Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Side 110
Tímarit Máls og menningar
„Við komumst þá aldrei upp í fjöllin," sagði ég.
Andlit Winníar var hvítt og sviplaust í myrkrinu og röddin var
þreytuleg:
„Skiftir það nokkru,“ sagði hún. „Skiftir það nokkru máli hvort þú
og ég sjáum þessi fjöll.“
Hildigunnur Hjálmarsdóttir þýddi
Danski rithöfundurinn H. C. Branner (1903 —’66) er ekki mjög þekktur hér á landi
þótt hann sé af mörgum talinn merkastur samtímahöfunda sinna danskra, þeirra er
rituðu á árunum laust fyrir heimsstyrjöldina síðari og næstu tvo áratugi á eftir. Hann
fékkst við allar tegundir bókmennta nema ljóðagerð og var jafnvígur á öll form. List
hans er þó talin rísa hæst í smásögunum.
Helstu verk hans eru: skáldsögurnar Legetöj (Barnagull) 1936, Drömmen om en
kvinde (Draumur um konu) 1941, Rytteren (Reiðmaðurinn) 1949 og lngen kender
natten (Enginn þekkir nóttina) 1955, leikritin Söskende (Systkin) 1952 og Thermo-
pyle 1958, smásagnasöfnin Om lidt er vi horte (Á bráðfleygri stund) 1939 og To
minutters stilhed (Tveggja mínútna þögn) 1944, auk útvarpsleikrita og margra
ritgerða.
Fyrsta skáldsaga hans Legetöj aflaði honum þegar frægðar, en þegar Rytteren kom
út varð uppi fótur og fit í danska bókmenntaheiminum og bókinni var fagnað sem
öndvegisriti, þótt ýmsar hugmyndir sem þar koma fram yllu deilum. Hróður hans
jókst með hverju nýju verki og voru mörg skáldverk hans þýdd á erlendar tungur.
Ekkert hefur þó verið þýtt eftir hann á íslensku.
í verkum sínum fjallar Branner um vandamál er snerta tilveru mannsins og um
stöðu hans í nútímaþjóðfélagi. Einsemd, hamingjuþrá, leyndardómar kynlífsins,
frelsi og ábyrgð eru algeng yrkisefni hans. Hann áfellist falskt verðmætamat og eftir
því sem líður á rithöfundarferil hans verða bækur hans dulrænni, því skynsemin
getur einungis túlkað raunveruleikann sem brjálsemi, og vanmáttur einstaklingsins
gegn sterkum, ópersónulegum öflum í lífinu er alger. Stríð túlkar Branner sem
margfeldi þess illa sem býr í einstaklingnum. Þótt mannleg viðhorf séu ætíð
undirstaða verka Branners, telur hann hvorki æskilegt né mögulegt að móta sér
óumbreytilega lífsskoðun, því kyrrstaða jafngildi stöðnun.
H. C. Branner kom til íslands í boði Dansk-íslenska félagsins í nóvember 1959 og
flutti þá fyrirlestur í Háskóla Islands um hlutverk listarinnar og listamannsins í
þjóðfélagi nútímans.
Sagan hér á undan er úr smásagnasafninu Tveggja mínútna þögn.
(Þýð.)
508