Þjóðlíf - 01.05.1988, Blaðsíða 29
ERLENT
Svíþjóð
Græningjar gera usla
Hér í Svíþjóð er nú runninn út framboðs-
frestur til þeirra kosninga er fram eiga að
fara í haust. Sextán flokkar og samtök hafa
tilkynnt um áhuga á að öðlast sæti á sænska
þinginu. Það eru því margir kallaðir en að
öllum líkindum verða hinir útvöldu allmiklu
færri. Ljóst er þó að Græningjar setja nú og
munu eiga eftir að setja mark sitt á sænsk
stjórmál.
Undanfarið kjörtímabil hafa 5 flokkar átt
sæti á þinginu. þrír borgaralegir og tveir sós-
íalískir og verða sjálfsagt ekki stórar breyt-
ingar þar á. Raunar hefur enn einn borgara-
flokkur átt þingfulltrúa þar sem að Kristna
lýðræðiseiningin (Kristen Demokratisk Sam-
ling, KDS) kom formanni sínum á þing með
tæknilegu kosningasamkrulli við Miðflokk-
inn (Centern). Var þessi samvinna harðlega
gagnrýnd af öðrum flokkum enda ljóslega
tilraun til að sniðganga ákvæði stjórnarskrár-
innar um 4% inngönguþröskuld. Reið hvor-
ugur flokkurinn feitum hesti frá þessari sam-
vinnu í síðustu kosningum og verður leikur-
inn ekki endurtekinn í haust. Virðist því Ijóst
að KDS hverfur af þingi því af eigin ramm-
leik fara þeir ekki inn ef marka má kannanir.
Um tvo flokka aðra er vafasamt hvort
þingmenn fáist. Annars vegar er þar um að
ræða kommúnistaflokkinn (VPK) sem átt
hefur við mikla innri erfiðleika að stríða og
hefur í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun
verið alveg við 4% mörkin, ýmist undir eða
yfir. En hafa ber í huga að flokkurinn hefur
áður iðkað þennan línudans og komist heill
frá. Stafar það m.a. af því að ef ljóst er rétt
fyrir kosningar að hætta er á ferðum. hlaupa
ætíð þó nokkrir sósíaldemókratar undir
bagga og kjósa VPK til að tryggja sósíalískan
meirihluta á þingi. Hefur þessi hegðan að
minnsta kosti tvisvar fleytt flokknum inn á
þing. Trúlegast er því að VPK verði enn um
sinn með fulltrúa á þingi.
Hinn flokkurinn sem sérstaka athygli vek-
ur eru sænsku græningjarnir (Miljöpartiet de
gröna) en þeir eru hluti alþjóðlegrar hreyf-
ingar umhverfisverndarsinna. Nú þegar eiga
græningjar fulltrúa á þingum átta vestur-
evrópskra landa, Vestur-Þýskalands, Aust-
urríkis, Belgíu, Sviss, Finnlands, Portúgal,
Ítalíu og Luxemborgar. Og nú virðist svo
sem Svíþjóð verði níunda landið með græna
þingmenn.
Kannanir í haust og vetur spáðu sænska
græningjaflokknum allt að 10% atkvæða.
Síðan hefur heldur hallað undan fæti en þó
virðist flokkurinn enn nokkuð öruggur um
að komast á þing. Síðustu kannanir benda til
Eva Goes málpípa Græningja þykir orð-
hvöt í meira lagi.
um 6.5% fylgis. Yrðu það óneitanlega mikil
tíðindi ef Miljöflokknum tækist þetta því sex
flokkar hafa ekki átt sæti á sænska þinginu
síðan á öðrum tug þessarar aldar ef undan er
skilið KDS-ævintýrið. Tíðindi yrðu þetta
líka af annarri ástæðu. Flokkurinn neitar
staðfastlega að taka þátt í þeirri fylkinga-
pólitík sem í svo ríkum mæli einkennir sænsk
stjórnmál. Flokkurinn vill hvorki fallast á að
hann sé borgaralegur né sósíalískur og býður
stuðning sinn (eða hlutleysi) þeim sem best
uppfyllir kröfulista þeirra sem eðlilega snýst
mest um umhverfismál.
Um síðustu páska hélt flokkurinn ráð-
stefnu í Uppsölum til að leggja línuna fyrir
kosningarnar og negla saman stefnuskrá.
Ráðstefnan vakti allmik'la athygli fjölmiðla
en óvíst er að sú athygli verði flokknum til
framdráttar í komandi kosningum. Lang-
flestir fjölmiðla hafa lagt höfuðáherslu á þær
hliðar flokksins er öfgasinnaðar þykja sem
og þá þætti stefnuskrárinnar er líklegt er að
þyki hlægilegir. Þannig var mikið veður gert
út af þeim ummælum Evu Goes að nauðsyn-
legt geti verið að brjóta lög þegar þau lög
ógna lífi. Þótti ljóslega mikið til þess koma
að manneskja er vildi setjast í löggjafarsam-
kundu sænskra hvetti til lögbrota. Eva þessi
(sem raunar má ýmislegt um líf vita, verandi
sex barna móðir) er önnur af málpípum
(sprákrör) græningja en svo nefna þeir þá tvo
einstaklinga (karl og konu) er því hlutverki
gegna að koma fram fyrir flokksins hönd t.d.
í fjölmiðlum. Formann í venjulegum skiln-
ingi hafa þeir engan.
Þá er einnig fullljóst eftir þetta þing að
innan flokks græningja eru miklar mótsetn-
ingar sem ákaflega erfitt kann að reynast að
brúa. Þannig virðist svo sem allstór hópur
flokksmanna sjái enga ástæðu til að fagna því
fari svo að flokkurinn komist á þing. Að
þeirra mati er sérhvert samkrull við valda-
stofnanir samfélagsins hættulegt hreinleika
flokks og flokksmanna. Því beri að hafna
algjörlega þingræðisleiðinni og einbeita sér
að beinum aðgerðum. Mjög var þessi hópur
þó í minnihluta á páskaráðstefnunni en eng-
inn vafi leikur á að aðrir flokkar munu not-
færa sér það í kosningabaráttunni að innan
flokks græningja sé hópur hreinræktaðra
stjórnleysingja.
Raunar hefur það þegar sýnt sig að tvenns
konar baráttuaðferðum verður beitt gegn
græningjum í kosningabaráttunni. Annars
vegar verða þeir sakaðir um ábyrgðarleysi,
þekkingarskort og óraunsæi. Hins vegar
verða kjósendur varaðir við að kalla yfir sig
það stjórnleysi er fylgja kynni í kjölfarið ef á
þing settist fólk sem óvíst væri hvar ætti
heima á hinum hefðbundna vinstri/hægri
kvarða stjórnmálanna. Hið fyrra er þraut-
reynt ráð og hefur oft gefið góða raun. Þó
mun það sjálfsagt nokkuð fara eftir því
hversu mörg og stór mengunarslys verða ljós
fyrir kosningar og hvort fólk tekur mark á
tali um óraunsæi umhverfisverndarsinna.
Segja má að græningjar hafi þegar unnið
hálfan sigur í og með að allir flokkar leggja
nú mun meiri áherslu en áður á að sýna sig
sem hlynntasta umhverfisvernd. Sérhver
stóru flokkanna hefur lagt fram sérstaka
stefnuskrá í umhverfismálum. Meira að
segja virðist sá flokkur er hér er lengst til
hægri, Moderata Samlingsparti, reiðubúinn
til að leggja einhver bönd á hinn frjálsa
markað í þessu skyni. Hefur flokkurinn þó
hingað til talið flest eða öll mannleg vanda-
mál leysanleg með óbeisluðum markaðsöfl-
um.
Og í því ég skrifa þennan pistil dettur inn
um bréfalúguna áróðursbæklingur frá sós-
íaldemókrötum með þeirra nýja slagorði.
„Hin rauða framtíð okkar er græn“. Svo
jafnvel þó svo fari að sænskir græningjar
komist ekki á þing í haust geta þeir glaðst yfir
að tilvist þeirra hefur ýtt við hinum eldri
flokkum og gert þeim ljóst að stór hópur
kjósenda er reiðubúinn til að líta svo á að
umhverfisvernd sé mikilvægasta mál kosn-
inga, ekki aðeins í haust, heldur um langa
framtíð.
Lundi 30. apríl 1988/lngólfur V.
Gíslason
29