Tímarit Máls og menningar - 01.07.1977, Qupperneq 27
Hallormsstaðarbréf
ast betur skóginum. Auðvitað höfðum við komið í skógræktarstöðina
og Sigurður frætt okkur á að þar væri trjágróður af flestum tegund-
um á norðurhveli jarðar, og við óskað eftir leiðsögn hans um staðinn.
Og einn dag tekur Sigurður okkur eins og tvö lítil börn við hönd sér
og leiddi okkur í lundinn, svo að talað sé á máli þjóðkvæðanna. I fyrstu
var allt mjög kunnuglegt, minnti eins og á velferðarríki nútímans
með uppeldisstofnanir, fóstrur, dagheimili og hvaðeina, jafnvel vöggu-
stofur fyrir litlu krílin, og farið þar á ofan að tala viðskiptamáli, svo
að féllu á okkur ískaldir dropar, hrollköld orð eins og nytjaskógur,
Reykjavíkurmarkaður, en þó held ég við höfum losnað við að heyra
tannbrjótinn þroskaþjálfi. En fegurðin sem við þráðum fór nú brátt að
segja til sín er Sigurður leiddi okkur úr einum lundi í annan og kynnti
fyrir okkur ættmeiði trjánna, ýmist þá er ráðið höfðu hér ríkjum frá
ómuna tíð, eins og birkið okkar fagra og góða, eða aðra af erlendum
uppruna og hinum göfugustu ættum, blágrenið, fjallaþininn, lerki og
lindifuru, og við heyrðum raktar ættir eins og í Landnámu gömlu, og
þegar við litum upp sáum við að allt stóð heima að landið var skógi
vaxið milli fjalls og fjöru, og fór nú ekki ólíkt og þegar þú vaktir upp
fólkið á bæjunum, að tímans bönd brustu og við vissum varla hvort
heldur við værum að hlusta á Ara fróða eða Sigurð, en þegar við átt-
uðum okkur aftur, varð okkur þó ljóst að aldrei höfðum við í Islendinga-
sögum heyrt ættir raktar jafn langt, hvorki í austur né vesmr, og ekki
hefði orðið mikið úr þeim Ara eða Sæmundi ef þeir hefðu átt að fara
að greina sundur ættir og afbrigði trjáa sem hér liðu fyrir augu, eða
hvað hafa þeir vitað um lerki eða lindifuru, eða þann mun að hafa
fimm fræfla en ekki tvo, og af því drógum við þá ályktun að Sigurður
hlaut að vera að blaða í nýrri Landnámu sem hann hafði sjálfur skrifað,
og við urðum æ heillaðri af frásögn hans og oft var sem tréin sjálf gripu
inn í, og þó að hjá sumum þeirra mætti heyra dulinn söknuð í hjart-
anu eftir heimahögum í Alaska eða Altaifjöllum, áttu þau varla orð til
að lýsa því hve þau yndu sér vel hér á Hallormsstað. Og nú fór unað-
ur um okkur sjálf að vera komin inn í lifandi heim, hina fögru veröld,
ef til vill sjálft framtíðarríkið, og við sáum herskara trjánna og hin
elstu þeirra og hávöxnustu fórnuðu upp greinum og blöðum, eins og
í bæn til sólar og hins heiðskæra himins, og öldungis urðum við frá
okkur numin er ungviðið í brekkunum og þar á meðal tugþúsundir
lerkitrjáa breiddu faðminn á móti okkur, öll hin fagurlimaða æska
137