Tímarit Máls og menningar - 01.05.1988, Síða 93
Sigríður Rögnvaldsdóttir og Jón Karl Helgason
Maður eða kona?
Lýst eftir aðalpersónum í skáldsögu Jóns Thoroddsen
„En með því að ímynda yður falsreglur hafið þér fundið eitthvað . . .“
„Þarna sagðirðu mjög fallegan hlut, Adso, þakka þér fyrir það. Reglan sem
hugur okkar ímyndar sér er eins og net, eða eins og stigi, sem maður smíðar
sér til að ná einhverju. En á eftir verður maður að kasta stiganum, vegna þess
að maður uppgötvar að, enda þótt hann hafi komið að gagni, var hann sjálfur
meiningarlaus."
Nafn rósarinnar1
Þegar aðalpersóna Nafns rósarinnar, Vilhjálmur af Baskerville, getur nafn-
greint og lýst hesti sem hann hefur hvorki séð né heyrt um fyllast allir
viðstaddir - lesandinn þar með talinn — lotningu fyrir ályktunarhæfni hans.
Aðferð Vilhjálms er þó sáraeinföld. Hún felst í að ráða í þau tákn sem
verða á vegi hans, hann líkir heiminum við stóra bók sem bíður þess að
verða lesin. Þetta atvik gerist í upphafi sögunnar þegar Vilhjálmur er á leið
til dvalar í klaustri því sem verður síðan meginsögusvið bókarinnar. Vil-
hjálmur er ekki fyrr kominn inn fyrir klausturveggina en lík fara að hrann-
ast upp í kringum hann. Ymis tákn benda til að morðingi sé á sveimi og
Vilhjálmur leggur allt kapp á að lesa þessi tákn og greina samhengi þeirra,
ríða net til að veiða sökudólginn í.
Þessi grein fjallar ekki um Nafn rósarinnar en verkefni okkar er ekki
ósvipað verkefni Vilhjálms. Við erum að vísu ekki á höttum eftir morð-
ingja, enda engan slíkan að finna í þeirri atburðarás sem við ætlum að
rannsaka hér, skáldsögunni Manni og konu eftir Jón Thoroddsen. Við höf-
um þess í stað í hyggju að leita uppi aðalpersónur verksins, þxr persónur
sem gegna meginhlutverkum í sögunni og hafa mesta þýðingu fyrir fram-
vindu hennar.21 þeirri leit þurfum við að beita aðferð Vilhjálms, lesa í tákn
verksins, finna verksummerki sem koma upp um þann „seka“.
Vettvangsrannsókn
Maður og kona var fyrst gefin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags
árið 1876 en þá voru átta ár liðin frá dauða höfundarins. Af heimildum má
ráða að Jón hafi undir það síðasta ætlað verki sínu þetta nafn en áður hafði
227