Frjáls verslun - 01.10.2008, Blaðsíða 36
F R J Á L S V E R S L U N • 1 0 . T B L . 2 0 0 8 37
Dr. Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni hf., er sérlega yfirvegaður, brosmildur og kemur vel fyrir. ORF er fyrirtæki á sviði erfðatækni og á því rætur í háskóla-samfélaginu. Það framleiðir sérvirk prótein í byggi með
aðstoð erfðatækni í tvöþúsund fermetra gróðurhúsi við Grindavík;
hús sem fer ekki framhjá neinum. ORF er í miklum vexti og reiknað
er með að á næsta ári verði fyrirtækið farið að selja framleiðslu sína
um alla heim. En hver er þessi Björn Örvar, sem hefur verið talsvert
í fjölmiðlum að undanförnu, og er í forsvari fyrir þetta spennandi
fyrirtæki?
Hann er Kópavogsbúi í húð og hár. Ólst upp í Hvömmunum
í Kópavogi, en fæddist raunar í Hafnarfirði, á fæðingardeildinni
í Hafnarfirði, 30. ágúst 1959. Foreldrar hans eru Björn K. Örvar
úrsmiður, sem er nýlátinn, og Hanna Marta Vigfúsdóttir skrif-
stofumaður. Hann er yngstur þriggja systkina, Björg Örvar myndlist-
arkona er elst, en næstur í röðinni er Kjartan B. Örvar læknir.
„Ég ólst upp í Lindarhvammi sem er í austurbænum í Kópavogi
og var á þeim tíma nýtt hverfi með nýjum húsum en innan um voru
eldri frumbyggjar og mikið um húsgrunna og stutt í náttúruna. Það
var mikið af krökkum í hverfinu og mjög gaman að alast þar upp
og við vorum stolt af því að búa í Kópavoginum. Við lékum okkur
þar sem nú er íþróttasvæði Kópavogs og við Kópavogslækinn sem
við kölluðum Skítalækinn og svo náttúrlega niðri í fjöru og í sand-
gryfjunum í Fífuhvammslandinu. Kópavogur var á þessum tíma
sérkennileg blanda af nýjum húsum og hálfgerðum sumarbústöðum.
Í sumarbústöðunum bjó fólk sem flutti í þá í kringum seinni heims-
styrjöldina af því að það fékk ekki húsnæði annars staðar og í flestum
tilfellum voru þetta ekki merkileg húsakynni,“ segir Björn.
Átta ár í Keflavík
Björn gekk í skóla í Kópavogi þar til hann lauk stúdentsprófi, fyrst
í barnaskóla síðan Víghólaskóla og að lokum í menntaskólann.
„Menntaskólinn í Kópavogi var afskaplega lítill á þeim tíma og það
einkenndi félagslífið. Þar þekktu allir alla með nafni og andinn var
mjög góður. Skólinn var líka í mótun og mjög skemmtilegur tími
að vera í honum. Ég útskrifaðist úr náttúrufræðideild enda hafði
ég haft áhuga á líffræði frá því í gagnfræðaskóla. Á sumrin vann ég
svo í byggingavinnu, oftast sem handlangari hjá múrara og get því
alveg tekið múrverk að mér ef svo ber undir. Síðan fór ég í líffræði í
Háskóla Íslands og tók eitt ár í kennslufræði og fór eftir það að kenna
við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og var þar í átta ár.“
Maki Björns er Unnur Þorsteinsdóttir, forstöðumaður erfðagrein-
ingar hjá DeCode og þau eiga einn son, Þorstein Björnsson, sem er
fæddur 29. janúar 1989 og er því nítján ára. Unnur og Björn fluttu
til Keflavíkur og fóru bæði að kenna við fjölbrautaskólann og skiptu
á milli sín náttúrufræðikennslu við skólann. „Við ákváðum strax að
flytja til Keflavíkur eftir að við tókum að okkur kennsluna því að við
vildum ekki keyra á milli. Tíminn í Keflavík var frábær en eftir átta
ár langaði okkur að breyta til og fara í framhaldsnám.“
Doktorsnám í Kanada
„Árið 1991 fengum við ársleyfi, til að byrja með, til að fara í fram-
haldsnám til Vancouver í Kanada og ætluðum að athuga hvernig
okkur líkaði. Síðan leist okkur svo vel á landið að við ákváðum að
vera lengur og fara bæði í doktorsnám. Námsfyrirkomulagið í Uni-
versity of British Columbia sem við sóttum var þannig að ef maður
náði ákveðinni einkunn og stóðst væntingar gat maður sleppt meist-
aranámi og farið beint í doktorsnám og þar sem okkur gekk báðum
vel gerðum við það. Við vorum sex ár í Vancouver og önnur þrjú ár
í Montreal eftir að við kláruðum námið. Kanada er í mínum huga
stórkostlegt land og mjög gott að búa þar, enda er þar það besta frá
Skandinavíu og Bandaríkjum Norður-Ameríku.“
Doktorsverkefni Björns fjallaði um boðskipti í plöntum við
stressandi oxunarálag og hvernig er hægt að nota erfðatækni til að
hafa áhrif á þessi boðskipti. „Ég hafði mikinn áhuga á möguleikum
erfðatækninnar og sá fyrir mér mikla möguleika á því sviði hjá
plöntum. Doktorsverkefni Unnar fjallaði aftur á móti um stjórnun
og sérhæfingu blóðstofnfruma með sérstakri áherslu á svokölluð
Hox-stýrigen.“
Snúið heim
Árið 2000 snúa Björn og Unnur aftur heim til Íslands. „Satt best að
segja vorum við ekkert á þeim buxunum að koma heim og okkur stóð
báðum til boða starf í Kanada. Málið æxluðust þó þannig að ég var
að tala við kollega minn í Svíþjóð, sem heitir Einar Mäntylä, um að
gaman væri að prófa hvort væri hægt að gera eitthvað á Íslandi með
plöntuerfðatækni. Við höfðum verið í samskiptum lengi, hugsuðum á
sömu nótum, og ákváðum því að láta á reyna. Úr varð að ég sótti um
heimkomustyrk frá RANNÍS með ákveðið plöntuerfðatæknilegt verk-
efni sem gekk út á það að nota plöntur til að framleiða sérvirk prótein
fyrir lyf og fleira. Ég fékk styrkinn og við komum heim í framhaldi af
því. Ég var ráðinn til Iðntæknistofnunar til að sinna verkefninu í sam-
vinnu við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins. Eftir nokkra mánaða
starf hjá Iðntæknistofnum var ákveðið að stofna fyrirtæki í kringum
verkefnið og það er í dag ORF Líftækni hf.,“ segir Björn.
ORF Líftækni hf. stofnað
Björn stofnaði ORF Líftækni hf. ásamt Einari Mäntylä og Júlíusi
B. Kristinssyni í lok árs 2000. Nafn fyrirtækisins, ORF, hefur vísun
í rammíslenskan uppruna fyrirtækisins og uppskerutengt amboð,
orfið, sem var lykiltæki í landbúnaði til forna. ORF hefur ekki síður
tengingu við erfðavísindin á alþjóðavísu. ORF er stytting á Open
Reading Frame sem er heiti á opinni lesröð í geninu en það er sá hluti
gensins sem þýddur er yfir í prótein. Heiti fyrirtækisins vísar því í
senn til uppskeru, gena og próteina.
„Væntingar okkar til verkefnisins voru miklar og við lögðum mikla
vinnu í að fá fjármagn frá bæði iðnaðar- og landbúnaðarráðuneyti en
það gekk því miður ekki eftir. Í framhaldi af því vorum við hvattir
til að stofna fyrirtæki í kringum verkefnið til að reyna að fá einka-
aðila til að fjármagna það. ORF var formlega stofnað um áramótin
D R . B j ö R n ö R v a R Í n æ R m y n D