Þjóðlíf - 01.04.1989, Page 14

Þjóðlíf - 01.04.1989, Page 14
INNLENT Bragi Steinarsson, vararíkissaksóknari: Ritsóðar og ærumorðingjar vaða uppi Það verður að stöðva þá —Ritsóðar og ærumorðingjar hafa vaðið uppi óátalið um nokkurra ára skeið og ég held að það sé full ástæða til að spyrna við þessari þróun, segir Bragi Steinarsson vara- ríkissaksóknari og kveður Rithöfundasam- bandið og Blaðamannafélagið á villigötum með gagnrýni á skerðingu ritfrelsins með þessari ákæru. Bragi telur að um stéttarfé- lagshagsmuni sé að ræða hjá þeim, svipað og hjá Iögreglumönnun þegar einhver lögreglu- maður er ákærður. Mörgum þykir þetta mál óvenjulegt þar sem ákært er á grundvelli þess að vegið sé að opinberum starfsmanni. Ennfremur hafa margir ályktað að þetta sé aðför að ritfrelsi í landinu. Telur þú þessar spurningar eiga rétt á sér? — Það er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við þetta mál. Eftir umboði séra Þóris Stephen- sen og á grundvelli lögreglurannsóknar var gefin út ákæra á hendur Halli Magnússyni fyrir aðdróttanir að séra Þóri sem opinberum starfsmanni. Aðdróttun að opinberum starfsmanni fellur undir 108. grein almennra hegningarlaga. Núgildandi hegningarlög voru sett 1940, en þessi vernd opinberra starfsmanna á rætur að rekja til enn eldri hegningarlaga frá árinu 1869.1 lögunum seg- ir m. a. að hver sá sem hefur í frammi skamm- aryrði, aðrar móðganir í orðum eða æru- meiðandi aðdróttanir við opinberan starfs- mann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu skuli sæta refsingu. Ég get ekki séð að það hafi farið á milli mála þarna. Ég vísa gagnrýni um þetta alfarið á bug. Þetta hlýtur að vera komið frá sakborningnum og verj- anda hans. — Að mínu mati er ekkert undarlegt við það að opinberir starfsmenn skuli njóta ákveðinnar verndar vegna starfa sinna. En þess ber einnig að geta að ábyrgð þeirra fyrir lögunum, brjóti þeir af sér, er meiri en ann- arra. Gerist þeir t.d. sekir um fjárdrátt er refsingin verulega þyngri hjá þeim en hjá öðrum sem gerast sekir um slíkt. í hinu opin- bera starfi skiptir trúnaðurinn mjög miklu máli, og á sama hátt og þeir njóta aukinnar verndar á sumum sviðum þá bera þeir þyngri refsiáb^rgð á öðrum sviðum. — A seinni árum hefur lítið reynt á þessa lagagrein því menn virðast hafa kært meið- andi ummæli í minna mæli en áður, þó þeir verði fyrir árásum í starfi. Fyrir örfáum árum Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari. Vísa gagnrýni alfarið á bug. síðan var hinsvegar um að ræða margar svona ákærur á ári. Eini munurinn er sá að menn elta síður ólar við svona mál. En þó að það hafi orðið eitthvert hlé á því að menn hafi kært á grundvelli þessarar lagagreinar, þá eru lögin engu að síður enn í gildi. Ritsóð- ar og ærumorðingjar hafa vaðið uppi óátalið um nokkurra ára skeið og ég held að það sé full ástæða til að spyrna við þessari þróun. — Það að Blaðamannafélagið og Rithöf- undasambandið skuli hafa verið að álykta um þetta mál og gagnrýnt ákæru ríkissak- sóknara og talið hana aðför að ritfrelsi, því vísa ég alfarið á bug. Ég fæ ekki betur séð en að hér sé einfaldlega um stéttarfélagshags- muni að ræða, á sama hátt og t.d. hjá lög- reglufélaginu þegar félagar úr þeim samtök- um hafa verið ákærðir. — Það hefur engin stefnubreyting átt sér stað hjá embættinu varðandi mál af þessu tagi. Hins vegar hefst ákæruvald ekki handa af sjálfsdáðum. Viðkomandi, hinn særði og meiddi sem fyrir svona atlögu verður, þarf að hafa ákveðið frumkvæði að því að málið sé tekið upp. Og á seinni árum hafa menn einfaldlega ekki gert það með sama hætti og á árum áður. Áttu ekki von á því að í kjölfar þessarar ákæru fari opinberir starfsmenn í víðum skilningi þess hugtaks að leita til ykkar vegna gagnrýnina skrifa um þá? — Ég á einfaldlega ekki von á svona skrif- um. Þetta tekur gjörsamlega út yfir allt. Og skrif Halls verða ekki grundvölluð á ritfrelsi. Þau voru einfaldlega árás á séra Þóri, og eins og segir í ákærunni þá var árásin gerð af illfýsi. Ég man ekki eftir svona rætnum og svívirðilegum greinum á seinni árum. Að Blaðamannafélagið og Rithöfundasam- bandið skuli taka upp hanskann fyrir Hall á stéttarfélagslegum grundvelli vekur furðu mína. Skrif Halls eiga ekkert skylt við rit- frelsi, og það er í engu skert þó hann verði látinn sæta ábyrgð fyrir ummæli sín. Fyrir sakadómi fór verjandi Halls, Ragnar Aðalsteinsson, fram á það að málinu yrði vísað frá, þar sem séra Þórir teldist ekki op- inber starfsmaður í skilningi laganna og þar sem ákæruatriði væru svo óglögg, t.d. þar sem hann segir að greinin komi til með að koma við kaunin á háttsettum frímúrara. Hvert er þitt álit á þessu? — Það er enginn vafi á því að séra Þórir hafi verið, og sé, opinber starfsmaður sem ráðist er á sem slíkan, sem dómkirkjuprest og sem staðarhaldara. Ég vísa því þessari gagnrýni alfarið á bug. Dómarinn hafnaði þessari kröfu verjandans frá, en hinsvegar verður dæmt um þetta á síðari stigum við efnislega meðferð málsins. — V arðandi síðara atriðið þá er þarna um að ræða móðgun á séra Þóri sem frímúrara. í þessu felast dylgjur, —það er verið að lítil- lækka eða draga dár að honum af því að hann er frímúrari. Sá sem skrifar greinina hefur greinilega einhverja ímugust á frímúrurum, og heldur sjálfsagt að þeir verji á einn eða annan hátt hvern annan. Þetta er svona að minnsta kosti blanda af aðdróttun og móðg- un, fyrir það eitt að vera frímúrari. — Meginmálið í hér er stjórnarskrárá- kvæðið sem kveður á um prentfrelsi. í 72. grein stjórnarskrárinnar er skýrt kveðið á um að engar hömlur á ritfrelsi megi í lög leiða. En í þessu sama stjórnarskrárákvæði er prentfrelsið háð þeim takmörkunum að hver maður verði að ábyrgjast skrif sín fyrir dómi, sagði Bragi Steinarsson, vararíkissaksóknari að lokum. Kristján Ari. 14

x

Þjóðlíf

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðlíf
https://timarit.is/publication/1099

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.