Tímarit Máls og menningar - 01.12.1993, Blaðsíða 60
Þórunn Valdimarsdóttir / Megas
Stúlka í turni
Morgun einn stendur fiskimannsdóttirin í fjörunni og bíður föður síns.
Hún skimar eftir honum skyggndu auga, en ekki kemur hann samt.
Alda fylgir öldu, en aldrei hann.
Þetta er einstæður fiskimaður og móðurlaus fiskimannsdóttir, en
hefur heimilisbragur þó verið með mestu ágætum. Þau sofa sitt hvoru
megin í risavöxnu rúmi undir rósóttri sæng. Þetta eru mjúk feðgin, miklu
mjúkari en venja er til með fólk almennt. En nú saknar hún föður síns og
er óttaslegin.
— Farðu að koma faðir minn.
Alda fylgir öldu, en aldrei kemur faðir hennar.
Stilliblíða er og mestu ljómastillur, en morgunninn líður og ekki skilar
faðirinn sér heim í vör, allar varirnar, gapandi tómar, gína við hafi og
himni.
— Það er ekki fjörið í vörinni núna, faðir minn, segir hún og tínir
þang oní kúna, of skynsöm til að týna sjálfri sér.
Loks sér í skip á sjónarröndu og guði sé lof fyrir botnlausa gæsku
hans. Hún situr stolt á steini með hönd undir hægri kinn, horfir á haf út,
gildvaxin gælir við stein holdmiklum rassi sem stinnur á móti stynur á
móti. En skyndilega stekkur hún á fætur. Skipið er með rautt og svart
segl, guð minn almáttugur, henni svelgist á svörtum kræklingnum sem
hún var að sjúga, rauðan og holdlegan. En hún róar sig niður og rær sig
niður á steininn aftur.
— Kannski er þetta björgunarsveitin með föður minn í farteskinu.
Hún stingur öðrum krækling úr netsálinni upp í sig.
— Góðir eru kræklingar til átu, sagði hún amma mér, og til að krækja
í karl er ráð að eta kræklinga, þá ilmar maður upp úr og niður úr, og þeir
sjá jafnvel ekki ljótasta trýni fyrir tælandi álagailmi. Ekki það að ég sé
58
TMM 1993:4