Tímarit Máls og menningar - 01.05.1988, Qupperneq 90
Tímarit Máls og menningar
Sögumaðurinn
Ég er sögumaðurinn. Ég á ekki heima hér. í morgun heyrði ég söng
jökulsins, eins og sellóstrengur brysti, snöggt, óp sem barst úr því
óheyranlega, fór hjá, hvarf inn í það sem við sjáum ekki: inn í mig, á
klettinum, umleikinn óvæntu sólskini. Steinninn skalf lengi, landið
hafði færst til. Tilfærsla á breidd við hnífsodd, svo tröllaukin að hún
varð ekki numin.
Fyrir neðan lá sandurinn, þögull að vanda. Fjallshlíðin var græn
og svört, himinninn grár: allt svo gjörbreytt á augabragði, eins og
stundaglasi væri hvolft við. Sami sandur, sama glas, en straumurinn í
gagnstæða átt.
Hér verða án afláts gagngerar breytingar: rúta kemur í Skaftafell.
Barn dregur bréf varlega af íspinna. I kjarrinu fugl að nálgast þögn
dauðans, kuldinn læsist hægt um fjaðurhaminn. Inni í klakanum
þokast hundrað metra langir ísflekar þumlung hvor frá öðrum. Ein-
hver hefur verið drepinn. Allt berst orðalaust gegnum núllpunkt
sinn og kemur út hinumegin, nú með eigin fjarveru másandi á hæl-
unum.
Nú stend ég á sandinum. Þegar dimmir verður sjóndeildarhring-
urinn beittur eins og sverð. I húminu hverfa húsin, gamlir ringlaðir
nýgræðingar í jaðrinum milli íss og sands.
Á sandinum er enginn nema ég, tjaldurinn, ljósaskipti í tjörnum.
Ef ég loka augunum eru sandurinn og vatnið og hljóð þeirra til
saman. Ef kvak fuglsins kallaði mig ekki til baka: hvað væri til?
Sandur, ís, myrkur og vatn, grá kvöldbirtan á jöklinum.
Hér á sandinum er ekkert til, ekkert, nema vindurinn í hári mínu
og flókið kerfi þessara grunnu polla, sem safna í sig síðustu gráu
skímunni, þúsund ára hreyfing íss að vatni, steins að sandi. Aðrir
hafa farið á undan mér út á sandinn. Ég hími við fjöruborðið, strýk
fótum fram og aftur í gljúpri bleytunni, eins og vaðfugl sem fikrar
sig varlega um í vatnsborðinu, án þess að þora að yfirgefa mitt
eiginlega umhverfi: hikandi, með leifar af gamalli ást eins og sótflög-
ur á glerrúðu, sem byrgja sýn út í átt að Engu.
Hvað er fuglinn að gera hér?
Villt óp, óljós hringur hnitaður, óviðeigandi í kyrrðinni. Ef ekki
væri fyrir hann væri ekkert milli mín og sjóndeildarhringsins, milli
224