Tímarit Máls og menningar - 01.09.1944, Page 48
142
TIMARIT MALS OG MENNINGAR
hver um sig hefur að jafnaði inni að halda hundruð þúsunda af
stjörnum. Stjarnþyrpingar þessar eru hér um bil sjötíu að tölu.
Loks eru stjörnur þær, sem sýnast í fljótu bragði vera einar síns
liðs, þó að nánari athugun leiði raunar í ljós, að þær skipast einnig
oft og tíðum í hópa og verða þannig samferða á leið sinni um geim-
inn. Yfirleitt gæti svo virzt sem vetrarbrautin, að frátöldum eim-
þokunum, væri ekki annað en safn stjarnþyrpinga, sem sumar eru
að vísu ákaflega stórar og mjög lausar í böndunum, en aðrar þétt-
ari í sér og fastmótaðri.
Oft er það, að þar sem stjarna virðist standa stök á himni, reyn-
ast við nánari athugun vera tvær, þrjár eða jafnvel fleiri stjörnur
mjög nátengdar. Þetta nefnast tvístirni, þrístirni o. s. frv. Mönnum
hefur talizt svo til, að tvístirni muni eigi vera öllu færri í geimnum
en einstirni. Sé þetta rétt, hafa likurnar til þess, að sólin yrði ein-
stirni, og hins, að hún kæmi fram sem tvístirni, verið nákvæmlega
jafnmiklar, áður en hún mótaðist úr frumþoku sinni einhverntíma
í fyrndinni.
Þó að sólstjörnurnar séu yfirleitt nokkuð svipaðar að þyngd, eru
þær mjög tilbreytilegar að Ijósmagni, lit, hitastigi, stærð og ýmsum
öðrum eiginleikum.
Plánetur eða reikistjörnur eru næsti flokkur þeirra hluta, er sjást
á himni. Því miður er engin fjarsjá svo öflug, að unnt sé að greina
í henni plánetur utan sólkerfis vors.
Þar eð plánetur sólarinnar eru hinar einu, sem vér þekkjum til,
vitum vér að ýmsu leyti minna um þennan flokk himintungla en
aðra, þó að vitneskja vor um hann sé liins vegar fullkomnari í sum-
um greinum. Vér höfum engin tök á. að auka við þekkingu vora
með samanburði á plánetum vorrar sólar og annarra sólstjarna.
En vegna þess, hve heimaplánetur vorar eru nálægar, er þekking
vor á þeim um margt tiltölulega nákvæm og ítarleg.
Pláneturnar reika kringum sólina allar í sömu stefnu og því nær
í sama fleti. Þessi og ýmis annar regluleiki bendir til þess, að þær
hafi allar myndazt á svipaðan hátt og um sama leyti.
Pláneturnar eru níu að tölu. Næst sólu er Merkúríus, þá Venus
og þriðja jörðin. Næst fyrir utan jörðina er Marz, þá Júpíter, þá
Satúrnus, þá Úranus, þá Neptúnus og loks Plútó.