Læknablaðið - 15.05.2010, Blaðsíða 7
RITSTJÓRNARGREINAR
Ástríður
Stefánsdóttir
astef@hi.is
Höfundur er læknir og M.A. í
heimspeki. Dósent í siðfræði
við menntavísindasvið Hl.
What 1 must do;
some thoughts
regarding the
Report of the
Special Investigation
Commission
Ástríður Stefánsdóttir
MD, MA, Associate
professor, University
of lceland
Það sem að mér snýr;
um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis
Útgáfa skýrslu rartnsóknarnefndar Alþingis um
aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna
2008 markar tímamót hér á landi. Tímamótin
eru að hluta fólgin í því að Alþingi ákvað að
láta ekki nægja að greina atburðarásina út frá
sjónarmiði efnahagsstjórnunar og laga, heldur
tók ákvörðun um að verkefnið skyldi skoðað í
víðara samhengi. Með þetta að leiðarljósi var
meðal annars skipaður sérstakur starfshópur
til að kanna hvort skýringa á falli bankanna
og tengdum efnahagsáföllum mætti rekja til
starfshátta og siðferðis. Þessi víða nálgun ber vott
um ánægjulega hugarfarsbreytingu. Hún gefur
færi á að ræða ýmislegt í hugsunarhætti okkar,
samskiptum og menningu sem er gagnrýnivert
þótt það teljist ekki vera í bága við lög. Okkur
gefst einnig færi á að skoða verk okkar í samhengi,
spyrja um tilgang þeirra og hvers vegna þau
skipti máli. Og við þurfum að svara því fyrir hvað
við viljum standa sem einstaklingar, fagstétt og
samfélag.
í kynningu á niðurstöðum vinnuhóps sem
fjallaði um siðferði og starfshætti við fall íslensku
bankanna kemur fram að eitt af því sem varð
okkur að falli er virðingarleysi okkar fyrir lögum
og reglum. Þetta virðingarleysi var ekki einungis
ríkjandi innan bankanna heldur virðist það vera
hluti af þjóðarsálinni. I niðurlagi skýrslunnar
segir:
... vandirm er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur.
Skýrsla vinnuhóps um siðferði og starfshætti sýnir
í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu
á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt
margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um
ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með
viðeigandi hætti, er varasamt að einblína á þá. Frá
siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast
að treysta lýðraéðislega innviði samfélagsins og styrkja
stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og
vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja
þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna
um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf
áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn
sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju.
Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum að beinast
að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni
sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum sam-
félagsins.
Þessi orð minna á óþægilegan en óumflýjanlegan
sannleika. Skýrslan fjallar um ábyrgð og afglöp
nafngreindra manna, helstu gerenda efnahags- og
stjórnmála en hún fjallar einnig um mig og þig.
Við drögum ekki réttan lærdóm af skýrslunni
ef við lesum hana alfarið sem áfellisdóm yfir
öðrum. Við erum, hvert og eitt, umfjöllunarefni
þessarar skýrslu og við eigum að nota hana til að
endurskoða gildismat okkar og breytni.
Við sem störfum að heilbrigðismálum á
Islandi eigum að taka þungbærar niðurstöður
nefndarinnar af alvöru - fyrst og fremst með því
að líta í eigin barm, og með því að tala hispurslaust
um það sem við gerum sjálf til að grafa undan
gæðum heilbrigðisþjónustu í landinu. Starfsemi
og stjórn heilbrigðisstofnana og menntastofnana
á íslandi hefur alltof lengi og í of miklum mæli
einkennst af klíkuskap og meðalmennsku. Virð-
ing okkar fyrir formlegum stjórnunarháttum,
viðurkenndum gæðamælikvörðum og rökstuddri
ákvarðanatöku þar sem ábyrgð og vald er skýrt,
er skammarlega lítil. Alltof oft sættum við okkur
við tilviljunarkenndar ákvarðanir sem eru illa
rökstuddar. Alltof oft látum við viðgangast að
hæfasta fagfólkið sé sniðgengið vegna þess að
stjórnendur telja það ekki nægilega leiðitamt
eða hliðhollt sér. Alltof oft höfum við upplifað
að ekki sé liðið að talað sé opinskátt um hlutina.
Við höfum sætt okkur við að gagnrýnisraddir
hafi verið þaggaðar niður í stað þess að taka þær
alvarlega. Þeir sem bent hafa á galla á því kerfi
sem við vinnum í hafa jafnvel verið sniðgengnir í
starfi og látnir víkja. Með því að láta slíkt óátalið
sýnum við í raun að við látum okkur lýðræði,
réttlæti og velferð samfélags okkar litlu skipta. Nú
er tækifærið til að rísa upp gegn þessum draugum
sem ásótt hafa okkur alltof lengi. Við eigum
kröfu á að vald og ábyrgð séu vel skilgreind.
Skipurit séu virt, gæðamælikvarðar notaðir og
eftirlit með góðum starfsháttum sé til staðar.
Akvarðanir eiga að vera gegnsæjar og ljóst hver
beri ábyrgð á þeim. Þær eiga að vera rökstuddar
og skiljanlegar. Mælikvarðar þurfa að vera fag-
legir og réttlátir og byggjast á því sem er öllum
til góðs. Hvert og eitt okkar á rétt á og ber skylda
til að gagnrýna óréttmæt vinnubrögð. Fúsk og
klíkuskapur eiga hvergi að þrífast í skjóli leyndar
eða kunningsskapar.
Því miður virðist okkur stundum skorta skiln-
ing á því að heilbrigðis- og menntastofnanir eigi
að þjóna samfélaginu. Þeir sem þar starfa eiga ekki
fyrst og fremst að þjóna eigin þörfum, þeir eru í
starfi til að þjóna þeim sem þangað leita og þeir
bera samfélagslega ábyrgð. Látum þann sannleika
sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis birtir
verða okkur að nauðsynlegum lærdómi og að
eindreginni hvatningu til að verða betri.
LÆKNAblaðið 2010/96 319