Ægir - 01.03.2007, Blaðsíða 14
14
Slippurinn á Akureyri hefur nú
verið starfræktur í um hálft
annað ár eftir að Slippstöðin
var endurreist undir nýju nafni
og segir Anton Benjamínsson,
framkvæmdastjóri Slippsins,
að reksturinn hafi verið nokk-
uð í takt við þær áætlanir sem
hafi verið lagt upp með.
Til að byrja með voru um
40 starfsmenn hjá Slippnum,
en þeim fjölgaði fljótt og hafa
á síðustu misserum og mán-
uðum verið um 80 og reiknar
Anton með svipuðum fjölda
starfsmanna áfram.
Sem fyrr eru hefðbundin
viðhaldsverkefni skipa og
báta stærsti þátturinn í starf-
semi Slippsins, sem í eðli sínu
er afar sveiflukenndur bransi.
Oft er gríðarlega mikið að
gera, en síðan geta komið
steindauðir mánuðir inn á
milli. Nóvember sl. var t.d.
óvenju daufur, sem helgaðist
af því að tvö stór viðhalds-
verkefni, sem var þá búið að
fastbóka, duttu upp fyrir með
stuttum fyrirvara.
Mikilvægi „landverkefna“
Í janúar sl. var Slippurinn
með grænlenskan rækjutog-
ara í stóru viðhaldsverkefni
og síðan tók við viðhalds-
verkefni í einum þriggja tog-
ara frá Kalíngrad í Rússlandi,
sem lágu nokkrar vikur við
festar á Akureyri. Anton segir
að öll slík verkefni telji, mik-
ilvægt sé fyrir Slippinn að fá
erlend verkefni til viðbótar
við verkefni hér innanlands.
Til viðbótar við hin hefð-
bundnu viðhalds- og end-
urbótaverkefni í skipum og
bátum hefur Slippurinn tekið
að sér landverkefni í auknum
mæli. Þar bera hæst verkefni
fyrir Bechtel, verktakann, sem
byggir álver Fjarðaáls á Reyð-
arfirði. Starfsmenn Slippsins
hafa þá forsmíðað ýmsa hluti
fyrir álverið á Akureyri, sem
síðan hafa verið fluttir austur.
Til marks um umfang verk-
efna fyrir Bechtel má nefna
að fyrirtækið var þriðji stærsti
viðskiptavinur Slippsins á síð-
asta ári. Anton segir að á
þessu ári hægi á verkefnum
fyrir Bechtel, enda sé farið að
sjá fyrir endann á byggingu
álversins, en ljóst sé að afar
mikilvægt sé fyrir Slippinn að
geta fengið slík verkefni til
hliðar við hefðbundnar slipp-
tökur.
Undir lok mars var stærsta
viðhaldsverkefni í Slippnum
slipptaka á fjölveiðiskipinu
Hákoni ÞH. Með hækkandi
sól og hlýnandi veðri breytast
eilítið þau slippverkefni sem
ráðist er í, þá eykst t.d. máln-
ingarvinnan töluvert.
Helmingshlutur í DNG og
Seiglu
Eins og fram hefur komið á
Slippurinn nú um helmings-
hlut í annars vegar DNG og
hins vegar tæplega helming í
Seiglu. Anton segir að enginn
vafi sé á því að þessi fyrirtæki
styrki hvert annað, enda sé
starfsemi þeirra nátengd.
DNG var lengi með starfsemi
sína á Lónsbakka, en hefur
nú flutt starfsemina í hús
Slippsins og þar starfa átta
manns. Framleiðslan er fjöl-
þætt, sem fyrr framleiðir DNG
sínar þekktu færavindur og
raunar hafa þær verið að
sækja í sig veðrið að und-
anförnu. Eins og kemur fram
annars staðar í blaðinu er
Seigla nú flutt með starfsemi
sína norður yfir heiðar í nýtt
húsnæði á athafnasvæði
Slippsins.
S K I P A S M Í Ð I
Mörg járn í eldinum í Slippnum
Hákon ÞH í flotkví Slippsins á Akureyri.
Anton Benjamínsson, framkvæmdastjóri Slippsins.