Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 77
Draumar í Islendingasögum
Með þessum draumi Gissurar komum við að hvatningardraumum. Þeir
ná rétt tylftinni í safni mínu, sumir með trúarlegu ívafi eins og þessi
draumur, en oftar ræður þó heiðinn og forneskjublandinn hefndarhugur.
Skulu nú sýnd dæmi þess.
Þórhallur er upphafsmaður að illmæli um Þorstein Síðu-Hallsson (eins og
segir í sögu hins síðarnefnda). Hefndin hefir dregizt lengi þrátt fyrir nöpur
eggjunarorð Kols, bróður Þorsteins. Nótt eina dreymdi Þorstein að Jó-
reiður móðir hans (sem var dáin) kæmi að honum og spyrði:
„Ætlar þú nú brátt til sættafundar við Þórhall?"
Þorsteinn þykist neita því.
„Vilt þú hefna þá?“
Hann þykist játa því.
„Ekki þarftu þá lengur að fresta, því að ekki mun fyrr falla niður
illmælið en hefndin fer fram“.
Hún nefnir auk þess öxina (ættargrip), sem hann skuli hafa að vopni.
I Þorsteins sögu Geirnefjufóstra dreymdi söguhetjuna „að maður kom að
mér og laust mig högg mikið með hjalti vopns þess er hann hélt á, en það var
krókaspjót allbiturlegt og blóðugt mjög, og þóttist eg þar kenna föður minn
og svo vopn hans“.
I þremur vísum segir draummaðurinn syni sínum, að hann hafi verið
veginn, nefnir vegandann og eggjar ákaflega til hefnda, „ella níðingur
nefndur vertu“.
Þegar Þorsteinn vaknar, finnur hann blóðugt sverð föður síns undir
stokki hvílunnar.
Trúarlífsdraumar
Slíkir draumar eru fjölmargir, en þeir skiptast ekki jafn auðveldlega í einn
flokk og váboðadraumar. Nálægt 40 draumar falla þó ótvírætt undir þetta
heiti, en auk þeirra er fjöldi vitrunar- og siðvendnidrauma, sem bera sterkan
trúarblæ, þó að trúin sé þar ekki einráð. Einnig hafa margir undra- og
kraftaverkadraumar greinilegt trúarívaf. Þó að nýr átrúnaður væri lögtekinn
á Alþingi árið þúsund, gerðust trúskiftin sjálf raunar á mjög löngum tíma og
ollu mörgum manni vafa og heilabrotum. Mönnum veittist örðugt að hverfa
frá sjálfbirgings- og hnefaréttarhugsjónum heiðninnar til auðmýktar og
kærleika, sem hinn nýi siður boðaði.
Dæmi um trúarlífsdrauma:
475