Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Blaðsíða 106
smekk fyrir þessu ljóði því ég tel einmitt í ævisögunni að aðferð þess hafí
Guðmundur numið af Hannesi Péturssyni. í Landsvísum (1963) birtir
Guðmundur svo enn nútímalegri ljóð en í fyrri bókum sínum.
Hannes sendi mér líka bréf sem hann hafði sjálfur fengið frá Guðmundi
meðan verið var að vinna að útgáfu þýðinga Guðmundar á tólf kviðum úr
Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante 1968. Þau snúast mest um ýmis
smáatriði í þýðingunni, en þar er líka skemmtileg athugasemd sem fengur
er að. Hannes talar í bréfi til Guðmundar um að hann hafi „orðið að
„bródera" sumt rímsins vegna“, og bætir við að hjá því verði trauðla komist
þegar allt sé fellt í endarím (Skáldið bls. 365). f svari sínu segir Guðmundur:
Það er alveg rétt og satt sem þú segir um „bróderingar" mínar í
þýðingunni, — en hver tími og hver maður einnig hefur sinn hátt
á ljóðmæli, þess utan er þetta ekki án fordæma með öllu, t.d. í þeirri
rímuðu, ensku þýðingu, sem ég hafði, er þetta stundum notað til
að ná í rímorð, eða beinlínis til að verða ekki hraunfastur á
flatlendi, aftur á móti kemst Molbech gamli hinn danski oft langt
með því að nota gamalt guðsbókamál, ég var ekki fær um það. Þess
utan eru mér ýkjur svo tiltækar, elskan mín, að það eru hrein
vandræði.
Eitt af því sem Robert Cook fann að þýðingu Guðmundar á Dante í grein
sinni í Skírni (sbr. Skáldið bls. 367) var einmitt hvað hann lengir málið, bætir
við orðum „rímsins vegna“. í bréfinu til Hannesar hefur Guðmundur svarað
þessari gagnrýni fyrirfram á sinn kímna og elskulega hátt.
Annað skáld sendi mér bréf frá Guðmundi sem hefði komið sér vel að
hafa við samningu lokakaflans. Jóhann Hjálmarsson var aðeins sautján ára
þegar hann gaf út sína fyrstu bók, Aungull í tímann (1956), og næsta bók
hans, Undarlegir fiskar, kom út 1958. Hann sendi Guðmundi eintakafhenni
og fékk bréf í staðinn. Þegar Guðmundur hefur skrifað eins konar umsögn
um bókina og talið upp kvæðin sem honum þykja best kemur þessi fallegi
kafli:
Annars skal ég segja þér það, að stundum þegar ég er að verja ykkur
ungu skáldin í líf og blóð, sem hafið yfirgefið rím og stuðla, þá
hvarflar að mér sterk löngun til að segj a við ykkur: verið þolinmóð-
ir, og umfram allt: misskiljið ekki sjálfir þá sem ekki skilja ykkur í
dag, því það eru þeir sem uxu upp í öðrum heimi en þið sjálfir, þeir
sem elskuðu hljóm og hrynjandi, af því að þeir voru vaxnir upp í
fábreytninni, þar sem þögnin er orðin að óvini, einverufólkið sem
fann yndi og tilbreytni í skellum hringhendunnar og vissi ekki
hvað það er að vera þreyttur allt til dauða af síbreytilegum hávaða.
— Nei, það skilur ekki til fulls af hverju þið kjósið heldur hina
þöglu mynd. Þetta eru þeir sem komu í gær og eru í dag. Aðrir
koma í dag og verða á morgun.
100
TMM 1995:2