Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Blaðsíða 106
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
og fsraelsmenn selja þeim svo vopn líklega til að geta drepið þá í nœstu
heimsstyrjöld. Svo ætla þeir að drepa þennan Æmann fyrir að hafa drepið þá.
Svona er þetta flókið eins og á Sturlungaöldinni. Við höfum Kanann til að
verja okkur gegn Rússum og síðan selja Rússar okkur olíu til þess við getum
selt hana Kananum til að verja okkur gegn Rússum. Allt er þetta hagfræði frá
rótum. Þess vegna segi ég: Stjórnmál eru það flókin að fólk hérna í Víkinni
ætti ekki að koma nálægt þeim, sízt heimspólutíkinni. Og okkur (Hann tekur
nú hraustlega í nefið og réttir baukinn yfir til karlanna.) Eee -ehe! Meðan við
höfum ofan í okkur og einhverjar tuskur utan á skrokkinn, er sama hvaðan
gott kemur. En að strákbjánar hér séu að skipta sér af Vesturveldunum og
heimspólutíkinni yfirleitt er bæði asnalegt og óverjandi á meðan næg vinna
er hér í húsunum og fólk drífandi og áhugasamt við að ná sér í hana. Það er
ekki eins og nýfermdir unglingar séu orðnir einhverjir stjörnuspekingar. Mér
finnst alveg sjálfsagt að skáld og vísindamenn séu gallharðir kommúnistar, —
þetta óprúttna menntafólk. Þannig fólk er og hefur alltaf verið á móti ríkiaudi
stjómarfari. Maður þarf ekki annað en lesa Heimssöguna til að vita það, og
hezt er að leyfa þannig fólki að halda því áfram óáreittu. Þetta fólk er nauð-
synlegt, og án þess verður ekki komizt, en verður alltaf að vera upp á móti öll-
um, — þetta er eitt af þessum mörgu náttúrulögmálum. Og þótt kommúnism-
inn kæmist á, yrði það fljótt að snúa við honum bakinu og finna upp á ein-
hverjum nýjum andskota, — einhverjum golgataisma. Það er hvort sem er
alltaf að kvarta á krossinum. En hér er öðru máli að gegna þar sem alltaf er
næturvinna og vikan gerir gegnumsneytt tvö þúsund krónur. Þið ættuð að
hafa bara átta stundir eins og fólk í Reykjavík og vita þá fyrst hvað pundið er
dýrt í kílóinu, eins og sumir segja.
Ha, ha, ha, ha, ha, ha, ha!!
En öfgar eru manni hvimleiðar, það held ég. Á hinn bóginn er ég ekki að
segja. að öfgafólk sé nokkuð verra en fólk yfirleitt gengur og gerist, en öfgar
eru ljóður á ráði ungs fólks. Mér er sama þótt hraustir hundrað og níutíu
punda strákar tali um stjórnmál, en þeir eiga bara ekki að gera það í vinnu-
tímanum og svo aðrir heyri, slíkt á ekki að líðast. Og mér er sama þótt fólk
fari í verkföll við og við, en það á bara ekki að vera með læti. Þeir sem vilja
verkföll á annað borð eiga að fá verkföll, en þeir sem vilja vinna, eiga líka
að fá að vinna. Og nú er tíminn kominn og bezt að halda í hann, drengir
mínir.
22:00.
376