Læknablaðið - 15.12.2012, Síða 48
UMFJOLLUN O G GREINAR
Líf og dauði í
Bandaríkjunum
og á íslandi
Ritstjóri Læknablaðsins bað mig að skrifa um
mismunandi viðhorf Bandaríkjamanna og
Islendinga til lífs og dauða. Ég verð að við-
urkenna að mér vafðist tunga um tönn eða
fingur um mús. Síðan fyrtist ég og spurði
af hverju í ósköpunum krabbameinslæknar
væru alltaf tengdir dauðanum. Yfirvegaður
geðlæknirinn mátti grípa til bráðrar atferl-
ismiðaðrar hegðunarmeðferðar til að róa
mig, en benti jafnframt á að greinar í Lækna-
blaðinu væru nokkuð örugg leið til frama og
frægðar. Ég hjólaði heim argur en með ný-
vakta metorðagirnd gegnum dimma nóttina
þann vindasama föstudag þegar þakplötur
fuku á tónelskandi gesti Iceland Airwaves.
Kominn heim, saltbarinn og sveittur, eftir
að hafa þrætt einstigi milli lífs og dauða,
beið mín endurvakinn Hemmi Gunn í sjón-
varpinu. Lífið sveigði framhjá dauðanum
og á skjánum birtist upprisan holdi klædd.
Þá ákvað ég að slá til. Þið getið því þakkað
Hemma og storminum þennan pistil.
Það er fátt í lífinu sem hægt er að ganga
að eins vísu og því að við munum öll
deyja. Þetta er nokkuð óþægileg vitneskja
sem við reynum líklega flest að spá ekki
of mikið í. Við lifum lífinu og forðumst
oftast dauðann, enda lífsþráin sterk. Margir
sjúkdómar eru ólæknandi og sumir leiða til
dauða innan fyrirsjáanlegs tíma. Þetta á við
mörg krabbamein, þó að framfarir síðustu
ára hafi breytt þessari mynd mikið. Við lok
lífs vakna tilfinningar í brjósti þess dauð-
vona og hans ástvina. Þessi viðbrögð geta
verið mjög mismunandi og mótast af marg-
víslegum þáttum, svo sem menningarlegum
bakgrunni, fjölskyldu, stöðu í samfélaginu,
menntun og lífsreynslu.
Ég starfaði í 9 ár í Seattle í Washington-
fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Þetta er
frjálslynt samfélag sem birtist meðal annars
í því að notkun kannabisefna er leyfð og
hjónabönd samkynhneigðra eru lögleg.
Varðandi lok lífs þá er það markvert að
læknum er leyft að aðstoða sjúklinga til þess
að fremja sjálfsvíg ef þeir uppfylla ströng
skilyrði laganna. Allt þetta var lögleitt eftir
almennar atkvæðagreiðslur í Washington-
fylki. Eins og Bandaríkin í heild er svæðið
suðupottur menningarheima og ein birting-
armynd frjálslyndisins er umburðarlyndi
gagnvart ólíkum menningarhópum og lögð
er áhersla á að virða ólíka siði og venjur. Því
er það að ólík viðbrögð við dauðanum koma
mjög vel fram og heilbrigðisstarfsmenn, líkt
og aðrir, viðurkenna þau.
En er þetta öðruvísi á íslandi? Við erum
frekar umburðarlynd og hið tiltölulega
menningarlega einsleita samfélag er að
breytast. Fólk bregst hér á mismunandi hátt
við dauðanum og eru þau viðbrögð álíka
fjölbreytt og ég kynntist í Bandaríkjunum.
Þó viðbrögðin séu háð margvíslegum
þáttum skín alltaf í gegn viljinn til að lifa,
ótti þess dauðvona við hvað verður um
ástvinina og söknuður ástvina eftir þeim
dauðvona. Mismunandi bakgrunnur getur
vissulega mótað þær aðferðir sem fólk beitir
Gunnar Bjarni
Ragnarsson
er krabbameinslæknir
á Landspítala
gunnarbr@landspitali.is
til að takast á við dauðann eða missinn, en
þær ber allar að sama brunni, að sá dauð-
vona og ástvinirnir sætti sig við það sem
ekki verður breytt til þess að hann geti kvatt
sáttur og þeir haldið áfram að lifa. Nálgun
mín við hinn dauðvona er því mjög lík á
Islandi og í Bandaríkjunum. Það sem helst
er ólíkt er að nándin hér er mun meiri og
helgast fyrst og fremst af smæð samfélags-
ins miðað við stórborgina Seattle. Það hefur
í för með sér að félagslegt net sjúklingsins er
yfirleitt þéttriðnara á Islandi. Smæðin gerir
það líka að verkum að ég sem læknir hverf
ekki í fjöldann þegar vinnutíma lýkur. Ég
má eiga von á að aðstandandi hafi aðgang
að mér í mínum frítíma þegar ég á síst von
á. Þessu má líka búast við í álíka smáum
samfélögum í Bandaríkjunum og ég myndi
líklega upplifa þetta enn sterkar ef ég starf-
aði utan Reykjavíkursvæðisins. Dauði sjúk-
linga mótar því frekar líf mitt utan vinnu-
tíma á Islandi en að nokkur raunverulegur
munur sé á viðbrögðum Bandaríkjamanna
og Islendinga við dauðanum.
Að þessum orðum sögðum vil ég nota
tækifærið til að hvetja alla til að nota jólahá-
tíðina til að styrkja tengslin við ástvinina og
fagna því að þrátt fyrir fjölbreytileika lífsins
erum við innst inni öll eins, sem kemur
hvað berlegast í Ijós þegar okkar hinsta
stund rennur upp. Gleðileg jól, farsælt
komandi ár og takk fyrir hið liðna.
Er ráðstefna framundan?
Alhliða skipulagning ráðstefna og funda
Engjateigur 5 1105 Reykjavík | 585-3900 | congress@congress.is | mmm.congress.is
REYKJAVIK
676 LÆKNAblaðið 2012/98