Hrund - 01.11.1967, Blaðsíða 34
Nú ætla ég að skrifa ykkur bréf og segja frá leiðinlegu atviki,
sem kom fyrir mig í haust.
Mér þótti það leiðinlegt, en allir aðrir hlógu og skemmtu
sér vel. Eg fór í berjamó með nokkrum krökkum, það var
í fyrsta skipti, sem ég tíndi ber.
Stóru krakkarnir vildu ekki hafa okkur minni krakkana á
sömu þúfu, svo að við urðum að finna berjastaði sjálf.
Efitr svolitla stund fann ég skínandi góðan stað.
Þar var fullt af berjum og ég byrjaði strax að tína.
Berin þekkti ég ekki, en þau voru stór og svört, og mér leizt
vel á þau.
Eitt fannst mér samt skrýtið.
Þau virtust ekki vera föst á lynginu, en ég fann fljótlega
skýringu á því.
Auðvitað hafði einhver misst hér niður úr fullri berjafötu.
Eg kenndi í brjósti um þann, sem hafði verið svo óheppinn
að missa niður svona dæmalaust stór og falleg ber.
Eg flýtti mér nú að tína í fötuna mína.
Ég lét engan vita, að ég hefði komizt í mikil ber, því að ég
vissi, að stóru krakkarnir myndu þá undir eins koma þjótandi
og taka frá mér öll berin.
Ég var ótrúlega fljót að fylla fötuna og setti svo lok yfir
berin mín, til þess, að enginn færi að ágirnast þau.
Þegar ég kom heim var mamma önnum kafin í eldhúsinu,
því að það voru komnir gestir.
„Mamma, ég er með fulla fötu af berjum,“ kallaði ég í
dyrunum.
„Gott elskan,“ sagði mamma og hamaðist við að þeyta
rjóma.
„Eru berin hrein?“ spurði hún, en gaf sér ekki tíma til að
líta á þau.
„Já, já, ekki eitt einasta lauf eða smágrein með,“ svaraði ég,
og það var satt.
„Viltu gefa gestunum að smakka?“
„Já, já,“ sagði ég.
„Ég skal' láta berin í skál og bera þau inn á borð.“
„Þú ert góð,“ sagði mamma og lauk við að þeyta rjómann.
Ég fann fallega skál inni í skáp, hvolfdi berjunum i hana og
skálmaði svo með allt saman inn í stófu.
Á hæla mér kom mamma, með rjóma og sykur.
Þegar ég lagði skálina á borðið, varð ég bæði hrædd og hissa.
Mamma rak upp hljóð, missti rjómaskálina á gólfið, og
gestirnir fóru að skellihlæja.
Loks gat mamma stunið upp: „Elsku barn, farðu undir eins
inn í eldhús með þessi kindaspörð.“
Nú getið þið skilið hvers vegna mér þótti þetta leiðinlegt,
en öllum öðrum gaman.
Ég skrifa ykkur bráðum aftur.
Ykkar vinkona Bogga.
34
P.S. Hér kemur kvæði um mig, undir laginu:
Hún Þyrnirós var bezta barn.
1. Hún Bogga fór í berjamó
berjamó, berjamó,
af berjum fann hún meira en nóg,
meira en nóg.
2. Hún fyllti i snatri fötuna,
fötuna, fötuna,
og flýtti sér heim götuna,
götuna.
3. Þá mamma stóð við matargerð,
matargerð, matargerð,
því margir gestir voru á ferð,
voru á ferð.
4. „En Bogga eru berin hrein,
berin hrein, berin hrein?“
„I berjunum er engin grein,
engin grein.“
5. „Þá, blessuð, settu ber í skál,
ber í skál, ber í skál,
því ber að smakka er gestum mál,
gestum mál.“
6. Nú Bogga gekk til gesta inn,
gesta inn, gesta inn,
svo glöð á svip með rjóða kinn,
7. rjóða kinn.
7. Þá æpti fólkið allt í kór,
allt í kór, allt í kór,
svo allt í handa-skolum fór,
-skolum fór.
8. Þar komin voru kindaspörð,
kindaspörð, kindaspörð,
svo keimlík berjum, svört og hörð,
svört og hörð.