Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Síða 86
Tímarit Máls og menningar
Haldið kjafti, segir hann við táningana. Er einhver matur? spyr
hann mig.
Það er matur núna. Meira að segja mjólk. Meðan ég helli úr
rokdýrri fernunni hugsa ég til kúnna sem ég átti einu sinni.
Nei, ekki hugsa um það. Alls ekki.
Mamma. Minnsta stelpan togar í mig. — Hvenær kemur pabbi?
Hvenær batnar honum í bakinu?
Bráðum, segi ég. Það er of snemmt að augun hennar fyllist alvöru.
Hún er svo fíngerð og grönn.
Hávaðinn í matartímunum mundi gera erkiengil brjálaðan, hugsa
ég. Reyni að stilla mig um að æpa líka. Sú litla klappar mér á kinn.
Mamma, þegar ég verð stór skal ég gera allt svo þú þurfir ekkert að
gera-
Fínt, elskan, segi ég, vitandi að fyrir þann tíma verður hún búin að
upplifa að hún er þá orðin táningur sem á heiminn, en ég gamaldags,
leiðinleg og vitlaus.
En er á meðan er.
Eg tek hana í fangið þegar hin eru farin, vef að mér grannan
barnslíkamann og segi já og nei á réttum stöðum. Fel andlitið við
ljóst hárið meðan hún masar.
Litla stúlkan mín.
En brátt kemur lítil vinkona sem er að fara út í snjóinn.
Pollabuxur, húfa, úlpa, vettlingar. Allt í réttri röð. Börnin hlæja og
velta sér í snjónum. Veröld þeirra er björt eins og útmánaðadagur.
Og ég grúfi mig fram á eldhúsborðið og læt mig hverfa til
birtunnar óskýranlegu sem fyllir týndu trjágöngin. Nú opnast þau
fyrir mér, full af hreinleik og þögn, lengra og lengra.
Óendanlegur lýsandi snjór í stafalogni. Það er ekki sólskin, heldur
jöfn dularfull birta sem er hlý og henni fylgja engir skuggar, glóbjört
fyllir hún stað og stund. Að baki mér veit ég af stóru, dökku húsi úr
fornum viði. En þar er engin hreyfing og engir gluggar, ekki á
hliðinni sem veit að mér. Og húsið kemur mér ekki við. Eg legg af
stað inn í trjágöngin hvítu og greinarnar fléttast yfir höfði mér, geng
áfram, áfram inn í glitrandi þögnina. Og ekkert fótatak heyrist.
Ekkert.
Þögnin er draumur og kærleikur, ilmur og tónar og eilífð.
484