebba Richardsson úr Stykkishólmi, og sú þriðja Ingibjörg Olafsson, sem vann mikið fyrir Kristilegt félag ungra kvenna. Hún var þá orðin fullorðin kona. — Já, þetta voru nokkuð mikil vonbrigði fyrir mig. En ég var svo ákaflega heppin, bæði með eigin- manninn og tengdafólkið. Að vísu átti ég ekki tengdaforeldra á lífi en margt skyldfólk mannsins míns hjálpaði mér á alla lund og var mér ákaflega gott. Móðir mín kom svo til okkar tveimur mán- uðum á eftir okkur og var hjá okkur, þar til hún lézt á stríðsárunum. — Stríðsárin? — æ, þau eru nú að mestu gleymd. Jú, við vorum í London. Ég var þá það, sem kallað var ,,warden“. í borginni var kerfi varðstöðva, og í hverri þeirra starfandi sjö manneskjur, flest kon- ur, því að karlar voru jú flestir á vígstöðvunum. Aðalstöðvarnar í London miðri gerðu þessum stöðvum viðvart, þegar loftárásir voru yfirvofandi, og síðan var okkar starf að mestu fólgið í því að líta eftir því, að ekki sæist inn um glugga á íbúðarhúsum. Þegar svo loftárásir höfðu verið gerðar, fórum við á staðina, sem orðið höfðu fyrir sprengjum, til þess að aðstoða við að finna fólk og koma því í hús eða í læknishendur. — Æjá, þetta var ömurlegur tími, en „warden“- starfið var þó margfalt betra en biðin í óvissu. — Maðurinn minn vann hjá matvælaráðuneytinu, sem var sett upp vegna stríðsins. Bennett lánaði sína menn eins og fleiri fyrirtæki, það hefði ekki verið hægt að byggja slíkt ráðuneyti upp öðru vísi, ekki var hægt að taka þar inn menn af götunni, reynslulausa. Sem fyrr sagði, rekur Elínborg Ferrier nú smá- söluverzlun í Orpington, en áður höfðu þau hjón- in um árabil stundað viðskipti við íslendinga. — Þau hófust á styrjaldarárunum, sagði hún, er ég spurði nánar, — með því, að íslendingar báðu mig að kaupa hitt og þetta, sem erfitt var að fá heima. Þá settum við upp heildverzlun, sem við starf- ræktum þar til Bretar settu á löndunarbannið, þegar íslenzka fiskveiðilögsagan var færð út í fjórar mílur. Þá féll niður útflutningur okkar til íslands, því að hann hafði byggzt algerlega á togurunum. I staðinn byrjuðum við að reka smáverzlun, keypt- um fyrst búð í Greenwich og síðan aðra tveimur árum seinna í Orpington. Við þetta höfum við síð- an starfað, drengirnir mínir tveir reka nú búðina í Greenwich og ég sé um Orpington. Elínborg er ein af stofnfélögum íslendinga- félagsins í London og var formaður þess um ára- bil. Mér er kunnugt um, að hún hefur verið ein- stök hjálparhella mörgum íslendingum í London og spurði hana í gamni, hvort hún hefði aldrei orð- ið þreytt á löndum sínum. — Nei, aldrei, svaraði hún og hló snöggt, ég verð ekki þreytt á íslendingum, meðan ég get sagt þeim meiningu mína og það geri ég oft. Það væri fremur, að þeir yrðu þreyttir á mér. — Já, ég hef oft komið heim þessi árin — ferðað- ist mikið á milli, meðan við vorum að selja vörur heim, en nú eru um fimm ár frá því ég kom síðast. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim miklu breytingum, sem orðið hafa á íslandi á þessum tíma. — Og hér í London líka, já, já, sérstaklega eftir stríðið, þá skemmdist svo óskaplega mikið, heilu hverfin hafa verið byggð upp. Og á öllum sviðum þjóðlífsins hafa orðið geysilegar brevtingar. Fólkið hefur það auðvitað svo miklu betra en áður. Við búum við svo mikið velferðarríki. 8

x

Hrund

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hrund
https://timarit.is/publication/1091

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.