Tímarit Máls og menningar - 01.05.1988, Side 30
Tímarit Máls og menningar
skera úr um það hve mörg þeirra skopkvæða sem ganga þegar manna á
milli í fjölrituðu kveri, nefndu Jóns bók Helgasonar, eigi að koma upp á
yfirborðið og prentast í virðulegu bókarformi. Að sjálfsögðu þarf að sýna
tillitssemi gagnvart öllum sem í hlut eiga og skyldmennum þeirra, jafnt
þeirra sem hafðir eru að skotspæni sem og þess sem skeytin sendi, því þess
konar skeyti eru í ætt við vopn þau sem eiga til að hitta sendandann sjálfan
á endanum. Auðvitað eiga skopljóð sem slík fullan rétt á sér, einkum ef þau
eru ort af þeirri heilögu bræði og vandlætingu sem einkenndi til dæmis
skáldskap Júvenals. Slíkt verður hins vegar vart sagt um skopljóð Jóns, því
þau virðast oftast ort af fremur smávægilegu tilefni, líkt og höfundur þeirra
hafi tileinkað sér það háttalag Þorgeirs Hávarssonar að vega að mönnum
fyrir þær sakir einar að standa vel við höggi. Það sem hann beinir spjótum
sínum að eru sjaldnast eða aldrei neinir meiri háttar lestir eins og fanta-
skapur eða fúlmennska heldur einatt minni háttar ávirðingar eins og sýnd-
armennska, grobb, hégómleiki og yfirlæti, en það er kannski, þegar öllu er
á botninn hvolft, ekkert undarlegt að einmitt sá sem er ofurnæmur fyrir
fánýti og fáfengileika mannlífsins skuli síst af öllu geta unnt mönnum þess
að vera yfirmáta hrifnir af eigin ágæti og góðir með sig.
En mergurinn málsins er sá að hér er yfirleitt um að ræða kvæði sprottin
af stundarkerskni sem fremur eru ætluð og fallin til að ganga manna á milli
innan ákveðins hóps en að koma fyrir almennings sjónir í ^eymilegri bók.
Að vísu birti Jón nokkur slík kvæði í fyrstu útgáfunni af Ur landsuðri, og
þau var auðvitað sjálfsagt að birta hér, þótt þeim hafi verið sleppt í annarri
útgáfu, enda standa þau öll fyrir sínu í listrænu tilliti. Hins vegar var lítil
ástæða til að draga fram í dagsljósið sjö áður óbirt kvæði af þessu tagi, þótt
öll séu þau fremur græskulaus. Aflog þeirra Gólons og Ursusar eru
kannski í sjálfu sér ekkert ómerkilegra viðfangsefni en margar fólkorrustur
og vígaferli fyrri tíma, og ráp danskra manna um hálendi Islands hlýtur að
vera íslenskum skopskáldum kærkomið yrkisefni og raunar klassískt eftir
að Jónas orti Annes og eyjar. En snilldin er víða meiri í áðurnefndri Jóns-
bók en í einmitt þessum kvæðum, og þau hefðu því ásamt öðrum mátt bíða
neðanjarðar enn um sinn síns vitjunartíma. Það skal því eftirlátið öðrum að
vega þau og meta, enda mál til komið að huga að þýðingum Jóns, þótt það
verði að vísu að bíða til næsta heftis.
164