Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Page 13
hraktist mjög víða“ heldur er sýn hennar, hin ríkjandi heimsmynd, njörvuð
við samskipti valdhafanna.
Frásagnarlistin og skáldskapurinn eru sá punktur tilverunnar þar sem við
stöndum og segjum: Ekkert mannlegt er mér óviðkomandi.
I frásagnarlist aldanna stendur maðurinn andspænis ofureflinu á meðan
fréttir og fjölmiðlar sýna okkur aðeins ofureflið einsog það birtist, vopnaskak
þess og hagtölur en ekki kossinn sem birtist í eilífðinni eða augngotuna sem
segir allt.
Norræn frásagnarlist hvílir á gömlum merg. í grein um Heimskringlu Snorra
Sturlusonar skrifar Halldór Laxness: „Sjóræningjar, búhöldar og afdala-
kóngar norðan af hjara veraldar rísa tignarstórir úr ósannfróðlegri
fornaldarnótt sinni og spyrna enni við himinhvelinu.“
Það er einmitt þetta sem er kjarni málsins, hin ljóðræna einvera alheims-
ins, þar sem norðurljósin loga í götulugtunum, og skáldið situr í turni á
heimsenda og horfir yfír völlinn á akra og grjót, borgir og menn.
Þú sem átt heima
með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
sem stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
í bókmenntunum er ekki nema spölkorn á milli alda. Fortíðin er ekki lengra
í burtu en rakarastofan úti á horni.
fslendingasögurnar, goðafræðin, Hávamál, Völuspá, Fornaldarsögur
Norðurlanda, Ævintýri H.C. Andersens, Kalevala, þjóðsögur, munnmæli,
þjóðtrú og fleira; allt myndar þetta grunn norrænnar frásagnarhefðar, kjarna
sem ásamt sígildu norrænu nútímasögunni, með höfundum á borð við
Strindberg, Hamsun, Laxness og Heinesen — og þeir eru fleiri — gefur vind
í seglin og loft undir vængi. f þessari fortíð býr grunnur alls: raunsæis,
ímyndunarafls, ævintýra og ljóða.
Úr þessum sagnaarfi þekkjum við hvernig hið ótrúlega birtist sem hlut-
tækur veruleiki. Töfrarnir í raunsæi okkar eru því engin innflutningsvara.
Ég nefndi hina norrænu frásagnarlist og búhöldana sem spyrna enni við
himinhvelinu. Um höfunda íslendingasagnanna segir Halldór Laxness:
TMM 1995:2
7