Tímarit Máls og menningar - 01.04.1984, Síða 91
Konan, draumurinn og dátinn
einkenni á eðli þeirra og við hernámið tók hún völdin. Konur fengu það sem
þær vildu með kynferðissamneyti við hermenn og frásögnin af konu
skósmiðsins sýnir að þetta tengist ofbeldi. Obeint er verið að segja að konur
vilji láta kúga sig.
Við skulum nú athuga hvernig viðtökur bókin hlaut, hvernig hún var
túlkuð og hvaða samhengi það sýnir við það sem fram hefur komið.
Norðan við stríð var vel tekið þegar hún kom út. Bókin virðist hafa selst vel,
önnur prentun kom fljótlega, og gagnrýnendur dagblaðanna völdu hana
bestu bók ársins 1971; Indriði hlaut Silfurhestinn.
Gagnrýnendum fannst sagan góð sem heimild. Andrés Kristjánsson segir
í Tímanum að Norðan við stríð sé ásamt 79 af stöðinni og Landi og sonum
. . . merkasta og mikilvægasta bókmenntaframlag og nærfærnasta heimild,
sem þjóðin á enn um einhverja mestu fardaga, sem hún hefur lifað og
hamskipti, sem urðu í sársaukafullri áraun á fjórða og fimmta áratugi tuttug-
ustu aldar. (Tíminn 18. 12. 1971)
Jóhann Hjálmarsson segir í ræðu er hann flutti við afhendingu Silfur-
hestsins að sagt sé frá samskiptum Islendinga og setuliðsins af vægðarlausu
raunsæi (Mbl. 15. 1. 1972).
Og Árni Bergmann sem þó er ekki að fullu sáttur við efni sögunnar, hann
hefði viljað meiri umfjöllun um aðrar hliðar hernámsins eins og hermang,
gervivinnu og andóf, telur að sagan sé
. . . í heild mjög sennileg lýsing á stað og stund, — í henni er mikið safn af
persónum, atvikum og skrýtlum, sem hver um sig virðist fyllilega standast
prófun. (Þjv. 18. 12. 1971)
Þó sé ekki hægt að segja að hún bregði upp nýju og óvæntu ljósi á atburði
heimsstyrjaldarinnar á Islandi né setji afleiðingar þeirra í stærra samhengi.
En hún sé haglega gerð sem annáll sýnilegra atburða. (op. cit.)
Persónulýsingar hljóta góða dóma. Andrés Kristjánsson segir að hver
gerð fái sinn fulltrúa, allir þekki þetta fólk en þeim kynnum fylgi ekki
lengur nein fordæming og síst af öllu setji höfundur sig í dómarasæti:
Þegar böndunum er . . . allt í einu svipt af, hömlur vana og hefðar bresta, og
mannskepnan stendur allt í einu andspænis nýjum ögrunum eða nýjum
tækifærum, bregzt hver og einn við á sinn hátt í samrœmi við eðli sitt og
áunnið lífsmat. (Tíminn 18. 12. 1971) [Leturbreyting mín].
209