Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Side 68
Tímarit Máls og menningar
fögnuð. Olafur Jónsson, þingmaður Húnvetninga, taldi þannig að forsetinn
fyrrverandi sýndi með máli sínu heldur lítinn skilning á hag landsins.29
Enginn vafi er á að Jón Sigurðsson naut mikillar virðingar fyrir þátt sinn í
baráttunni við Dani, en fjarri var að landar hans létu forystumanninn segja
sér til í einu og öllu um hvernig efnahagslífi þjóðarinnar væri best hagað.30
Ef satt skal segja, þá virðist stjórnin og fulltrúar hennar hafa verið það afl
á þingi sem einna harðast barðist fyrir auknu frjálslyndi á Islandi um og eftir
miðja 19. öld. Enginn vann, svo dæmi sé nefnt, harðar gegn takmörkunum á
öreigagiftingum en Þórður dómstjóri Jónasson, sem var konungkjörinn
fulltrúi um árabil. Það var líka að frumkvæði stjórnarinnar sem heldur var
losað um atvinnufrelsi manna á 7. áratug aldarinnar — og var þar þó gengið
mun skemmra en stjórnin vildi sökum eindreginnar andstöðu þingmanna.31
Eg held, að það sé einmitt hér sem við ættum að leita áhrifa frjálslyndra
hreyfinga á pólitískt líf Islendinga. Frönsku byltingarnar tvær, í júní 1830
og febrúar 1848, höfðu nefnilega bein áhrif í Danmörku og urðu til þess á
endanum að steypa einveldinu danska úr sessi. I anda frjálslyndis vildi
danska stjórnin eftir 1848 losa um þau höft sem ríktu á Islandi, a. m. k. svo
framarlega sem slíkt rýrði ekki um of tekjur ríkiskassans eða áhrifamikilla
þrýstihópa í Danmörku. Það væru ýkjur að halda því fram að stjórnin hefði
stefnt að byltingarkenndum breytingum í hjálendunni, en ljóst er þó að
aðgerðir þeirra stefndu heldur að því að losa um bönd á frelsi einstakl-
ingsins.
Vaxandi afskipti stjórnarinnar af íslenskum málum voru ekki vinsæl á
Islandi og voru jafnvel ein helsta kveikjan að þeim blossandi áhuga sem varð
í sjálfstæðismálunum um og eftir miðja 19. öld. Flestum þingmönnum
alþingis geðjast lítt að því frelsi sem stjórnin boðaði. Asgeir Einarsson bóndi
og þingmaður Strandamanna um árabil, benti í því sambandi á, að „þegar
talað er um frelsi og ófrelsi, lítur sínum augum hver á silfrið; sumir skilja við
frelsi sjálfræði, en aðrir þjóðfrelsi; þeir vilja að þeir stjórni, sem eiga að
stjórna, en ekki ráðleysingjarnir ... “32 íslendingar vildu þjóðfrelsi, en það
var langt því frá að vera hið sama og einstaklingsfrelsi. Þjóðfrelsið virðast
þingmenn alls ekki hafa ætlað að nota til þess að umbylta hefðbundnu
samfélagi íslands, þvert á móti vildu þeir styrkja íslenska landbúnaðarsamfé-
lagið og gera því kleift að bregðast við vandamálum sem að því steðjuðu.
Hér gegndi bann við öreigagiftingum lykilhlutverki þegar æ erfiðara
reyndist að sporna gegn aukinni lausamennsku og húsmennsku sökum
vaxandi fólksfjölda. Þar kom meirihluti þjóðkjörinna þingmanna fram sem
andstæðingar nýrra hugmynda um persónufrelsi einstaklingsins, á meðan
danska stjórnin hvatti til aukins frjálslyndis í takt við samfélagsþróun í
Danmörku á þessum tíma. Þess vegna má spyrja hvort upphaf baráttunnar
466