Tímarit Máls og menningar - 01.04.1984, Page 93
Konan, draumurinn og dátinn
Lokaorð
Hernámsárunum 1940—45 hefur oft verið lýst sem einu afdrifaríkasta
tímabilinu í sögu tuttugustu aldar á Islandi. Samskipti íslenskra kvenna og
erlendra hermanna ber oft á góma þegar fjallað er um þessi ár og stundum
verða þau aðalatriðið. Eins og ég hef nú sýnt fram á hefur umræðan um
þessi samskipti verið reist á mjög einfaldri og fordómafullri hugmynd:
Konur hafa ákveðið eðli sem lýsir sér í eftirgjöf, lítilli meðvitund og þrá eftir
því að vera gefin undir aðra. Þetta eðli birtist sterkast þegar hermenn,
fulltrúar valds og ofbeldis, eru annars vegar, þá rætist æðsti draumur
kvenna. Hernaðarlegt ofbeldi (hernám) er beinlínis tengt við kynferðislegt
ofbeldi (nauðgun), konur njóta hernámsins því þær vilja láta hermenn kúga
sig-
Umfjöllunin um hernámsárin hefur því einkennst af mjög ákveðnum for-
dómum um konur og hlýtur það að vekja ýmsar spurningar um hvernig
slíkt getur átt sér stað. Ég kom með eina skýringartilraun og benti á að með
því að leggja ofuráherslu á konur og kenna þeim um allt sem miður fór, væri
fundinn blóraböggull sem hægt væri að varpa allri sök á. En ekki er
aðalatriðið að reyna að svara því hvers vegna þetta gerðist, það skýrir heldur
ekki hvers vegna þessi umræða hefur reynst jafn almenn og langlíf og hún
hefur verið. Það hlýtur að vera mikilvægara að viðurkenna að hún er
afturhaldssöm og því full þörf á að endurskoða hana frá grunni.
Tilvitnanir
1) Vésteinn Olason: „Frá uppreisn til afturhalds — Breytingar á heimsmynd í
skáldsögum Indriða G. Þorsteinssonar", Skírnir 1981, bls. 133.
2) Helga Kress: „Kvinne og samfunn i noen av dagens islandske prosaverker",
Ideas and Ideologies in Scandinavian Literature since the First World War,
Reykjavík 1975, bls. 220.
3) Op. cit., bls. 239.
4) Indriði G. Þorsteinsson: „Kona skósmiðsins", Sœluvika, Reykjavík 1951, bls.
132-140.
5) Það er fróðlegt að skoða þessa senu með hliðsjón af þeim dæmum sem Kate
Millet kemur með í fyrsta hluta bókar sinnar, Sexual Politics (1970), einkum
fyrsta dæminu. Kona skósmiðsins heldur sýningu á sjálfri sér, hermennirnir
horfa á hana en hún skiptir þá engu máli, uns einn þeirra gengur að henni sem
gefnum hlut og ríður henni án nokkurs formála. Kona skósmiðsins mótmælir
fyrir siðasakir en nýtur þess í rauninni að vera beitt kynferðislegu ofbeldi. Sjá
einnig: Helga Kress: op. cit., bls. 221.
211