Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 59
Gubmundur Hálfdanarson
Takmörkun giftinga eða
einstaklingsfrelsi
íhaldssemi og frjálslyndi á fyrstu árum hins endurreista alþingis
I.
Einu sinni endur fyrir löngu komst Island undir stjórn vondra útlendinga,
sem hugsuðu um það eitt að pína þjóðina og hafa út úr henni sem mest fé.
Smátt og smátt var landið slegið svörtu myrkri vonleysis og doða, sem
heltók hina stoltu og merku þjóð. Skyndilega, eftir margra alda niðurlæg-
ingu gerðist það svo, öllum að óvörum, að hnípinni þjóð hlotnaðist sú gæfa
að meðal hennar fæddist hópur úrvals gáfumanna. All flestir sigldu þeir utan
til náms og námu ýmis fræði. A þessum tíma var alþýða manna í hinum
stóra heimi að brjóta af sér kúgunarfjötra einvaldsstjórna undir merkjum
frjálshyggju og þjóðernisstefnu. Stúdentarnir góðu drukku í sig þessar nýju
kenningar og blésu til orrustu. „Dagur er upp kominn“, sögðu þeir löndum
sínum. Alþýða íslands, bogin undan oki erlends valds og fátæktar, lagði við
hlustir og gekk hinum nýju innfluttu kenningum á hönd. Hófst þá barátta
gegn erlendri kúgun og innlendum hefðum, barátta sem hefur skapað það
samfélag framfara, frelsis og ríkidæmis sem við teljum okkur búa við í dag.
Eitthvað á þessa leið hljómar oft saga íslenskrar sjálfstæðisbaráttu. Sagan
hefur orðið lífsseig, enda hefur hún að talsverðu leyti tekið á sig svip
helgisögunnar, sem ekki leyfist að hrófla við. Og víst er að sagan er hrífandi.
Hún leggur áherslu á mátt hetjunnar gegn ofurefli og einnig sigur réttlætis-
ins yfir hinu ranga. En fáir hafa bent á hve einstæð þessi saga er í
veraldarsögunni, ef sönn reynist. Hér er gert ráð fyrir menningarbyltingu
ofan frá. Og það er ekki víða sem menntaðri elítu hefur lánast að breyta jafn
rækilega hugsunarhætti og hugmyndaheimi heillar þjóðar og hér er gert ráð
fyrir. Frönsk alþýða varð þannig lítt vör við hræringar í salónum Parísar-
borgar á tímum upplýsingarinnar, svo eitt dæmi sé tekið. A sama hátt mætti
frjálshyggja yfirstéttarinnar litlum skilningi meðal ensks almennings. Þar
457