Tímarit Máls og menningar - 01.12.1969, Blaðsíða 143
Halldór Laxness
Aldur Ðellismanna
Fyrir rúmum tuttugu árum var ég að hugsa um útilegumenn og vitjaði þá
nokkurra staða þar sem þjóðtrú hafði feingið slíkum mönnum bústaði.
Mætti ég, af því lángt er um liðið, minna á að við eftirgrenslan þóttist ég
komast að þeirri niðurstöðu að meðal þeirra manna sem undir áhrifum þjóð-
sagna leituðu óbygða eftir siðaskifti væri Fjallaeyvindur sá einn er haft
hefði erindi sem erfiði. Aðrir sem freistuðu gæfunnar á fjöllum hösuðust
fljótlega upp á útlegumensku, sumir toldu aðeins fáa daga einhverstaðar
á næstu grösum við bygð að úthallanda sumri, aðrir nokkrar vikur; flestir
voru óðar hirtir af yfirvöldum. Um fáeina aumíngja sem trúðu þjóðsög-
um, og sýndu trú sína í verki, má lesa í gömlum dómum en stundum í
annálum. Sérstaða Fjallaeyvindar, ekki endilega sem útilegumanns heldur
umfram alt sem íslensks kotúngs, er í því fólgin að hann gerði hvað eftir
annað bú sitt utan lögsögu í óbygðum; semsé bústaðir hans stóðu ekki alténd
í manntalinu. Þeir bæir sem hann reisti sér voru þó í aungvu frábrugðnir
venjulegum fjallakotum einsog á Islandi tíðkuðust hundruðum saman innan
lögsögu. Flest var einsog hjá öðrum kotúngum, nema aðgángur greiðari að
sláturfé hjá Eyvindi, jafnvel svo greiður að stórbændur máttu vel öfunda
hann. Auk þess hafði Eyvindur til að bera greind verklagni og hagsýni
meiri en flestir kotúngar og allir útilegumenn samanlagðir. Aðrir „útilegu-
menn“ virðast því miður vera af svipaðri manngerð og þeir sem nú verður
daglega lesið um í blöðunum og brjótast inní búðir og bakarí á nóttinni til
að stela skiftimynt brjóstsykri og vínarpylsum.
Reyndar fæ ég ekki betur séð af heimildum en þau árin hafi verið fleiri
sem Eyvindur sat löglega að búi heima á jörð konu sinnar vesturí Staðar-
sókn í Grunnavík, vel látinn af sveitúngum og gerði aungvum manni miska.
En Hrafnsfjarðareyri, jörð Höllu, er ekki skemtilegt pláss, fjörðurinn Hrafns-
fjörður er kuldalegur sjór og fjallið yfir firðinum, Gýgj arsporshamar, fjalla
harðast undir brún; ömefni eru þama dregin af tröllum og forynjum. Hér
var lifað á sjófángi mestan part við kjör sem ugglaust hafa verið óblíðari
en stunda sauðaþjófnað undir Arnarfelli eða í Hvannalindum.
365