Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Síða 14
Tímarit Máls og menningar
sterk ítök í frönsku menningarlífi á þessum sama tíma til góðs og ills.
Samkvæmt þeim kenningum voru framleiðsluhættirnir hreyfiafl sögunnar
og réðu því t. d. að „lénsskipulag“ tók við af „þrælahaldi“ og „kapítalismi“
síðan við af „lénsskipulagi", en fyrirbæri menningarlífsins voru lítið annað
en afleiðingar framleiðsluháttanna. Þessar hugmyndir ýttu vitanlega undir
þá tilhneigingu að draga fram efnahags- og þjóðfélagssögu á kostnað
annarra greina sagnfræðinnar og gera þau vinnubrögð nánast að sáluhjálpar-
atriði.
A seinni hluta sjöunda áratugarins og byrjun hins áttunda varð enn
stefnubreyting: þá var allt í einu eins og menn færu að snúa baki við
efnahags- og þjóðfélagssögu eins og hún hafði tíðkast í nokkra áratugi. Þess
í stað tóku sagnfræðingar, sem verða að teljast til þriðju kynslóðar Annála-
hreyfingarinnar, að rannsaka hugarfarssögu. Hefur Philippe Ariés bent á, að
þessi stefnubreyting hafi orðið, þegar hálfvelgja komst í trú manna á
stöðuga efnahagsþróun og ný kynslóð tók að efast um að hún gæti leyst öll
vandamál. Ymsir forsprakkar þessarar nýju stefnu höfðu byrjað sinn feril
með því að fást við efnahags- og þjóðfélagssögu, stundum með góðum
árangri: þannig hafði Georges Duby fyrst hlotið frægð fyrir mikið verk um
franskan landbúnað á miðöldum, sem er tvímælalaust meðal merkustu
sagnfræðirita síðustu áratuga, Jacques Le Goff hafði samið smárit og
ritgerðir um kaupmennsku og vinnu á miðöldum og Emmanuel Le Roy
Ladurie hafði varið mikla doktorsritgerð um bændur í Languedoc í byrjun
nýju aldar. Reyndar höfðu þessir sagnfræðingar alltaf haft augun opin fyrir
ýmsum þáttum hugarfarssögu, en stefnubreytingin var samt skýr. Eitt besta
táknið um hana var kannske að Duby skyldi geta birt grein undir titlinum
„ Lénsskipulagið, miðaldahugarfar" - slíkt hefði verið talið hin argasta
goðgá á sjötta áratugnum. Meðal rita Dubys síðan má nefna Lögstéttirnar
þrjár, um þjóðfélags- og stjórnmálaviðhorf á 11. og 12. öld og Konan,
klerkurinn og riddarinn um viðhorf miðaldamanna til hjónabands. Fyrir
utan merkar ritgerðir um hugarfarssögu gaf Le Goff út grundvallarrit um
hugmyndir manna á miðöldum um hreinsunareld og framhaldslíf. Uppruni
hreinsunareldsins, 1981, og Le Roy Ladurie gaf út ritið Montaillou 1975 um
þjóðfélagsbyggingu og hugmyndaheim manna í samnefndu þorpi í Suður-
Frakklandi í byrjun 14. aldar. Annað verk hans gefur e. k. þverskurð af
hugarfari á 16. öld: Kjötkveðjuhátíðin í Romans, 1979.
Sagnfræðingar úr ýmsum öðrum áttum hafa einnig tengst þessari nýju
stefnu. Má t. d. nefna Philippe Ariés, sem hafði löngum verið sér á báti en
var allt í einu staddur í straumnum miðjum, þegar hann gaf út rit sitt um
viðhorf Vesturlandabúa til dauðans 1977 (Maðurinn andsprenis dauðanum),
og heimspekinginn Michel Foucault, sem hafði birt þrjú bindi af sögu
412